„Lýsi yfir sakleysi mínu“

„Ég lýsi yfir sakleysi mínu,“ sagði hjúkr­un­ar­fræðing­ur sem rík­is­sak­sókn­ari hef­ur ákært fyr­ir mann­dráp af gá­leysi þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. Það sama gerði lögmaður Landspítalans fyrir hönd hans. Því næst var málinu frestað fram í september.

Fyrirtakan var stutt í morgun enda aðeins til þess að fá fram afstöðu ákærðu til ákærunnar. Við þingfestingu málsins fyrr í mánuðinum bað hjúkrunarfræðingurinn um frest til að fara yfir ákæruna með skipuðum verjanda sínum. Hann var veittur og er nú ljóst að hjúkrunarfræðingurinn telur ákæru ríkissaksóknara ekki á rökum reista.

Sam­kvæmt ákæru láðist hjúkr­un­ar­fræðingn­um að tæma loft úr kraga bark­ar­auf­ar­rennu þegar hún tók karl­mann úr önd­un­ar­vél og setti tal­ventil á bark­ar­auf­ar­renn­una. Af­leiðing­ar þess urðu þær að maður­inn gat ein­ung­is andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súr­efn­is­mett­un og blóðþrýst­ingi og hann lést skömmu síðar.

Í ákær­unni seg­ir að kon­an hafi verið á kvöld­vakt á gjör­gæslu­deild sem hún hafi unnið í beinu fram­haldi af dagvakt miðviku­dag­inn 3. októ­ber 2012. Þá seg­ir að kon­unni hafi verið vel kunn­ugt um að henni bar að tæma loftið úr krag­an­um, líkt og vinnu­lýs­ing um notk­un tal­ventils­ins kvað á um.

„Þegar ákærða kom á um­rædda kvöld­vakt og tók við umönn­un Y fram­kvæmdi hún ekki ör­ygg­is­eft­ir­lit á vakt­ara (monitor) sem mæl­ir súr­efn­is­mett­un í blóði, en ákærða veitti því ekki at­hygli að slökkt var á ör­ygg­is­hljóði vakt­ar­ans, sem ella hefði gefið til kynna þegar Y fór að falla í súr­efn­is­mett­un. Nefnt eft­ir­lit var hluti af starfs­skyld­um ákærðu sam­kvæmt verklags­regl­um spít­al­ans sem ákærða þekkti vel til.

Ákærða fór að aðstoða við umönn­un ann­ars sjúk­lings í samliggj­andi sjúkra­stofu strax eft­ir að hún hafði sett Y á tal­ventil og fylgd­ist ekki með því hvort hann gæti andað frá sér lofti um munn og nef líkt og nauðsyn­legt var og vinnu­lýs­ing um notk­un tal­ventils­ins, sem henni bar að kynna sér, mæl­ir fyr­ir um. Þá lét ákærða þann hjúkr­un­ar­fræðing sem eft­ir varð á stof­unni með Y ekki vita að hún hefði sett hann á tal­ventil. Þessi van­ræksla ákærðu stuðlaði enn frek­ar að því að manns­bani hlaust af gá­leysi henn­ar,“ seg­ir í ákær­unni.

Fjór­ar einka­rétt­ar­kröf­ur eru í mál­inu, miska­bóta og vegna út­far­ar­kostnaðar. Þær nema sam­tals tæp­lega 14,5 millj­ón­um króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert