Synjað um nálgunarbann

Vista þurfti manninn í fangaklefa í sumar og var ekki …
Vista þurfti manninn í fangaklefa í sumar og var ekki hægt að taka af honum handjárnin strax þar sem hann hótaði að skaða sig. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í gær um að hafna beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að manni verði bannað að nálgast eiginkonu sína og heimili sitt.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að fallist sé á það með héraðsdómi að ekki sé fullnægt skilyrðum laga um nálgunarbann. Það er  að er ekki sé rökstuddur grunur um að maðurinn hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði konunnar og ekki sé hætta á að hann brjóti gegn henni.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi maðurinn undir sterkum grun um að hafa þann 22. september sl. ráðist á eiginkonu sína. Að sögn hennar hafi þau rifist og hann hrint henni nokkrum sinnum og sópað eldhúsmunum úr hillu á gólfið svo að þeir brotnuðu.

Keypti ekki sígarettur fyrir hann og allt fór í bál og brand

Forsaga þess hafi verið sú að hún hafi ekki keypt fyrir hann sígarettur og hann orðið ósáttur og þau orðið viðskila. Þegar hann hafi komið heim hafi hann barið í rúðuna á baðherbergi og rifið upp útidyrnar. Hún hafi reynt að róa hann en án árangurs, hann hafi verið stífur, hreytt í hana og strunsað fram og til baka um alla íbúðina.

Þegar hún hafi nálgast hann hafi hann hrint henni og verið mjög ruddalegur. Hún hafi farið inn í svefnherbergi og þegar hún hafi komið fram hafi hann tryllst við það eitt að sjá hana og hrint henni. Þá hafi hann einnig kastað glerkrukku í áttina að henni sem hafi endað við hliðina á henni. 

 Þann 9. júlí 2015 var tilkynnt um heimilisófrið á heimili þeirra. Þegar lögreglan kom á staðinn var eiginmaðurinn fyrir framan húsið og virtist pirraður. Hann sagði að þau hjónin hafi verið að rífast. Maðurinn var með plastpoka með fötum í og rifið vegabréf sem hann sagði konu sína hafa rifið.

Inni í húsinu mátti sjá hluti á gólfi sem hafði verið kastað til. Konan var í uppnámi og grét mikið. Hún kvað þau hafa verið að rífast, hún kvað pirring hafa verið að byggjast upp síðastliðnar 2 – 3 vikur og að hann hafi hringt stanslaust í hana þegar hún væri að vinna og léti spurningum rigna yfir hana og henni liði eins og hún væri undir stöðugu eftirliti.

Bara þegar hann væri undir miklu álagi

Hún tók fram að eiginmaðurinn hegðaði sér bara svona þegar hann væri undir álagi og væri stressaður.

Hún kvaðst í umrætt sinn hafa verið mjög reið og farið út á bifreið þeirra. Hún hafi svo þurft að snúa aftur heim og þá hafi rifrildið haldið áfram. Maðurinn hafi verið við vinnuherbergið og reynt að taka tölvu hennar og við það hafi prentarinn dottið í gólfið.

Eiginmaðurinn hafi svo sparkað í prentarann til að eyðileggja hann. Þá hafi hann hent fermingarkerti dóttur hennar í gólfið svo það mölbrotnaði. Hann hafi tekið hana taki um hálsinn og hrint henni til og sagt að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem hann hafi sýnt slíka takta. Hún kvaðst finna til eymsla í hálsi en þótti þó ólíklegt að einhverjir áverkar sæjust á henni eftir.

 Þann 14. febrúar 2015 var tilkynnt um að maðurinn væri að leggja hendur á konu sína. Þegar lögregla ræddi við eiginmanninn sagði hann að kona hans og dóttir hennar hafi ráðist á hann og hann óskaði eftir aðstoð við að komast aftur á heimilið.

Konan kvað samband þeirra hafa gengið þokkalega síðan um áramót en lögregla hefði þurft að koma að málum þeirra í byrjun desember og aftur um jólin. Í dag hefði hann verið fremur órólegur og komið ölvaður heim 10 mínútum áður en hringt var á lögreglu en þá hafi þeim lent saman og hann tekið hana hálstaki. Auk þess hafi hann tekið í dóttur hennar þegar hún ætlaði að hringja í Neyðarlínuna.

 Þegar lögreglumaðurinn opnaði dyrnar til að ræða við eiginmanninn hafi maðurinn ruðst inn og var þá strax tekinn tökum af lögreglu. Á meðan beðið var aðstoðar hafi maðurinn verið gersamlega stjórnlaus og öskrað á lögregluna og hafi alls ekki verið hægt að ræða við hann. Hann hafi síðan verið færður í handjárn og í lögreglubifreiðina og veitt mótspyrnu allan tímann og einnig öskrað allan tímann. Tekið er fram að við handtökuna og við flutninginn í lögreglubifreiðinni og í fangaklefanum hafi hann ítrekað reynt að skaða sig með því að reyna að slá höfðinu í gólf og veggi. Ekki hafi verið unnt að taka af honum handjárnin í fangaklefanum fyrr en eftir um 15 mínútur þar sem hann var að reyna að skaða sig. Þá hafi hann ítrekað talað um að hann ætlaði að drepa sig um nóttina. 

Í skýrslu lögreglustjóra er fjallað um sjö tilvik til viðbótar þar sem lögregla þurfti að hafa afskipti af heimilinu vegna heimilisofbeldis, þar á meðal á Þorláksmessu og aðfangadag. 

Þau gengu í hjónaband í júní 2014. Vart var liðinn mánuður frá giftingunni er átök þeirra komu til kasta lögreglu. Aftur á móti telur bæði héraðsdómur og Hæstiréttur að af gögnum málsins verði ekki séð á hvorn aðila hallar frekar þegar málið er virt í heild sinni.

Í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 eru rakin skilyrði þau er þurfa að vera fyrir hendi til að hægt sé að vísa manni af heimili hans og/eða beita nálgunarbanni. Þá er í 1. mgr. 6. gr. ákveðið að þessum úrræðum verði því aðeins beitt þegar ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Þá segir enn fremur að þess skuli gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Telja bæði héraðsdómur og Hæstiréttur að þessum skilyrðum sé ekki fullnægt svo hægt sé að beita jafn íþyngjandi ákvæði og að láta manninn sæta nálgunarbanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert