„Eins og að setja jólamynd um jólin“

Skálmöld í regnbogalitunum.
Skálmöld í regnbogalitunum. Ljósmynd/Facebook.com

„Það er í raun engin sérstök ástæða fyrir þessu, önnur en að þetta er sjálfsagt og þarft,” segir Jón Geir Jóhannsson, trommuleikari í Skálmöld um stöðuuppfærslu sem sveitin setti á Facebook í tilefni Hinsegin daga á föstudaginn. Jón segir mikilvægt að eyða þeirri ímynd hómófóbíu sem stundum hafi loðað við þungarokksheiminn og stöðuuppfærslan hafi verið meðvitað skref í þá átt.

Klæðnaður þungarokkara svipaður búningum leðurhomma

„Það er auðvitað algjörlega fáránlegt að þessi hómófóbía sé til staðar, þó ekki sé nema bara fyrir meðal klæðnað þungarokkarans sem er ekki svo langt frá leðurhomma-klæðnaði,“ segir Jón Geir.

Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari sveitarinnar, skrifaði stöðuuppfærsluna og tekur í sama streng.

„Það er frábært hvernig er að losna um þessi mál hér heima. Við hefðum alveg eins getað sett bara jólamynd á jólunum eins og regnbogafánann á Hinsegin dögum. Þetta er alveg sama dæmi og jafn sjálfsagt mál,“ segir Snæbjörn.

Kom á óvart hve margir fjarlægðu „lækið“

Snæbjörn segir viðbrögðin við færslunni að mestu hafa verið mjög góð, og má greinilega merkja það í athugasemdum við hana. Þó hafi tæplega 100 manns hætt að líka við síðu sveitarinnar í kjölfar hennar og nokkrar neikvæðar athugasemdir komið inn á móti. 

„Við sjáum annars ekkert eftir þeim sem duttu þarna út og það koma bara fleiri ný „læk“ inn á móti. Það kom mér samt á óvart að svona margir hafi fjarlægt „lækið“. Það virðist sem þar sé bara „zero tolerance“, þar sem fólk sér færsluna og hendir okkur bara út eins og skot.“

Auglýsingin þótti ekki við hæfi 

Snæbjörn keypti auglýsingu á Facebook til þess að færslan fengi aukna dreifingu. Auglýsingin fór hins vegar ekki í gegn þar sem orðalag í henni þótti ekki samræmast reglum vefsins. Snæbjörn telur þetta nokkuð sérkennilegt og bendir t.a.m. einn aðili í athugasemd á grófar og klámfengnar síður sem ekki hafi verið sett bann á. 

„Ég notaði orð eins og „freaks and weirdos“, en ég hef hins vegar séð þau orð fara í gegn áður Það var kannski verið að hnýta í einhver orð sem tengjast samkynhneigð,“ segir Snæbjörn.

Færsla á fésbókarsíðu Skálmaldar

Jón Geir segir mikilvægt að eyða þeirri ímynd hómófóbíu sem …
Jón Geir segir mikilvægt að eyða þeirri ímynd hómófóbíu sem hafi stundum loðað við þungarokksheiminn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Snæbjörn Ragnarsson setti inn færsluna.
Snæbjörn Ragnarsson setti inn færsluna. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert