Ástandið í réttarkerfinu ofbýður okkur

182 nauðganir voru tilkynntar Stígamótum á síðasta ári. Þar af …
182 nauðganir voru tilkynntar Stígamótum á síðasta ári. Þar af voru hópnauðganir 19 talsins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mikla athygli vakti þegar samtökin Stígamót lýstu því yfir í gær að nærtækast væri að ráða fólki frá því að kæra kynferðisbrot.

„Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk. Það getur átt von á að vera kært fyrir falskar ásakanir og þurfa þá að sanna það sem lögreglunni tekst oftast ekki að sanna, að nauðgun hafi átt sér stað. Í þá stöðu er ekki hægt að setja fólk og það er óviðunandi,“ segir á Facebook-síðu Stígamóta.

Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta segir í samtali við mbl.is að yfirlýsingin byggi ekki á neinu einstöku máli, en hún birtist skömmu eftir fimm piltar voru sýknaðir af ákæru um hópnauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hvert slæmt mál ýfir upp eldri sár

„Ástandið í réttarkerfinu einfaldlega ofbýður okkur. Ég get sem dæmi nefnt mennina tvo sem voru kærðir fyrir fjöldanauðgun og í tilfelli annars þeirra, endurteknar nauðganir. Ekki þótti lögreglu ástæða til að nýta þau verkfæri sem til voru, eins og gæsluvarðhald eða farbann.“

Þá nefnir hún þá staðreynd að þegar kynferðisbrot eru kærð, eigi þolandinn von á að vera kærður á móti fyrir rangar sakargiftir.

„En þessi yfirlýsing kemur ekki síst vegna þess að við erum í sambandi við hópa kvenna í grasrótinni, sem hafa náð saman eftir að hafa verið beittar kynferðisofbeldi og eru haldnar áfallastreitu. Hvert svona slæmt mál hefur á þær vond áhrif og ýfir upp eldri sár. Af þeim sökum fannst okkur ástæða til að segja frá þessu, að nærtækt væri að ráða fólki frá því að kæra þessi brot.“

Sannleikssjóður til stuðnings gegn kærum

Dómurinn hefur vakið hörð viðbrögð margra í samfélaginu, þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra hefur til að mynda sagst vera gráti næst vegna niðurstöðu dómstólsins. „En hvernig má það vera að það sé ekki skil­greint sem of­beldi þegar fimm strák­ar bók­staf­lega ganga í skrokk á 16 ára stelpu og taka sig sam­an um að ríða henni?“ spyr Ingi­björg.

Sjá frétt mbl.is: „Algjörlega venjulegt kynlíf“

Sveinn Andri Sveins­son, verj­andi eins piltsins sem sýknaður var af ákærunni, segist gera ráð fyr­ir að pilt­arn­ir myndu sækja rétt sinn vegna gæslu­v­arðhalds sem þeir þurftu að þola og að stúlkan verði hugsanlega kærð fyr­ir rang­ar sak­argift­ir.

Til staðar er svokallaður Sannleikssjóður, sem stofnaður var fyrir nokkrum árum til að styðja einmitt við þá sem kærðir eru fyrir að segja frá ofbeldi gegn sér.  „Í honum er lítið fé en hann er þó til,“ segir Guðrún og bendir á að eftir fréttaflutning að undanförnu hafi fólk sýnt aukinn hug á að styrkja sjóðinn og bæta í hann fé.

Gerendur geta samræmt vitnisburðinn

Í síðustu ársskýrslu Stígamóta kemur fram að 182 nauðganir hafi verið tilkynntar samtökunum á síðasta ári. Þar af voru rúm 10,4% hópnauðganir, eða 19 talsins.  Í sjö tilfellum hópnauðgana voru tveir ofbeldismenn, í fjórum tilfellum voru ofbeldismennirnir þrír og í tveimur tilfellum voru ofbeldismennirnir fjórir. Í sex tilfellum vantaði upplýsingar um fjölda ofbeldismanna.

„Þegar um hópnauðganir er að ræða þá hafa gerendurnir tækifæri til að tala sig saman og samræma vitnisburð sinn. Af þeim stendur að sjálfsögðu margfalt meiri ógn en af einum nauðgara. Það eru því mun minni líkur á að þeir séu kærðir og jafnvel einnig á að þeir séu sakfelldir.“

Guðrún nefnir rannsókn Hildar Fjólu Antonsdóttur, þar sem hún athugar nauðgunarkærur á árunum 2008 og 2009. „Þar eru 189 mál kærð og 21 dómur á tveimur árum. Það eru heldur ekki nema í kringum 13 prósent af þeim sem koma til okkar sem kæra. Í kæru felst ákaflega erfitt ferli fyrir þolendur og er, því miður, í flestum tilfellum til einskis.“

Mikill vafi um ásetning

Í vikunni var karlmaður sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað sautján ára gam­alli stúlku á hót­el­her­bergi á síðasta ári. Í niður­stöðu dóms­ins segir að mikill vafi leiki á því hvort að maðurinn hafi nauðgað stúlkunni af ásetningi. Kvaðst stúlkan hafa vaknað við að maður­inn hafi verið að eiga við sig og síðan hafi hann nauðgað sér. Maður­inn neitaði hins veg­ar sök og sagði að ekki hafi verið um þving­un að ræða.

Sjá frétt mbl.is: Sýknaður af nauðgunarákæru

Í at­huga­semd­um frumvarps til breytinga á hegningarlögum, sem samþykkt var árið 2007, er ásetningur sagður vera ótví­rætt sak­næm­is­skil­yrði nauðgun­ar­brots. Er þar sér­stak­lega tekið fram að ásetn­ing­ur verði að taka til allra efn­isþátta verknaðar eins og hon­um er lýst, þ.e. bæði til verknaðaraðferðar og kyn­mak­anna.

Í norskri löggjöf er að finna ákvæði um að nauðgun af stórkostlegu gáleysi varði fimm ára fangelsi. Spurð hvort þörf sé á slíku ákvæði hér á landi segir Guðrún að svo virðist vera.

„Það hljómar auðvitað fáránlega að hægt sé að nauðga af gáleysi. En markmiðið með slíku ákvæði er að hægt sé að ná þeim sem ekki er að hægt að sanna að hafi ætlað sér að nauðga. Auðvitað ætti ekki að þurfa slíkt ákvæði en það virðist vera reyndin.“

Sterk öfl að verki í samfélaginu

Hún segir að sér sýnist sem samfélagið sé að vakna gagnvart stöðu kynferðisbrotamála í réttarkerfinu. „Það kraumar í grasrótinni og það eru ýmsir hópar sem una þvi ekki lengur að það sé ekki hægt að ná utan um þessi brot. Það er heilmikil vitundarvakning og konur eru að tala saman og leyfa sjálfum sér að segja frá.

En á sama tíma eru sterk öfl að verki sem vilja viðhalda þeirri ofbeldismenningu sem nauðganir þrífast í.“

Að lokum segir Guðrún að samfélagsumræðan eftir nýgengna dóma og kærur hafi haft áhrif á margar konur. „Þær hafa ákveðið að tala alvarlega saman um hvernig hægt sé að bregðast við þessu. Þegar eru nokkrar mjög spennandi hugmyndir í loftinu.“

Stuðningshópar vegna ástandsins

„Í vikunni kom ákall um að hópur gæti komið til okkar og rætt við okkur. Með þriggja tíma fyrirvara opnuðum við húsið og leyfðum þeim að koma sem liðu illa og vildu tækifæri til að spjalla. Þá ákváðum við að hafa húsið opið áfram til að ræða þessi mál og jafnvel leggja á ráðin hvernig hægt sé að bregðast við.

Þetta er nýtt fyrir okkur. Öll okkar ár höfum við starfrækt sjálfshjálparhópa fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi. En við höfum ekki starfrækt stuðningshópa vegna ástandsins í samfélaginu. En það gerum við nú með ánægju,“ segir Guðrún og bætir við að hún sé bjartsýn á að breytingum verði náð fram á réttarkerfinu.

„Ég hef alltaf mikla trú á grasrótinni. Þaðan koma venjulega sterkar kröfur um breytingar sem síðar verða að veruleika.“

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg
Í hegningarlögum er ekki vikið að nauðgunum vegna gáleysis.
Í hegningarlögum er ekki vikið að nauðgunum vegna gáleysis. Ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Guðrún segir vitund samfélagsins vera að vakna gagnvart stöðu kynferðisbrotamála …
Guðrún segir vitund samfélagsins vera að vakna gagnvart stöðu kynferðisbrotamála í réttarkerfinu.
Maðurinn var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands.
Maðurinn var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is
Í Druslugöngunni er deilt á orðræðuna sem fylgir oft þegar …
Í Druslugöngunni er deilt á orðræðuna sem fylgir oft þegar fjallað er um kynferðisbrot. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert