Máttu hvorki mála sig né fara í sund

Unglingsstúlkur sem tilheyrðu trúfélaginu Krossinum máttu ekki skerða hár sitt og urðu að vera klæddar pilsi, þær fengu ekki að fara í sund á almennum opnunartíma sundlauga og förðun var með öllu óheimil. Þá var kynlíf fyrir hjónaband að sjálfsögðu forboðið. Karlmenn lutu hins vegar öðrum reglum.

Við aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar, sem lengi var forstöðumaður Krossins, kom ýmislegt athyglisvert fram, til að mynda í tengslum við trúfélagið. Þau vitni sem gáfu skýrslu fyrir dómara voru flest í Krossinum á einhverjum tímapunkti og af þeim vitnisburði má dæma að Gunnar hafi haft alræðisvald og drottnað yfir söfnuði sínum.

Meðal vitna sem komu fyrir dóminn var núverandi fræðslustjóri Biskupsstofu sem skráð var í Krossinn frá 1984 til 1992. „Þarna var mikil félagsmótun,“ sagði hún og rifjaði upp alls kyns reglur sem voru við lýði. „Ekki var vel séð að fólk væri með jólatré því það sé skurðgoð.“

Hún sagði það aldrei hafa farið sér að vera með sítt hár, eins og skylda var, og því hafi farið svo að hún lét klippa hár sitt, í trássi við reglur Krossins. „Og þegar ég mætti á næstu samkomu fann ég hvað ég var gengisfelld.“

Karlmenn þurftu hins vegar engu að breyta. Ekki var gerð krafa um að þeir klæddust ákveðnum fötum en án efa var sítt hár á karlmönnum – eða förðun – illa séð. Þeir máttu hins vegar sækja sundstaði en það máttu unglingsstúlkur ekki, „af því að það var svo dónalegt.“ Sumar stúlknanna sóttu sérstaka kvennadaga í sundlaugum, sem þeim var leyfilegt.

Orð hans nánast sem lög

Áður hefur verið greint frá því að tvítugri konu sem hugðist halda til Suður-Ameríku í trúboð var neitað um að fara. Hún þurfti að sjálfsögðu að biðja Gunnar um leyfi en hann neitaði, því bæði var sá sem átti að taka á móti henni úti einhleypur og hún væri svo falleg að henni yrði bara nauðgað.

Meira að segja Björn Ingi Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krossins, sagði trúfélagið hafa verið ólíkt öðrum frjálsum söfnuðum. Það hafi til dæmis ekki verið hægt að taka ákvörðun um að ganga í hjónaband án þess að bera það undir „leiðtogann,“ eins og hann kallaði Gunnar.

Ein þeirra kvenna sem gáfu skýrslu sagði Gunnar hafa brotið gegn sér þegar hún var nítján ára eða tvítug. Þá hafi komið upp vandamál á heimili hennar og hún hafi því leitað skjóls hjá Gunnari. Hjá fjölskyldu Gunnars hafi hún fengið að gista og dvalið þar í nokkra mánuði. Sagði hún að Gunnar hefði komið inn í herbergi til hennar eina nóttina og farið að strjúka henni innanklæða.

Sú skráði sig úr Krossinum tveimur dögum eftir að hjónaband Gunnars og Jónínu Benediktsdóttur var gert opinbert. Sagðist hún ekki hafa verið tilbúin til að taka þátt „í þessum sirkus.“

Gunnar virðist því hafa haldið ansi fast utan um söfnuð sinn. Eða eins og Ólöf Dóra Bartels Jónsdóttir lýsti því: „Hann hafði mikil völd og mikil áhrif á söfnuðinn. Orð hans voru nánast lög. Hann var mjög valdamikill.“

Með Jónínu hvarf alræðisvaldið

Af aðalmeðferðinni að dæma virðist sem það alræðisvald sem Gunnar hafði yfir söfnuði sínum hafi hann misst þegar samband hans og Jónínu hófst. Þau giftu sig í mars 2010 og ljóst er að margir innan Krossins voru óánægðir með þessar breytingar á ráðahag Gunnars. 

Þannig fór Sigríður Guðnadóttir að „vinna í sínum málum“ eftir að Gunnar og systir Sigríðar skildu og Gunnar tók saman við Jónínu. Spurð að því hvers vegna hún hafi farið að vinna í sínum málum sagði Sigríður fyrir dómi að það hafi verið vegna þess að „það slitnuðu fjölskyldubönd á þessum tíma.“

Sigríður lýsti því að Gunnar hefði verið mágur hennar, föðurímynd, forstöðumaður og andlegur leiðtogi lífs hennar.  Þegar hún hóf að vinna í sínum málum fólst í því að leita sér hjálpar vegna Gunnars. Upp frá því fór boltinn að rúlla, en tilviljun virðist hafa ráðið því að hún komst í samband við fleiri konur sem einnig voru brenndar eftir veru sína í Krossinum og samskipti við Gunnar. 

Ýjað var að því að Sigríður hefði verið ástfangin af Gunnari og hann sjálfur að því að málið allt væri runnið undan rifjum Sigríðar, vegna sambandsins við Jónínu. „Ég hef nú ekki slíkt vald að ég geti dregið saman fullt af konum til þess eins að valda honum einhverjum miska,“ sagði Sigríður og einnig: „Nei, ég var ekki ástfangin af stefnanda. En mér þótti rosalega vænt um hann og leit upp til hans.“

Sami blaðamaður og ritstjóri

Meiðyrðamál Gunnars var um margt óvenjulegt. Málið höfðaði Gunnar til að fá ómerkt ummæli í tíu greinum Pressunnar sem flestar voru birtar 23.–30. nóvember 2010. En sökum þess að konurnar sem sökuðu hann um kynferðisofbeldi gáfu skýrslu í málinu hefur orðið mun ýtarlegri umfjöllun um nefndar ásakanir en Pressan stóð fyrir á sínum tíma.

Þá má líka velta fyrir sér hvers vegna Gunnar höfðaði hreinlega ekki meiðyrðamál gegn konunum sem sökuðu hann um kynferðisbrot í stað þess að beina kröfum sínum að milliliðum. Mögulega hefur þetta mál snúist dálítið í höndunum á honum.

Burtséð frá þeim vangaveltum hefur málið verið dómtekið og er dóms beðið. Ef dómari lítur til hæstaréttardóms í máli Ægis Geirdal Gíslasonar gegn Steingrími Sævari Ólafssyni og telur hann hafa fordæmi ætti niðurstaðan að vera auðfengin. Athyglisvert er að lögmaður Ægis Geirdal var Einar Hugi Bjarnason sem er einnig lögmaður Gunnars. Steingrími Sævari var stefnt í því máli eins og í máli Gunnars og sami blaðamaður Pressunnar skrifaði um Ægi Geirdal og Gunnar.

Hæstiréttur ómerkti tiltekin ummæli sem viðhöfð voru um Ægi Geirdal í Pressunni og gerði Steingrími Sævari að greiða honum 200 þúsund krónur í miskabætur. Það er reyndar ansi langt frá fimmtán milljón króna kröfu Gunnars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert