Þolinmæðin á þrotum

Hjúkrunarfræðingarnir segja undravert að takist hafi að halda deildinni í …
Hjúkrunarfræðingarnir segja undravert að takist hafi að halda deildinni í stöðugri framþróun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjúkrunarfræðingar á Blóðlækningadeild Landspítalans hafa miklar áhyggjur af framtíð deildarinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá 16 hjúkrunarfræðingum deildarinnar sem segja alvarlega stöðu komna upp í launabaráttu stéttarinnar í kjölfar lagasetningar á verkfall hjúkrunarfræðinga.

Deildin sem hjúkrunarfræðingarnir starfa á, blóðlækningadeild 11-G á Landspítalanum við Hringbraut, er fjórtán rúma legudeild sem veitir sérhæfða meðferð fyrir sjúklinga með blóðsjúkdóma. Ber þar helst að nefna hvítblæði, eitilfrumukrabbamein og mergfrumuæxli sem allt eru illkynja sjúkdómar sem krefjast mjög flókinnar og sérhæfðrar meðferðar.

Á undraverðan hátt hefur tekist að halda deildinni í stöðugri framþróun þrátt fyrir oft á tíðum gríðarlega erfiðar aðstæður. Mikill niðurskurður og algjörlega óviðunandi húsakostur fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga hefur ekki létt róðurinn. Þrátt fyrir það hefur verið veitt besta mögulega þjónusta sem völ er á af samheldnum hóp einstaklinga úr hinum ýmsu starfsstéttum. Allir eiga það sameiginlegt að vera með mikla reynslu og færni á sínu sviði, þar af 20 hjúkrunarfræðingar,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir að uppsagnir séu byrjaðar að berast og að bréfritarar óttist að brottfall úr hópnum verði of mikið til að hægt verði að halda uppi viðunandi starfsemi á deildinni.

„Við erum stoltir hjúkrunarfræðingar og getum ekki sætt okkur við að árið 2015 séu kvennastéttir enn að berjast fyrir jafnrétti kynjanna þegar kemur að launum. Í dag eru svonefndar kvennastéttir með 14-25% lægri laun en aðrar sambærilegar stéttir innan ríkisins þegar litið er til menntunar og ábyrgðar. Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum og við gefum ekki lengur afslátt af okkar launum.

Við skorum því á stjórnvöld að stíga fram á þessum tímamótum í sögu kvenna á Íslandi og leiðrétta þennan mismun svo við getum haldið áfram að nýta fagkunnáttu okkar og krafta í þágu sjúklinga á landinu.“

mbl.is