Telur tillöguna byggða á misskilningi

Fundist hefur fjöldi beinagrinda, enda er þarna elsti kirkjugarður Reykvíkinga.
Fundist hefur fjöldi beinagrinda, enda er þarna elsti kirkjugarður Reykvíkinga. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjórnandi forleifauppgraftrar á bílastæði Landsímahússins telur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar í gær, vera byggða á misskilningi og sér ekki ástæðu til að hverfa frá byggingaráformum á reitnum á þeim forsendum.

Ljóst var strax í upphafi að verið væri að rannsaka svæði þar sem áður var Víkurkirkjugarður en eins og við var að búast voru þessar grafar verulega raskaðar frá seinni tíð.Þetta segir Vala Garðarsdóttir forleifafræðingur og stjórnandi uppgraftrarins í samtali við mbl.is.

Í tillögu sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á fundi borgarstjórnar í gær segir:

„Í ljósi fornleifauppgraftar við Landsímahúsið, samþykkir borgarstjórn að byggingaráform á reitnum verði endurskoðuð með það að markmiði að horfið verði frá því að reisa fyrirhugað stórhýsi í hinum forna Víkurkirkjugarði, elsta kirkjugarði Reykjavíkur, enda er nú komið í ljós að kirkjugarðurinn nær inn á byggingarreitinn.

Þess í stað verði leitast við að forðast menningarlegt tjón með því að vernda kirkjugarðinn, setja þar upp minningarmörk um hina framliðnu og gefa almenningi kost á útivist í garðinum eftir því sem kostur er.“

Samþykkt var að vísa tillögunni til borgarráðs til frekari skoðunar.

Vitað að garðurinn næði inn á byggingarsvæðið

Vala segir að legið hafi ljóst fyrir þegar byggingarleyfið var veitt af hálfu borgarinnar að garðurinn næði að einhverju leyti inn á byggingarsvæðið. Fornleifarannsóknin er gerð í framhaldi af veitingu byggingarleyfisins og einnig lá fyrir leyfi af hálfu Minjastofnunar.

„Það var vitað frá upphafi að við værum á svæði þar sem Víkurkirkjugarður hefur verið. Það hefur kannski verið misskilningur hjá mörgum að allt þetta rask sem hefur átt sér stað í gegnum áratugina síðustu og í rauninni síðastliðin hundrað ár, það hefur meira og minna á sér stað þar sem Fógetagarðurinn er í dag.

Við erum ekki í Fógetagarðinum. Þegar verið er að vitna í að garðurinn sé ein heild eða hann sé óraskaður þá er það misskilningur þar sem stórum hluta af Fógetagarðinum var raskað bæði við framkvæmd Landsímahússins 1930-1932, þegar viðbygging Landsímahússins var reist árin 1966 til 1967 og einnig þegar hús landlæknis reist var 1883 en það stóð í norðanverðum Fógetagarðinum,“ segir Vala í samtali við mbl.is.

Hún segir að hluti kirkjugarðsins sé um það bil 15% af heildaruppgreftrarsvæðinu og ljóst sé að mörk kirkjugarðsins náði því aðeins inn á bílastæði Landsímahússins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert