Slær sambataktinn áfram á Snæfellsnesi

Baldur með trommuna fyrir utan kaffihúsið Emil.
Baldur með trommuna fyrir utan kaffihúsið Emil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Planið var að vera eitt ár en þau eru nú orðin níu. Þegar maður var búinn að vera hér í smátíma sá maður að Grundarfjörður er gott samfélag. Maður er ekki á förum héðan alveg á næstunni,“ segir Baldur Orri Rafnsson, tónlistarkennari, veitingamaður og bongótrommuleikari á Grundarfirði.

Hann fluttist frá Mosfellsbæ til að kenna á ásláttarhljóðfæri og lúðra við Tónlistarskóla Grundarfjarðar en hefur ílengst í bænum ásamt fjölskyldu sinni. Fyrir utan kennsluna hefur Baldur rekið pylsuvagn undanfarin sumur en nú í sumar bætti hann við sig rekstri kaffihússins Emils sem hýsir einnig upplýsingamiðstöð, bókasafn og byggðasafn bæjarins. Hann segir helsta kost samfélagsins þar vera fólkið.

„Það þekkjast allir og það eru allir tilbúnir að ganga inn og hjálpa náunganum. Ég sé mikla kosti þess að búa í svona litlu og þægilegu umhverfi,“ segir hann.

Tónlistarskólinn er stór hluti af lífi bæjarins en Baldur áætlar að um 70% af öllum grunnskólabörnum bæjarins séu í tónlistarnámi.

„Fólk var opið fyrir hugmyndum þegar ég kom fyrst. Við tókum starfið í skólanum og breyttum því svolítið. Höfðum meira samspil og meira popp frekar en klassík. Það tóku allir vel í það og það er mjög vel mætt á tónleika,“ segir hann.

Til að byrja með hafi um þrjátíu manns mætt á tónleika nemenda skólans en nú komi alltaf um og yfir tvö hundruð manns til að hlýða á þá.

Eftirsóttur af Tólfunni

Baldur hefur verið betur þekktur sem Baldur bongó en hann sló taktinn fyrir stuðningsmannalið Vals í Reykjavík með bongótrommum og sambafjöri lengi vel. Gekk hann jafnvel svo langt að keyra suður á leiki liðsins til að halda uppi stemningunni. Hann hefur þó dregið úr þeim ferðum undanfarið en hefur gripið í trommurnar fyrir liðin á Snæfellsnesi við og við. Þá hafi Tólfan, stuðningsmannafélag knattspyrnulandsliðsins, falast eftir kröftum hans í komandi undankeppni Evrópukeppninnar. Baldur segir það vissa list að slá taktinn á kappleikjum.

„Það verður að hugsa trommurnar út frá tónlist. Þetta eru ekki bara barsmíðar og hávaði. Þetta er til að sameina krafta stuðningsmannanna og hvetja liðið áfram í einhverjum takti. Þetta eru miklar pælingar. Hvenær eru réttu augnablikin, hvenær á maður að vera rólegur og hvenær á maður að fylgja takti leiksins. Þetta er músík,“ segir Baldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert