Fyrirtaka í Milestone-máli í dag

Karl Wernersson
Karl Wernersson mbl.is/Styrmir Kári

Fyrirtaka í Milestone-málinu fer fram fyrir héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 11:30 í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Karls Wernerssonar, Ólafi Eiríkssyni, munu hinir ákærðu krefjast frávísunar málsins.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson stjórnarformaður og Steingrímur Wernerson stjórnarmaður ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur en þær námu á sjötta milljarð króna.

Þá eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga.

Í ákærunni kemur fram að háttsemi Werner-bræðra og Guðmundar hafi falist í því að þeir létu Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert