Ítrekuð brot á nálgunarbanni erfið

Nálgunarbann tekur einnig til samskipta á samfélagsmiðlum og sms skilaboða.
Nálgunarbann tekur einnig til samskipta á samfélagsmiðlum og sms skilaboða. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögregla mætir ekki oft á staðinn vegna brota á nálgunarbanni en slíkt er þó gert þegar þess er óskað, segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hæstirétt­ur staðfesti í gær úr­sk­urð héraðsdóms þar sem karl­maður var dæmd­ur í gæslu­v­arðhald fyr­ir að hafa ítrekað brotið nálg­un­ar­bann og brott­vís­un af heim­ili stjúp­dætra sinna og móður þeirra, sem er jafn­framt eig­in­kona manns­ins.

Dóm­ur féll í máli mannsins í mars á þessu ári, en hann er grunaður um að hafa í ár­araðir brotið gegn mæðgun­um með ít­rekuðum kyn­ferðis­brot­um, lík­am­legu of­beldi og hót­un­um. Hann hefur líka ítrekað brotið gegn nálgunarbanninu með því að mæta á heimili kvennanna, nálgast þær á almannafæri og senda þeim textaskilaboð sem innihalda grófar hótanir.

Alda Hrönn ræðir ekki einstök mál en hún segir best ef sá sem verði fyrir broti á nálgunarbanni tilkynni það sem fyrst. „Síðan er best að rannsóknin taki sem stystan tíma og það sé ákært sem fyrst,“ segir Alda Hrönn og bætir við að lögreglu berist tilkynningar oft frekar seint. Sá sem brjóti gegn nálgunarbanni sé hins vegar almennt handtekinn ef lögregla mæti á vettvang og þá sé farið með hann niður á stöð til skýrslugerðar. „Þetta tekur skamman tíma ef viðkomandi er að brjóta nálgunarbann með því að mæta þangað sem hann má ekki, en getur tekið lengri tíma ef brotin eiga sér stað með rafrænum hætti og lögregla þarf að fá senda t.d. tölvupósta og SMS-skilaboð.“

Reynt að hafa í forgangi

Brjóti viðkomandi ítrekað á nálgunarbanninu, sem er brot á almennum hegningarlögum, er jafnvel um síbrot að ræða og eins þarf að skoða mál vel ef ógn stafar af þeim sem brýtur nálgunarbannið.

Alda Hrönn segir reynt að hafa mál sem þessi í forgangi. „Það er ágætis þekking á því hvernig á að beita þessu úrræði og hún er alltaf að aukast.“

Lögin um nálgunarbann kveða á um að brotaþola og sakborningi séu skipaðir réttargæslumenn og segir Alda Hrönn líka almennt reynt að haga málum þannig að sami lögreglumaðurinn eða stjórnandi sé með þessi mál á sinni könnu. „Þannig að það sé heildstæð vinnsla í gangi,“ segir hún og játar að nokkuð mörg nálgunarbannsmál séu á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Virða almennt bannið

Alda Hrönn segir sakborninga almennt virða það ef þeir hafi verið dæmdir í nálgunarbann. „En það eru auðvitað dæmi um að fólk virði þetta ekki,“ segir hún og kveður lögreglu fylgjast betur með brotaþola í slíkum málum, ef ástæða þyki til. „Við skoðum það og ef það er t.d. um heimilisofbeldismál að ræða reynum við að áhættugreina þau, en aukin vöktun lögreglu er klárlega eitt af þeim úrræðum sem við skoðum.“

Neyðarhnappur er annað úrræði sem hefur verið nýtt. „Við byrjuðum með þetta á Suðurnesjunum og það hefur virkað ágætlega, en það geta þó verið ýmsar ástæður fyrir að hann henti ekki,“ segir Alda Hrönn og bendir á að neyðarhnappurinn sé enda bara tækjabúnaður og geti alveg brugðist sem slíkur.

Eins sé sá möguleiki að koma þurfi fólki í öruggt skjól ef óttast er um líf þess og segir hún Kvennaathvarfið hafa verið nýtt í þessu samhengi.

Norska ríkið dæmt fyrir að tryggja ekki öryggi konu

„Þannig að við höfum úrræði, en ítrekuð brot þar sem engu tauti er komið við sakborninginn um að láta af hegðun sinni eru mjög erfið,“ segir Alda Hrönn og samsinnir að ákveðinn vítahringur geti myndast þar sem viðkomandi sé handtekinn, skýrsla skrifuð og honum svo sleppt þar safnast hafi nægur fjöldi af ákærum.

Hún er þó ekki þeirrar skoðunar að vitnavernd og brottflutningar milli landa séu endilega lausnin. „Það féll dómur hjá Norðmönnum, þar sem norska ríkið var dæmt skaðabótaskylt af Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að leita ekki allra leiða til að tryggja öryggi konu sem hafði verið í sambandi við mann sem síðan lét hana ekki í friði.“ Konan þurfti að flytja af landi brott og dómurinn leit svo á að norska ríkið hefði ekki leitað allra leiða til að tryggja henni vernd. „Það er almennt litið þannig á að sá sem fyrir ofbeldinu verði eigi að geta lifað sem eðlilegustu lífi,“ segir hún og bendir á að annað sé gríðarlega mikið inngrip.

„Það hefur þó orðið algjör vitundarvakning hvað þekkingu á þessum málaflokki varðar,“ segir hún og kveður íslensk yfirvöld vera mjög meðvituð um vandann. „Við þurfum að halda áfram að þróa okkur. Tæknin er að verða erfiðari, t.d. hvað varðar netvæðingu og samskiptaforrit,  og við þurfum alltaf að vera á tánum.“

Grunaður um kynferðisbrot í áraraðir 

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir vitundarvakningu …
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir vitundarvakningu hafa orðið í málum þar sem nálgunarbanns er þörf. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is