„Þannig að hér heilsast engir“

Gísli Rafn Ólafsson að störfum á hamfarasvæðinu í Haítí eftir …
Gísli Rafn Ólafsson að störfum á hamfarasvæðinu í Haítí eftir jarðskjálftana árið 2010.

„Alls staðar þar sem að ég fer er líkamshiti minn mældur og ég þarf ítrekað að þrífa bæði skó og hendur með sótthreinsandi efnum. Jafnframt er öll líkamleg snerting bönnuð, þannig að hér heilsast engir.“

Þannig lýsir Gísli Rafn Ólafsson, sem nú er staddur í Monróvíu, höfuðborg Líberíu, ástandinu. Landið hefur orðið hvað verst úti í ebólufaraldrinum og hundruð manna látist.

Gísli starfar fyrir hjálparsamtökin NetHope og er hlutverk hans m.a. að gera úttekt á fjarskiptakerfi landsins. Hann hefur oftsinnis aðstoðað á hamfarasvæðum víða um heim.

Gísli býr á hóteli sem uppfyllir allar þær kröfur sem sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna gera varðandi ástand og öryggismál. „Ég er ekki neins staðar nálægt því þar sem verið er að meðhöndla sjúklinga. Ég er einungis á fundum með viðbragðsaðilum, fulltrúum ríkisstjórnarinnar og fjarskiptafyrirtækja.“

Ástandið í Líberíu fer sífellt versnandi. Tæplega 4.300 manns hafa smitast af ebóluveirunni og um 2.500 látist. „Í landi þar sem fyrir voru einungis 50 læknar fyrir 3,9 milljónir íbúa er ansi erfitt að hemja útbreiðslu veirunnar,“ segir Gísli. „Fjöldi hjálparstofnana hefur verið hér frá því í vor þegar ebóla skaut fyrst upp kollinum og á síðustu vikum hefur hjálparstarfsmönnum fjölgað verulega. Enn vantar þó stórlega upp á að nægilega mikið af læknum og hjúkrunarfólki sé til þess að sinna sjúkum.“

Allt kallar þetta á góða samhæfingu og samskipti á milli þeirra mörgu hjálparstarfsmanna og ríkisstarfsmanna sem vinna við að koma böndum á útbreiðslu veirunnar. „Fjarskipta- og upplýsingatæknikerfi landsins eru hins vegar einnig á frekar einföldu stigi, sér í lagi á dreifbýlum svæðum utan höfuðborgarinnar Monróvíu,“ segir Gísli. Hlutverk NetHope, hjálparsamtakanna sem hann starfar fyrir, er að samhæfa alla þætti sem snúa að fjarskipta- og upplýsingatækninni.

„Við vinnum með samstarfsaðilum okkar, sem eru yfir fjörutíu af stærstu hjálparsamtökum í heimi, m.a. Rauði krossinn, Barnaheill og SOS Barnaþorp, og leitum leiða til þess að koma á fjarskiptum og einfalda miðlun upplýsinga á milli hjálparsamtaka.“

Vilja bæta samskipti á hamfarasvæðum

NetHope vinnur einnig mjög náið með fjarskiptafyrirtækjum í landinu og stórfyrirtækjum í upplýsingatæknigeiranum um allan heim við að finna leiðir til þess að bæta fjarskipta- og upplýsingatækikerfi.

„Þetta er auðvitað líka gert í góðri samvinnu við ríkisstjórn landsins og vinnan er studd af stórfyrirtækjum, góðgerðarsjóðum og af bandaríska ríkinu. Mitt hlutverk í þessari ferð hefur verið að gera úttekt á stöðu fjarskiptakerfisins. Verður skýrslan sem ég tek saman kynnt í Hvíta húsinu í næstu viku á fundi sem helstu stjórnendur stærstu upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækja heims sitja. Á þeim fundi verður rætt hvernig tæknin getur aðstoðað í baráttunni við ebólu.“

Oftsinnis aðstoðað á hamfarasvæðum

Hjálparstarf sem þetta er ekkert nýtt fyrir Gísla. Fyrir tveimur áratugum byrjaði hann sem sjálfboðaliði í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og var síðar virkur í björgunarsveitum í Bandaríkjunum þar sem hann bjó um tíma. 

„Undanfarin níu ár hefur þó fókusinn verið meira á björgunarstarf á erlendum vettvangi og hef ég í því sambandi tekið þátt í skipulagi og viðbragði við ýmsum stærstu hamförum undanfarinn áratug, m.a. fellibylnum Haiyan á Filippseyjum í nóvember í fyrra og jarðskjálftanum og flóðbylgjunni í Japan árið 2011. Ég var jafnframt stjórnandi íslensku alþjóðbjörgunarsveitarinnar þegar hún fór til Haítí eftir jarðskjálftann mikla þar árið 2010.“

Gísli hefur ekki áður verið í Líberíu en hefur margsinnis komið til Afríku. „Fyrsta alþjóðlega útkallið mitt var þó ekki fjarri Líberíu. Það var í flóðum í Gana árið 2007, en þar fór ég á vegum Sameinuðu þjóðanna.“

Frétt mbl.is: Gísli Rafn segist fara að öllu með gát

Útimarkaður í Monróvíu.
Útimarkaður í Monróvíu. AFP
Gísli á Haítí.
Gísli á Haítí.
Gísli á hamfarasvæði í Japan eftir jarðskjálftana og flóðbylgjuna árið …
Gísli á hamfarasvæði í Japan eftir jarðskjálftana og flóðbylgjuna árið 2011.
mbl.is