Losun hafta á fyrri hluta ársins?

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á …
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á aðalfundi Seðlabankans í dag. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Losa á um fjármagnshöftin í kjölfar aflandskrónuútboðs sem halda á á fyrri hluta þessa árs. Unnið er að málinu og hefur sú vinna gengið vel. Þegar hrunið varð þurfti Ísland tvær hækjur, önnur þeirra var aðgerðaáætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og lánveitingar frá nágrannaríkjum en hin var fjármagnshöftin.

Nú þegar neyðarlánin hafa verið greidd upp er komið að því að sleppa hinni hækjunni og það verður síðar á árinu. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á aðalfundi Seðlabanka Íslands í dag.

Bjarni fór í ræðu sinni yfir þróun mála undanfarin ár og í grundvallaratriðum hvað væri framundan. Sagði hann að nú væri viðgangsefnið orðið gjörbreytt frá því sem áður var. Sagði hann að nú væri mikilvægt að huga að því að koma í veg fyrir þenslu meðal annars með að gæta aðhalds í útgjöldum hins opinbera. 

Þótt tímarammi fyrir afnám haftanna hafi ekki verið tekinn fram í erindi Bjarna eða Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra, á fundinum kom fram í máli Bjarna að nú væru hagstæð skilyrði til að taka það skref og að það yrði tekið í kjölfar aflandskrónuútboðsins.

Varar stjórnmálamenn við kostnaðarsömum kosningaloforðum

Varaði hann stjórnmálamenn við því að þótt kosningar væru framundan væri mikilvægt að gætt væri hófs í útgjöldum ríkisins. Sagði hann að ríkissjóður væri mikilvægt hagstjórnartæki þannig að ekki þyrfti að beita vaxtatækinu með tilheyrandi skerðingu á efnahagslegri velferð.

Ítrekaði hann að leiðin til hagsældar væri ekki tímabundið viðfangsefni heldur þyrfti að hugsa til langs tíma. Sagðist Bjarni vera bjartsýnn á framtíðina. „Framtíðin hefur aldrei verið jafn björt hjá okkur Íslendingum,“ sagði hann um núverandi stöðu efnahags landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert