„Fylgja þessu stress og vonbrigði“

Snædís Rán Hjartardóttir.
Snædís Rán Hjartardóttir. Mynd úr einkasafni

Ég var búin að fá að vita að ekki kæmu túlkar í útskriftarveisluna mína vegna þess að félagslegi sjóðurinn væri tómur en svo á allra síðustu stundu redduðust málin en mér er ekki almennilega ljóst hvernig farið var að því,“ sagði Snædís Rán Hjartardóttir, í samtali við mbl.is.

Snædís útskrifaðist sem stúdent frá MH um helgina og mbl.is ræddi þá við móður hennar þar sem hún lýsti yfir óánægju með túlkaþjónustu hér á landi. Eins og Snædís segir fékk hún að vita á síðustu stundu að hún fengi túlk í útskriftarveisluna sína, ólíkt því sem þær mæðgur héldu.

Fólk sem þarf túlk getur verið athafnasamt og félagslynt

Það breytir því þó ekki að það er ekki sjálfsagt að hafa túlkaþjónustuna með þessu móti þar sem maður veit ekki hvenær sjóðurinn klárast. Síðan þegar það gerist fylgir því mikið stress og vonbrigði þar sem öll plön breytast og best væri að hætta bara alveg við fyrirhugaða þátttöku í samfélaginu.“ Snædísi finnst eins og það sé ekki gert ráð fyrir því að fólk sem þarf túlk geti verið félagslynt og athafnasamt fólk sem sé tilbúið að leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið. Sjónum sé frekar beint að því hversu mikið þetta kosti og óskapast yfir því hvað fólk þurfi að gera við alla þessa túlkun.

Finnst nálgunin niðurlægjandi

Mér finnst þessi nálgun þeirra sem taka ákvarðanir um þessi mál mjög niðurlægjandi og eiginlega ómannleg þar sem fæstir gera sér grein fyrir því hve oft þeir taka þátt í viðburðum sem til dæmis ég þyrfti túlka til að geta verið með á nótunum.“ Hefði hún ekki fengið túlk á síðustu stundu í veisluna hefði hún ekki verið neitt sérstakt tilhlökkunarefni. „Ég hefði bara beðið eftir að henni lyki og vonaði að ég myndi ekki lenda í of mörgum vandræðalegum augnablikum sem yrðu vegna samskiptaörðugleika.“

Snædís spyr hvernig staðan væri ef ráðamenn væru í hennar sporum. „Mér þætti gaman að vita hversu margir innan ráðuneytanna hafi upplifað slíkar aðstæður á útskriftardaginn sinn!

mbl.is