Verkföllum aflýst - búið að semja

Kjarasamningar á milli ríkisins og SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna voru undirritaðir á fimmta tímanum og verkföllum því aflýst. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, er sáttur við samningana sem verður kynntur fyrir trúnaðarmönnum fljótlega. Í kjölfarið verður samningurinn kynntur almennum félagsmönnum og er stefnt að atkvæðagreiðslu ljúki um nýjan samning 10. nóvember.

Að sögn Árna Stefáns var skrifað undir á fimmta tímanum í nótt og samninganefndirnar búnar að fá sér vöfflukaffi í húsnæði ríkissáttasemjara þegar mbl.is náði tali af honum á sjötta tímanum.

„Við hjá stéttarfélögunum erum afar sátt við nýja samninginn því við fórum af stað með ákveðin markmið sem við erum að ná. Það er því ekki hægt að gera betur,“ segir Árni Stefán í samtali við mbl.is.

Næstu skref er að kynna nýjan samning fyrir stéttarfélögunum sem stóðu að samningunum en þeir gilda til mars 2019. Samningarnir eru sambærilegir við þá sem gerðir hafa verið að undanförnu og eru í  takt við niðurstöður gerðadóms varðandi hjúkrunarfræðinga og þá samninga sem ríkið hefur gert við aðra ríkisstarfsmenn.

Samninganefndir félaganna voru orðnar frekar framlágar, en fóru heim ánægðar með vel unnin störf, segir á vef Sjúkraliðafélags Íslands.

Í tilkynningu frá BSRB kemur fram að í nótt samþykktu SFR, SLFÍ og LL, þrjú fjölmennustu aðildarfélög BSRB sem semja við ríkið, nýja kjarasamninga eftir tveggja vikna samfellda samningalotu. Allsherjarverkfalli SFR og SLFÍ sem hefjast átti á miðnætti í kvöld hefur verið frestað.

Þing BSRB verður sett í dag, miðvikudaginn 28. október, á Hótel Nordica í Reykjavík. Formaður BSRB mun flytja ræða við setninguna og síðan mun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarpa þingið.

Að því loknu mun Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, kynna niðurstöður úr nýrri rannsókn sinni á heilsu og lífsháttum Íslendinga. Erindi Rúnars að þessu sinni ber heitir „Íslenska heilbrigðiskerfið – Aðgengi, kostnaður og viðhorf til hlutverks hins opinbera“.

Þar verða m.a. kynnt viðhorf Íslendinga til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustu. Nýjar upplýsingar um kostnað heimila vegna heilbrigðisþjónustu verður greindur eftir aldurshópum, búsetu, menntun og stöðu á vinnumarkaði. Þá mun Rúnar einnig fjalla sérstaklega um frestun heilbrigðisþjónustu, þ.e. hversu margir sleppa því að leita læknis þótt þeir telji sig þurfa þess, hvers vegna slíkt á sér stað og hverjar afleiðingar þess eru.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is