Mörg mistök í málefnum flóttamanna

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að mörg mistök hafi verið gerð í málefnum flóttamanna og Evrópusambandið sé vanbúið til að leysa vanda af þessu tagi. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

– Flóttamannavandinn sem kominn er upp í heiminum er án fordæma. Hvað er til ráða?

„Búið er að gera mörg mistök í þessum flóttamannamálum og það hefur til dæmis sýnt sig að Evrópusambandið er algjörlega vanbúið til að takast á við vandamál af þessu tagi. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Vandamálið er mjög stórt og alltaf gott að vera vitur eftir á en staðreyndin er samt sú að ýmsir bentu á það fyrir einhverjum árum að hætta væri á að þessi staða gæti komið upp. Ég held líka að talað hafi verið óvarlega þegar nánast var auglýst að allir flóttamenn væru velkomnir til ríkja Evrópusambandsins, hvort sem átt var við sambandið sem heild eða einstök ríki. Ríkin hafa ekki ráðið við aðstæður í kjölfarið.

Hin varanlega lausn er auðvitað að koma á friði í þessum ríkjum, þaðan sem straumurinn liggur, svo sem Sýrlandi og Írak. Þangað til það tekst er mikilvægt að reyna að gera líf þessa fólks bærilegt og helst nálægt þeirra heimkynnum, þar sem það vill að sjálfsögðu helst vera. Þetta er mjög erfitt eins og staðan er í dag.

Við megum heldur ekki gleyma því að við erum bara með brot af flóttamannavandanum í heiminum í fanginu núna. Það eru sextíu milljónir manna á flótta af öllum mögulegum ástæðum.“

– Hvert er hlutverk Íslands í þessu sambandi?

„Ísland þarf að sjálfsögðu að taka þátt í að hjálpa þessu fólki. Það er hins vegar langt til Íslands og tiltölulega fáir flóttamenn sem koma hingað á eigin vegum, þótt hælisleitendum fjölgi vissulega jafnt og þétt. Þeir eru þó gjarnan frá öðrum ríkjum en þeim sem eiga við mestan vanda að etja. Núna erum við byrjuð að taka við flóttamönnum úr flóttamannabúðum í Líbanon í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Það er okkar leið til að létta undir í vandanum. Eins er mikilvægt fyrir okkur að styðja við alþjóðastofnanir svo hægt sé að sjá flóttamönnum fyrir mat og drykk meðan þeir eru á vergangi.“

Sætta þarf ólík sjónarmið

– Þú nefndir Sýrland. Ástandið þar versnar dag frá degi. Er ekki þörf á róttækum aðgerðum? Og hafa Vesturlönd ekki misst frumkvæðið til Pútíns Rússlandsforseta?

„Ég lít ekki svo á að Vesturlönd séu að missa frumkvæðið til Pútíns. Rússar hafa lengi átt hagsmuna að gæta í Sýrlandi og átt í samstarfi við sýrlensk stjórnvöld, þannig að það var bara tímaspursmál hvenær þeir myndu stíga inn í þessa atburðarás.

Vandinn er sá að uppi eru ólík sjónarmið um það hvernig framtíð Sýrlands eigi að þróast. Vestrænum þjóðum er meinilla við að þarna sé áfram við völd maður sem beitt hefur fólk sitt miklu harðræði, meðal annars gripið til efnavopna, en Rússar hafa staðið þétt að baki honum. Til að þúsundir til viðbótar týni ekki lífi gæti verið nauðsynlegt að finna einhvern milliveg. Það er að Assad fari frá með einhverjum hætti, mögulega án þess að verða dæmdur. Verði sú ráðstöfun til þess fallin að bjarga mannslífum er vel þess virði að skoða hana vandlega. Ástandið þarna er í einu orði sagt hörmulegt og átakanlegt að horfa upp á þetta.

Sýrlandsmálið hefur líka dregið fram í dagsljósið veikleika Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þegar fimm ríki geta óspart beitt neitunarvaldi, að því er virðist stundum í andstöðu við meginhlutverk ráðsins, sem er að stuðla að friði og koma í veg fyrir stríð, þá veltir maður fyrir sér hvort ráðið sé yfir höfuð fært um að gegna sínu hlutverki. Mín skoðun er sú að fara þurfi vandlega yfir hlutverk Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.“

Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert