Tók hvaða dóp sem að henni var rétt

Hún byrjaði að neyta fíkniefna hjá kærastanum, eldri strák.
Hún byrjaði að neyta fíkniefna hjá kærastanum, eldri strák. mbl.is/RAX

Hún glímdi við þunglyndi frá því hún var barn. Áður en hún fékk aðstoð hjá geðlækni hafði hún aldrei talað í síma eða lagt í að biðja um bland í poka úti í sjoppu. Félagsfælnin kom í veg fyrir það. Síðar var hún einnig greind með kvíðaröskun og geðhvarfasýki. Eftir nokkurra ára meðferð hjá geðlækni var hún búin að ná ágætum bata. „Þá var mér nauðgað. Ég var 12 ára,“ segir hún.

Viðmælandi Morgunblaðsins er 17 ára stúlka sem sökk til botns í fíkniefnaneyslu á örfáum árum. Í dag er hún edrú. Hún velti því fyrir sér að koma fram undir nafni í viðtalinu því kannski myndu einhverjir gamlir vinir hennar úr neyslunni lesa það og sjá að þeir gætu líka brotist út úr fíkninni. Hún ákvað þó að gera það ekki vegna þess að nafnbirtingu gæti fylgt áreiti. „Og ég verð líka að hætta að hugsa um að ég geti bjargað þeim.“

Hún segir að sá sem hafi nauðgað henni hafi verið fullorðinn karlmaður sem hún hafði kynnst á Facebook. „Hann var alltaf að tala við mig á Facebook. Ég leit á hann sem vin því hann gat alltaf sagt réttu hlutina þegar mér leið illa. Og eina nóttina þá býður hann mér í heimsókn. Ég neita því og segist þurfa að fara að sofa því ég þurfi að fara í skólann næsta dag. En hann heldur áfram að væla í mér og það endar með því að ég stelst út um nóttina og fer til hans. Þá gerist þetta,“ segir hún. Hún lét vita strax daginn eftir, málið var rannsakað en maðurinn fékk aðeins skilorðsbundinn dóm, segir hún. Móðir hennar bætir við að það hafi verið virt manninum til refsilækkunar að hann hafði ekki komist í kast við lögin áður.

Stuttu síðar kynntist stúlkan pilti sem er þremur árum eldri og þau hófu samband. Hann var í fíkniefnaneyslu og kom henni í kynni við efnin. „Ég sá góða leið til að flýja öll mín vandamál og deyfa tilfinningar mínar,“ segir hún. Neyslan harðnaði sífellt meðan á sambandinu stóð næstu 2½ árin. Þeir sem hún kynntist í gegnum piltinn voru allir í neyslu.

Víman bjó til fleiri vandamál

Fyrst í stað reykti hún marijúana tiltölulega sjaldan, kannski aðra hverja helgi. En hún var fljótlega farin að reykja daglega. Um leið og 10. bekk lauk flutti hún inn til kærastans. Um haustið 2012, þegar hún var 15 ára, byrjaði hún í sterkari efnum. „Kókaín, amfetamín, e-töflur, læknadóp. Ég var mjög mikið í læknadópi. Og ég var í raun byrjuð að taka hvað sem er. Ef mér var rétt eitthvað, þá tók ég það inn, þó ég vissi ekki hvað það væri,“ segir hún.

Aðgangur að fíkniefnum var aldrei vandamál, þótt peningar fyrir þeim væru ekki alltaf til. Um tíma seldi kærasti hennar gras þannig að hún gat fengið ókeypis fíkniefni hjá honum. „Ég var komin upp í tvö grömm á dag. Ég var í vímu eiginlega allan daginn. Svo komu dagar inn á milli þar sem maður náði ekki að redda sér og þá lá maður bara í þunglyndi og nennti ekki neinu.“

Henni leið illa meðan á neyslunni stóð og hún segir að víman leggist verr á þá sem eru þunglyndir fyrir, eins og hún. „Maður lýgur ótrúlega mikið að fjölskyldunni og reynir að forðast hana. Allur dagurinn fer í að redda pening fyrir efnum og útvega sér efnin. Ég var hætt í skóla, var ekki að gera neitt nema þetta.“

Hún leitaði í vímuna til að flýja vandamál sín en gerði sér ekki grein fyrir að víman myndi búa til önnur og meiri vandamál. „Það er svo margt sem maður lendir í, og sem gerist, í þessum heimi sem skaðar mann. Og varð til þess að ég leitaði í enn sterkari efni. Ég hætti ekki fyrr en ég var komin á botninn.“

Nauðgað í lyfjavímu

Hún kveðst hafa verið misnotuð, nauðgað, meðan hún var í lyfjavímu af fleirum en einum í einu. „Þetta er allt ógeðslegt,“ segir hún um þennan undirheim fíkniefnaneytenda. „Vinir þínir eru ekki raunverulegir vinir.“ Eftir að sambandi hennar við kærastann lauk svaf hún nokkrum sinnum hjá strákum til að útvega sér dóp. Rétt áður en hún hætti neyslunni var hún byrjuð að sýna sig á netinu, gegn greiðslu. „Og ég var alveg að fá stórar upphæðir fyrir það. Þangað til mamma mín fattaði þetta. Þá hætti ég,“ segir hún. Þeir sem borguðu hafi verið íslenskir, oftast svolítið eldri menn en einnig yngri menn. Stelpur sem hún þekkti voru í svipaðri stöðu eða verri og voru sumar byrjaðar að selja sig til að eiga fyrir fíkniefnum.

Hún fór á djammið með vinkonum sínum og það endaði oft í dóppartíum, stundum í ömurlegum fíkniefnagrenjum. Í partíunum voru allt upp í 20 manns og gjarnan var eitt herbergi tekið frá fyrir þá sem voru að taka efnin inn. Oft voru það eldri strákar sem héldu partíin og þangað mættu yngri stelpur til að ná sér í dóp.

Fékk allt í einu fullt af reglum

„Ég náði mjög fljótt að fokka öllu upp í kringum mig,“ segir hún. Fjölskyldan brást illa við. Þegar hún var enn í 9. bekk hafi móðir hennar komist að því að hún hafði reykt gras en treyst henni sjálfri til að hætta. Það gerði hún ekki og eftir að hún flutti til kærastans var ekki möguleiki á að fá hana til að fallast á fíkniefnapróf. Hvað þá að koma aftur heim. „Rétt eftir jólin 2012 fær mamma símtal frá barnaverndarnefnd. Og það er fyrst þá sem er farið að gera eitthvað í þessu,“ segir hún.

Fyrst stóð til að hún færi inn á Stuðla. „En þar var svo langur biðlisti að það var ákveðið að ég færi í MST-meðferðina. Hún byrjar í febrúar 2013. Ég vildi þetta ekkert fyrst. Partur af mér vildi hætta í neyslu en partur af mér vildi það ekki. Það er erfitt að hætta þessu. Ég var bara að gera það sem ég gerði og vildi bara halda því áfram.“

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær gengur MST-meðferð Barnaverndarstofu út á að takast á við neysluna á heimavelli, á heimilum en ekki á stofnunum. Þegar meðferðin hófst breyttist margt.

„Ég fékk allt í einu fullt af reglum. Ég hafði búið úti í bæ og gert það sem ég vildi. Ég mátti ekki vera úti á næturnar, mátti náttúrulega ekki fara á djammið og mátti ekki hitta ákveðið fólk. Og það er skilyrði í þessari MST-meðferð að maður stundi skóla eða vinnu þannig að ég fór að leita mér að vinnu.“

Hún þurfti að vera miklu meira heima en hún var vön og foreldrar hennar fóru að fylgjast betur með henni. Hún þurfti líka að koma heim reglulega yfir daginn svo þau gætu skoðað í henni augun til að reyna að sjá hvort hún væri í vímu.

Batinn kom ekki umsvifalaust.

MST-meðferðin byrjaði í febrúar en hún hætti ekki neyslunni þá, heldur minnkaði hana aðeins. Hún hélt áfram að nota læknadóp, concerta og rítalín, flogaveikislyf og í raun hvaða lyf sem er. Það var ekki fyrr en þremur mánuðum eftir að meðferðin hófst sem hún hætti neyslu. Það gerðist 4. maí í fyrra, fyrir 10 mánuðum. Reyndar hefur hún reykt gras einu sinni síðan en henni finnst það ekki jafngilda falli. „Miðað við hvað ég var að nota mikið áður finnst mér það kannski ekki skipta öllu máli.“ Um þetta virðast þær mæðgur þó ekki vera alveg sammála en málið er ekki útrætt þeirra á milli.

Hún sækir fundi hjá SÁÁ einu sinni í mánuði og er að byrja hjá NA, fyrir óvirka eiturlyfjaneytendur. Hún hittir líka sálfræðinga á vegum barnaverndarnefndar reglulega. „Ég fæ fíkn, ég hugsa alveg um þetta,“ segir hún.

Aðspurð segir hún að MST-meðferðin hafi hjálpað henni mjög mikið. MST-þerapistinn sem hún hafi fengið hafi verið mjög fínn. Hún tekur þó fram að fyrst í stað hafi hún ekki verið alveg hreinskilin við hann eða aðra, ekki sagt frá því hversu mikil neyslan var. „Ég var ekki alveg tilbúin til að hætta strax.“

Það hafi skipt miklu máli að skera á öll tengsl við „vinahópinn“. Hún hafi fyrst haldið að það væri hægt að hætta neyslu en samt halda áfram að hitta þá. „En það er ekki séns að það sé hægt,“ segir hún.

Verður að skera að tengslin

Stundum hittir hún þessa krakka úti í búð, hún heilsar þeim og talar stundum við þau. En meiri eru samskiptin ekki. Til að byrja með höfðu þau samband og spurðu til dæmis hvort hún vildi fá fíkniefni. „Salarnir höfðu líka mikið samband, sendu mér mikið af sms-um. Þangað til ég skipti um númer.“ Hún eyddi öllum vinunum af Facebook. Þeir eru eiginlega hættir að pota í hana eða senda skilaboð. „Reyndar fékk ég nýlega boð um að fara inn á síðu með dópi, en annars ekkert nýlega.“

MST-meðferðinni lauk í haust. Aldrei kom til þess að hún færi inn á Stuðla eða aðra stofnun. Hún er ánægð með það. „Ef ég hefði farið á Stuðla þá hefði ég kannski reynt að vinna í sjálfri mér en þegar ég kæmi aftur út þá væri allt eins og það var,“ segir hún. Einnig sé hætta á að kynnast krökkum í meðferðinni sem síðan falla og geta dregið aðra með sér. Hún telur einfaldlega að það henti henni miklu betur að fá meðferð inni á heimili, fremur en inni á stofnun.

Samskiptin við foreldrana bötnuðu mikið. „Ég get sagt þeim allt núna, ég get talað um allt við þau. Ég er ekki lengur í þessum feluleik lengur. Og það er miklu betra.“

Núna sækir hún vinnu og það gengur vel. Hún segir að staða sín sé góð. Baráttunni er þó ekki lokið. „Ég veit að ef ég vinn ekki í sjálfri mér get ég fallið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka