Undirmönnun og úr sér gengin tæki

Landspítalinn við Hringbraut í Reykjavík.
Landspítalinn við Hringbraut í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn BSRB skorar á stjórnvöld að bregðast þegar við þeim vanda sem íslenska heilbrigðiskerfið er í. Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hefur þegar flutt af landi brott og ljóst er að atgervisflóttinn mun aukast frekar á meðan stjórnvöld taka ekki á málum. Með hverri vikunni sem líður án aðgerða í þágu heilbrigðiskerfisins eykst vandi þess til muna.

Þetta kemur fram í ályktun stjórnar BSRB sem samþykkt var á stjórnarfundi á Akureyri í gær.

„Heilbrigðisstofnanir landsins eru undirmannaðar, aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks er óviðunandi, tækjakostur úr sér genginn og álag starfsfólks óhóflega mikið. Þrátt fyrir að vandinn hafi verið augljós um árabil hafa stjórnvöld ekki brugðist við með fullnægjandi hætti.

Stjórn BSRB krefst þess að stjórnarflokkanir standi við gefin loforð um að setja heilbrigðismálin í forgang. Forgangsröðun í ríkisrekstrinum verður að vera með þeim hætti að hægt sé að veita auknum fjármunum til eflingar heilbrigðiskerfisins svo hægt sé að reka það áfram á samfélaglegum grunni. Aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu mun aðeins auka á ójöfnuð og misskiptingu.

Stjórn BSRB krefst þess að stjórnvöld bregðast við nú þegar svo hægt sé að veita öllum viðunandi heilbrigðisþjónustu óháð efnahag,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert