„Eru sundlaugarnar ennþá opnar?“

Eiríkur Ingi fagnar er hann var kominn í mark.
Eiríkur Ingi fagnar er hann var kominn í mark.

„Eru sundlaugarnar ekki ennþá opnar?“ spurði Eiríkur Ingi Jóhannsson léttur, um leið og hann steig af hjólinu eftir að hafa hjólað einn síns liðs umhverfis landið í WOW Cyclothon. Alls luku þrír keppni í einstaklingsflokki keppninnar. 

„Það var auðvelt að sjá að WOW Cyclothon var í gangi á leiðinni, því það voru hlandblettir í vegkantinum alla leiðina,“ sagði Eiríkur við mikla kátínu viðstaddra áður en hann ræddi við blaðamann mbl.is. 

Eiríkur var þriðji í einstaklingskeppninni en hinir tveir keppendurnir hjóluðu saman og gátu þannig skipst á að kljúfa vindinn. Eiríkur ákvað að hjóla einn. „Ég hjólaði náttúrulega einn, en ég var með bílinn á eftir mér alla leiðina. Þetta var bara gaman og skemmtilegur hjólatúr,“ sagði Eiríkur en með honum í för í fylgdarbíl voru móðir hans og vinkona. 

Leiðin gekk þó ekki slysalaus fyrir sig, því skammt frá Mývatni bilaði fylgdarbíllinn. „Það komst loft í eldsneytissíuna, og það þurfti að endursetja vélartölvuna í honum.

„Ég þurfti að fara tilbaka og redda þessu,“ segir Eiríkur en hann húkkaði sér far með túristum. „Ég reyndi að stoppa nokkuð marga, en íslendingarnir horfðu nú bara á mann og keyrðu áfram. Svo kom þarna erlent par sem hjálpaði mér, og setti hjólið mitt í skottið og keyrði mig. Það fór svolítill tími í það, þetta stal af manni svolitlum tíma, sennilega um tveir og hálfur tími. Ég fór nú bara í þetta til þess að klára þetta. Það var aldrei keppnishugur í mér.“

Ef ekki mótvindur, þá hliðarvindur

Veðurfarið hefur mikil áhrif á svona hjólreiðakeppni sem nær til allra landshorna. Veðrið var afar kaflaskipt, að íslenskum sið. „Þetta var svolítil mótvindsferð og mikið rok og læti.Frá Eyjafirði og að Möðrudalsheiði var bara stækja og hiti, alltof mikill hiti eiginlega. Það er ekki gott að hafa of heitt heldur.“

„Það var eiginlega ekki fyrr en á Suðurlandi sem maður fékk almennilegt veður. Það var alltaf vindur, ef hann var ekki beint á móti þá var hann ská á móti. En ég er bara sáttur með að við sem höfum lagt í þetta skyldum hafa klárað þetta, það er ansi þröngur tímarammi sem við höfum.“

Byrjunin var erfiðust

Eiríkur segir byrjunina hafa verið erfiðasta. Þar hafi hann verið næst því að kasta inn handklæðinu. „Það var erfiðast eiginlega alveg fram á Blönduós. Ég var búinn að ákveða að ef það yrði rigningarsuddi alla leiðina, þá myndi ég sleppa þessu. Spáin sagði að suddinn myndi hætta í Húnavatnssýslunni, en hann hélt nú samt eitthvað áfram. Síðan fór að hlýna og ég skrapp aðeins í sund, til þess að fá hlýju í kroppinn og lagði mig svo í smá stund.“

Hann byrjaði á fullu í hjólreiðum árið 2007 og hefur hann undanfarið stundað stífar æfingar sérstaklega fyrir þessa keppni. „Ég byggði mig upp í svona 200km leiðir og svo tók ég eitt sólarhringshjól í undirbúningnum, ég hjólaði Ísafjörð-Reykjavík um daginn fyrir tveimur vikum síðan.“ 

Ekki mátti þó miklu muna að Eiríkur missti af keppninni eftir að hann lagðist í veikindi eftir ferðina frá Ísafirði til Reykjavíkur. „Ég var að klára síðustu pensillín-töflurnar á leiðinni,“ segir Eiríkur. 

Vill prófa að njóta leiðarinnar

Félagi Eiríks var búinn að ákveða að taka þátt og á tímabili var útlit fyrir að hann yrði eini þátttakandinn í einstaklingskeppninni. Eiríkur ákvað þá að skella sér með. „Ég ákvað að skella mér með svo hann yrði ekki einn í þessu. Mig hefur alltaf langað til að hjóla hringinn þannig að ég hélt þetta yrði bara gaman. Það er svona ákveðin stemning í þessu þó ég myndi nú frekar kjósa að fara þessa leið með bakpoka á bakinu og taka meiri tíma í þetta. Það eru svo margir fallegir staðir sem maður sér þarna þegar maður fer hægt yfir.“

Þegar Eiríkur er spurður hvort hann ætli aftur á næsta ári, kemur hik á hann. „Flestir myndu nú segja nei strax. En er það ekki alltaf fólkið sem er mætt aftur að ári liðnu?“

Sjá frétt mbl.is: Eiríkur Ingi kominn í mark

Sjá frétt mbl.is: „Ég ætla ekki að gefast upp“

Sjá frétt mbl.is: Eiríkur maður ársins á Bylgjunni

Vel var tekið á móti Eiríki Inga er hann kom …
Vel var tekið á móti Eiríki Inga er hann kom á fleygiferð ofan af Hellisheiðinni.
Eiríkur Ingi Jóhannsson.
Eiríkur Ingi Jóhannsson. mbl.is/Björn Már
Eiríkur Ingi.
Eiríkur Ingi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert