Vill víðtækari sátt um búvörulög

Frumvarp til búvörulaga mun væntanlega breytast í næsta mánuði.
Frumvarp til búvörulaga mun væntanlega breytast í næsta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, gerir ráð fyrir því að frumvarp til búvörulaga eigi eftir að breytast í meðförum þingsins í næsta mánuði.

Hann segir að skilningur sé innan nefndarinnar á þeim áhyggjum sem hafa verið uppi hjá hópi bænda vegna hluta búvörusamningsins. Áhugi sé á því mæta þeim sjónarmiðum að einhverju leyti þannig að endurskoðunarákvæði samningsins fyrir árið 2019 verði víðtækara en það er í dag.

„Síðan er áhugi fyrir því hjá okkur að í þessum aðlögunartíma til  2019 eigi fleiri hagsmunaaðilar aðkomu að því að þróa þennan samning þannig að það geti tekist víðtækari sátt,“ segir Jón. Að því verkefni komi fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins.

„Þessir aðilar eiga það allir sammerkt að hafa sagt að þeir vilji standa við bakið á íslenskri landbúnaðarframleiðslu og að íslenskur landbúnaður nái að eflast. Við viljum leiða þessa aðila saman að borðinu til að móta þessa stefnu til lengri tíma þannig að meiri sátt megi ríkja um hana,“ segir hann.

Tvisvar teknir til endurskoðunar

Búvörusamningar voru samþykktir af bændum í lok mars en þeir snúast um starfsskilyrði nautgripa og sauðfjárræktar.  Gert er ráð fyrir að samningarnir verði teknir til endurskoðunar tvisvar sinnum á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Þeir verða teknir til annarrar umræðu á Alþingi eftir afgreiðslu atvinnuveganefndar í ágúst.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Samofnir hagsmunir 

Jón segir það erfitt fyrir nefndina að fara inn í samningana sjálfa. „Ég kýs að líta á það þannig að í raun og veru liggi fyrir ákveðinn 10 ára rammi sem skapi framtíðarsýn sem er nauðsynleg í greininni en menn hafi endurskoðunarákvæði til að móta útfærslu samningsins. Hagsmunir bænda og neytenda eru mjög samofnir í þessu máli og á grunni þess þurfum við að leiða fram niðurstöðu í málinu."

Vill efla samráðið

Aðspurður segir Jón það ekki óalgengt að mönnum finnst ekki nægilegt samráð vera haft við gerð samninga eins og búvörusamninganna. Hann segir mikilvægt að allir búi yfir sömu upplýsingum og geti unnið með sömu forsendur við gerð slíkra samninga. „Að okkur mati hefur skort svolítið á framtíðarskipanina. Þess vegna verður örugglega sett inn í lögin að þetta samráð verði eflt mikið."

Mjólkursamsalan var sektuð um 480 milljónir króna.
Mjólkursamsalan var sektuð um 480 milljónir króna. mbl.is/Kristinn

Óheppileg ummæli forstjóra MS

Málefni Mjólkursamsölunnar hafa mikið verið í umræðunni undanfarið eftir að Samkeppniseftirlitið ákvað að sekta fyrirtækið um 480 milljónir króna vegna brots á samkeppnislögum. Í framhaldinu sagði forstjóri MS að sektin mundi lenda á neytendum. „Það er betra að hann skýri þetta út en ég held að ummælin hafi verið óheppileg og þarfnist frekari útskýringa af þeirra hálfu,“ segir Jón.

Þarf að gefa MS aukið aðhald

„Það er mjög mikilvægt að við eflum möguleika minni framleiðenda á því að geta aukið á fjölbreytta framleiðslu á mjólkurafurðum til gefa MS bæði aðhald gagnvart verðlagningu og framleiðslu og til að auka fjölbreytileika á markaði,“ segir hann en tekur fram að MS hafi stigið skref til að aðstoða minni framleiðendur í því skyni að auka samkeppni í greininni. Það megi ekki gleymast í umræðunni.

mbl.is