„Þarna fann ég að ég er ekki ein“

Áslaug er ánægð með dvölina í Svíþjóð.
Áslaug er ánægð með dvölina í Svíþjóð. ljósmynd/Áslaug Ýr

Áslaug Ýr Hjartardóttir, sem fyrr í sumar stefndi íslenska ríkinu vegna synjunar á endurgjaldslausri túlkaþjónustu fyrir ferð hennar til Svíþjóðar í sumarbúðir fyrir daufblind ungmenni á Norðurlöndunum, er nú komin heim eftir dvölina.

Áslaug er alsæl með ferðina, sem hún segir frá í færslu á Facebook-síðu sinni. „Þarna fann ég að ég er ekki ein, það eru fleiri í svipaðri stöðu og ég. Ég fór langt út fyrir þægindarammann og uppgötvaði hvað lífið getur í raun verið einfalt ef maður bara vill og þorir,“ skrifar hún.

Áslaug, sem er með samþætta sjón- og heyrn­ar­skerðingu, stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra og ís­lenska rík­inu fyr­ir mis­mun­un en fyrr í mánuðinum voru SSH og ríkið sýknuð í héraði af kröfu Áslaug­ar. Hún hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar. Til að komast í sumarbúðirnar fékk hún lán til að standa straum af kostnaði við túlkaþjónustu.

Stolt af því að vera daufblind

Í færslunni segir Áslaug vikuna í Svíþjóð hafa verið æðislega. Þema sumarbúðanna í ár hafi verið hugrekki og stolt og Svíar hafi staðið sig með prýði við skipulagningu og framkvæmd. 

„Ég kynntist ótrúlegu fólki sem ég lærði mikið af og sem gerði mig enn stoltari af að vera daufblind. Mér finnst ég sama sem endurnærð og tilbúin í næsta slag eftir þessa dvöl, enda stórt og erfitt verk framundan,“ skrifar hún.

Þá segist Áslaug staðráðin í því að fara í sömu sumarbúðir eftir tvö ár, „og er enn ákveðnari en nokkru sinni fyrr að gera eitthvað í túlkamálum hérlendis til að tryggja að ég og annað daufblint fólk fái þá þjónustu sem það þarf óháð aldri, efnahagsstöðu eða landi.

Hópurinn sem tók þátt í sumarbúðunum.
Hópurinn sem tók þátt í sumarbúðunum. ljósmynd/Áslaug Ýr
ljósmynd/Áslaug Ýr
mbl.is