Vill lista yfir öll vopn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur lagt fyrir dómsmálaráðherra og innanríkisráðherra fyrirspurn um skotvopnaeign lögreglunnar og Landhelgisgæslu Íslands. Katrín vill fá heildarlista yfir skotvopnin og hver leggi mat á vopnaþörf.

Spurningarnar til dómsmálaráðherra vegna lögreglunnar:

  1. Hve mörg skotvopn eru samtals í eigu lögreglunnar og hvernig skiptast þau skotvopn eftir gerðum og stærðum (skammbyssur, rifflar, haglabyssur, sjálfvirk skotvopn o.þ.h.) og lögregluembættum? Upplýsingar óskast um fjölda hverrar gerðar um sig hjá hverju lögregluembætti og lögregludeildum, svo sem sérsveit lögreglunnar.
  2. Hve margra skotvopna og hvaða skotvopna hefur verið aflað á undanförnum áratug að árinu 2014 meðtöldu? Í svarinu óskast fjöldi skotvopna tilgreindur fyrir hvert og eitt ár.
  3. Hvert er upprunaland þeirra skotvopna sem aflað hefur verið á undanförnum áratug? Í svarinu óskast tilgreint hversu mörg skotvopn bárust frá hverju landi um sig og hverrar gerðar þau voru.
  4. Hversu mörg þeirra skotvopna sem lögregla hefur aflað sér á undanförnum áratug hafa verið keypt og hvert var verð þeirra og hversu mörg þegin að gjöf og hvert var verðmæti þeirra? Í svarinu óskast tilgreindur fjöldi, verð, gerð og upprunaland skotvopnanna?
  5. Hvaða aðili, innan lögreglu eða utan, leggur mat á þörf lögreglu fyrir skotvopn?
  6. Í hve mörgum lögreglubifreiðum eru geymd skotvopn? Óskað er upplýsinga um fjölda og gerð skotvopna og undir hvaða lögregluembætti viðkomandi lögreglubifreiðar heyra.
  7. Í hve mörgum lögreglustöðvum eru geymd skotvopn? Óskað er upplýsinga um fjölda og gerð skotvopnanna og undir hvaða lögregluembætti viðkomandi lögreglustöðvar heyra.
  8. Hafa almennir lögreglumenn hlotið sérstaka þjálfun í beitingu sjálfvirkra skotvopna? Ef svo er, hver annast þessa þjálfun, hversu langan tíma tekur hún og hvernig er henni háttað í aðalatriðum?
  9. Hvaða hæfnisskilyrði þurfa almennir lögreglumenn að uppfylla til að hafa heimild til að beita skotvopnum við störf sín, greint eftir gerð skotvopna?
  10. Hvernig hefur fjöldi sjálfvirkra skotvopna í eigu lögreglunnar þróast frá útgáfu skýrslu innanríkisráðuneytisins um stöðu lögreglunnar árið 2012? Upplýsingar óskast um fjölda sjálfvirkra skotvopna í eigu lögreglu á árunum 2012–2014 og skiptingu þeirra milli lögregluembætta á þessum árum.
  11. Hvaða stefnu er fylgt í ákvarðanatöku um vistun og varðveislu skotvopna við lögregluembætti landsins?
  12. Er við ákvörðun um það hvar skotvopn lögreglu skuli vistuð fylgt niðurstöðum þarfagreiningar, áhættumats eða annars formlegs mats á þörf fyrir slík vopn?
  13. Með hvaða hætti er skotvopnum lögreglu fargað? Er í gildi verklagsáætlun um þetta eða önnur fyrirmæli og er haldin skrá um förguð skotvopn þannig að afdrif þeirra séu ljós?

Þá lagði Katrín eftirfarandi spurningar fyrir innanríkisráðherra vegna Landhelgisgæslu Íslands:

  1. Hversu mörg skotvopn eru í eigu Landhelgisgæslunnar, hverrar gerðar eru þessi vopn, hverrar stærðar og hver er aldur þeirra?
  2. Hvar eru skotvopn Landhelgisgæslunnar varðveitt að jafnaði?
  3. Hversu margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa hlotið þjálfun í vopnaburði, hvaða aðili hefur veitt þjálfunina og vottað hana, hversu langan tíma tekur þjálfunin og við hvaða gerðir vopna hefur þjálfunin miðast? Hversu oft fer endurþjálfun fram?
  4. Hve margir aðilar innan Landhelgisgæslunnar hafa heimild til að taka ákvörðun um vopnaburð starfsmanna stofnunarinnar og fyrirskipa hann?
  5. Hvaða vopna hefur Landhelgisgæslan aflað sér á undanförnum áratug? Óskað er upplýsinga um gerð, fjölda og upprunaland vopnanna.
  6. Hversu mörg þeirra vopna sem Landhelgisgæslunni hafa áskotnast á undanförnum áratug hafa annars vegar verið keypt, af hverjum og hvert var verð þeirra, og hins vegar þegin að gjöf, frá hverjum og hvert var verðmæti þeirra?
  7. Hvaða aðili tekur ákvörðun um kaup á vopnabúnaði fyrir Landhelgisgæsluna eða annars konar vopnaöflun og á hvaða forsendum eru slíkar ákvarðanir teknar?
  8. Hefur Landhelgisgæslan yfir að ráða öðrum vopnum en skotvopnum? Ef svo er, hvaða vopn eru það og í hvaða tilgangi hefur þeirra verið aflað?
  9. Með hvaða hætti fargar Landhelgisgæslan úreltum og/eða ónýtum vopnum? Er í gildi verklagsáætlun um þetta eða önnur fyrirmæli og er haldin skrá um förguð skotvopn þannig að afdrif þeirra séu ljós?

Ennfremur hefur Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, lagt nokkrar spurningar fyrir innanríkisráðherra vegna sama máls:

  1. Er í gildi samstarfssamningur milli Landhelgisgæslu Íslands og norskra hermálayfirvalda um upplýsingagjöf gæslunnar til norskra hermálayfirvalda eða norsku landhelgisgæslunnar sem greitt skuli fyrir með skotvopnum eða öðrum vopnum?
  2. Veitir Landhelgisgæslan norskum hermála- eða löggæslustofnunum upplýsingar um veður og sjólag sem aflað er af Veðurstofu Íslands eða með sjálfvirka upplýsingakerfinu um veður og sjólag sem Vegagerðin starfrækir? Ef svo er, eru þær greiðsla fyrir skotvopn sem Landhelgisgæslan hefur fengið frá Noregi á undanförnum árum og á hvaða heimildum hvíla ráðstafanirnar?
  3. Veitir Landhelgisgæslan norskum hermála- eða löggæslustofnunum upplýsingar um skipaumferð við Ísland sem aflað er með starfsemi Vaktstöðvar siglinga? Ef svo er, eru þær greiðsla fyrir skotvopn sem Landhelgisgæslan hefur fengið frá Noregi á undanförnum árum og á hvaða heimildum hvíla ráðstafanirnar?
  4. Nýtir Landhelgisgæslan sér upplýsingar um veður og sjólag á hafinu umhverfis Ísland eða upplýsingar um skipaumferð við Ísland með einhverjum hætti til að afla stofnuninni tekna eða annars endurgjalds? Ef svo er, á hvaða heimildum hvíla þær ráðstafanir?
  5. Með hvaða hætti verðleggur Landhelgisgæslan þá þjónustu sem hún veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum og hvernig er verðið umreiknað í endurgjaldsmiðilinn, þ.e. skotvopn eða annan vopnabúnað, ef um hann er að ræða?
  6. Hvernig er háttað innheimtu og tekjuskráningu vegna þeirrar þjónustu sem Landhelgisgæslan veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum?
  7. Hvernig er háttað greiðslum opinberra gjalda vegna þeirrar þjónustu sem Landhelgisgæslan veitir norskum hermála- eða löggæsluyfirvöldum?
  8. Hvaða aðilar innan Landhelgisgæslunnar hafa heimild til að skuldbinda stofnunina með samningagerð um vopnakaup og hvaða kröfur eru gerðar í því sambandi?
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert