Löggjafans að auka samúðina

Þúsundir flóttamanna hafa streymt inn í Evrópu undanfarin misseri.
Þúsundir flóttamanna hafa streymt inn í Evrópu undanfarin misseri. AFP

Lög og jafnræðissjónarmið valda því að Útlendingastofnun getur ekki veitt dvalarleyfi að  geðþótta í málum þar sem margir vildu sýna miskunn og samúð. Það er löggjafans að breyta lögunum en ekki stofnana eða stjórnvalda. Þetta sagði Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri á hælissviði Útlendingastofnunar, á opnum fundi um málefni flóttamanna og hælisleitenda á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í dag.

Mikil umræða hefur farið fram um flóttamenn og hælisleitendur undanfarið í tengslum við fordæmafáan straum flóttamanna frá Sýrlandi fyrst og fremst undanfarin misseri. Talið er að fjöldi flóttamanna í heiminum hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en nú. Hefur Útlendingastofnun setið undir töluverðri gagnrýni fyrir meðferð sína á þeim sem leita hælis og verndar hér á landi.

Hver er munurinn á flóttamanni og hælisleitanda?

Skúli og Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lögmaður hjá Rétti, fjölluðu meðal annars um skilgreiningarnar á hverjir teljast vera flóttamenn og hælisleitendur. Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eru flóttamenn þeir sem eru utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttir vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og geta ekki eða vilja ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands.

Þegar einstaklingur sækir um hæli í tilteknu landi telst hann fyrst hælisleitandi á meðan umsókn hans er til skoðunar. Fáist hún samþykkt fær hann stöðu viðurkennds flóttamanns hjá viðkomandi ríki. Þó kom fram í máli bæði Hrefnu og Skúla og líta mætti á þá sem telja sig sjálfir uppfylla skilgreininguna sem flóttamenn.

Íslandi ber þannig skylda til að fara yfir umsóknir hælisleitenda ef þeir hafa ekki þegar leitað hælis annars staðar. Það getur hins vegar sent þá til baka til fyrsta landsins sem þeir sóttu um hæli í á grundvelli Dyflinnarsamkomulagsins. Þá þurfa stjórnvöld hér ekki að taka til efnislegrar umfjöllunar umsóknir þeirra sem þegar hafa fengið viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn í öðru landi.

Munurinn á hælisleitanda og flóttamanni skiptir máli þegar kemur að endursendingum fólks til þeirra landa sem það sótti eða fékk fyrst hæli í. Þannig sendir Ísland hælisleitendur ekki til Ungverjalands eða Grikklands, né Ítalíu í ákveðnum tilfellum, vegna þess að hæliskerfin þar séu ekki talin fullnægjandi.

Hins vegar benti Skúli á að ekki væri hægt að jafna saman aðstæðum í þessum löndum almennt við þær sem ríktu í hæliskerfum þeirra. Þannig væru flóttamenn, þ.e.a.s. þeir sem hefðu fengið viðurkennda stöðu flóttamanna í þessum ríkjum, eftir sem áður endursendir þangað.

Útlendingastofnun hefur oft legið undir ámæli vegna þess sem margir …
Útlendingastofnun hefur oft legið undir ámæli vegna þess sem margir telja ómannúðlega meðferð á umsóknum hælisleitenda. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samþykkja líklega yfir 70 umsóknir í ár

Í umræðunni um Útlendingastofnun er því oft haldið fram að enginn fái hælisumsóknir samþykktar hér á landi. Skúli benti hins vegar á að það sem af væri þessu ári hefði 55 manns verið veitt hæli sem flóttamenn eða fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Líklegt sé að fjöldinn verði yfir 70 á þessu ári. Þá séu ekki talin með dvalarleyfi til kvótaflóttafólks sem skipti tugum.

Hlutfallslegur fjöldi leyfisveitinga hér sé þó lítill í samanburði við nágrannalöndin en ástæðu þess sagði Skúli mismunandi þjóðernissamsetningu hælisleitenda í löndunum. Þannig væru um 40% þeirra sem föluðustu eftir hæli hér frá Balkanskaga þar sem ekki ríkti stríðsástand eða ógnarstjórnir væru við lýði þó að þar hafi ríkt styrjaldarástand á árum áður. Í Skandinavíu komi hins vegar meirihluti hælisleitenda frá stríðshrjáðum ríkjum.

Hálfkláraður flóttamannasamningur

Hrefna fór meðal annars yfir bresti í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Í honum væri til að mynda gert ráð fyrir að fólk væri komið til öruggs ríkis þegar vernd þess tæki gildi. Eins og kom ítrekað fram á fundinum hefur þó verið efast um getu ríkja, eins og Grikklands, til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Þá geti hælisleitendur ekkert leitað ef þeir telji ríki brjóta gegn samningnum. Enginn dómstóll sé til staðar sem taki á kærum og engin þvingunarúrræði séu til staðar til að neyða ríki til að framfylgja sáttmálanum. Því tali fræðimenn sumir um að flóttamannasamningurinn sé í raun hálfkláraður.

Flóttamenn og förufólk koma í ríkum mæli til Grikklands. Hæliskerfið …
Flóttamenn og förufólk koma í ríkum mæli til Grikklands. Hæliskerfið þar þykir ekki fullnægjandi og því eru hælisleitendur ekki sendir þangað frá Íslandi. AFP

Spurt um nothæfi Dyflinnarreglugerðarinnar

Í pallborðsumræðum í lok fundarins var meðal annars fjallað um Dyflinnarreglugerðina og var borin upp sú spurning hvort hún væri enn virk og nothæf í ljósi ástandsins nú. Hún gengur meðal annars út á að það ríki þar sem hælisleitandi sækir fyrst um hæli beri ábyrgð á meðferð máls hans. Ísland hefur þannig endursent fjölda hælisleitenda til annarra ríkja Evrópu á grundvelli hennar.

Hrefna sagði að reglugerðinni hefði verið komið á til að dreifa ábyrgð á móttöku flóttamanna og tryggja það að ríki öxluðu ábyrgð á henni. Voru þátttakendur í umræðunum almennt sammála um að brestir væru komnir í reglugerðina. Skúli sagði að dæmi Íslands vekti spurningar um dreifingu ábyrgðarinnar og að ef ríki ýtti frá sér ábyrgð gæti verið kominn tími til að endurskoða reglugerðina. Þá sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og 2. varaformaður allsherjarnefndar Alþingis, að ekki hefði tekist að dreifa ábyrgðinni þó að tekist hefði að skýra hana.

Fjöldi flóttafólks hefur látist við að reyna að komast til …
Fjöldi flóttafólks hefur látist við að reyna að komast til Evrópu. AFP

Lagaákvæðin opin og matskennd

Arndís A.K. Gunnardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, sagði að meðferð hælisleitenda hér á landi snerist ekki aðeins um löggjöfina. Ákvæði Dyflinnarsamkomulagsins og íslenskra laga sem heimili að taka mál til efnismeðferðar séu afar opin og matskennd. Spyrja þurfi hvernig sé hægt að laga lögin til, gera þau skýrari og auka mannúð.

Líneik sagði að einhugur hefði ríkt í svonefndri útlendinganefnd sem unnið hefur að tillögum að breytingum á útlendingalögum. Hvað mannúð varði þurfi að fara reglulega yfir lögin til að tryggja að þau uppfylli þau viðmið sem Íslendingar vilji setja.

Hrefna sagði að starf nefndarinnar hefði verið jákvætt og sterkur grunnur væri kominn að breytingum sem margir aðilar sem komi að málefnum flóttamanna og hælisleitenda hefðu haft aðkomu að. Svo virðist sem að langflestir hafi verið sammála um hverju þurfi að breyta og helst sé rætt um hvernig eigi að útfæra þær breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert