Fari í gegnum þingið og þjóðina

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum sagt að það verði ekkert haldið áfram með þetta mál nema með aðkomu þings og þjóðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is spurð um afstöðu flokks hennar til umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið en eitt af þeim skilyrðum sem Píratar hafa sett fyrir ríkisstjórnarsamstarfi er að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald þess máls. Katrín segir þetta þann lærdóm sem VG hafi dregið af reynslu síðasta kjörtímabils.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG sótti um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009 eftir að þingsályktun þess efnis hafði verið samþykkt á Alþingi. Þingsályktunartillagan var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 28. Þingflokkur VG klofnaði í afgreiðslu málsins en átta þingmenn hans greiddu atkvæði með tillögunni, fimm á móti og einn sat hjá. Málið reyndist VG áfram erfitt og olli því meðal annars ásamt öðru að þrír þingmenn flokksins yfirgáfu hann og einn sagði af sér.

Þingið taki málið aftur til umfjöllunar

Katrín segist aðspurð telja eðlilegt að nýtt þing að loknum næstu þingkosningum tæki málið til umfjöllunar og afgreiðslu yrði tekin ákvörðun um að setja málið á dagskrá enda sjö ár frá þingsályktuninni 2009. „Ég er þeirrar skoðunar að núverandi ríkisstjórn hefði átt að fara í gegnum þingið þegar hún ákvað að taka þetta mál af dagskrá. Sem hún kaus að gera ekki. En að sama skapi tel ég eðlilegt að þingið tæki þá málið til umfjöllunar og afgreiddi það síðan til þjóðarinnar.“

Bæði Samfylkingin og Björt framtíð vilja að stefnt verði að inngöngu í Evrópusambandið að nýju og framhald málsins lagt í þjóðaratkvæði. Sú krafa Pírata yrði því ekki fyrirstaða fyrir mögulegu ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna tveggja með Pírötum eins og formenn þeirra, Oddný Harðardóttir og Óttarr Proppé, staðfesta í samtali við mbl.is. Hins vegar er málið nokkuð snúnara í tilfelli VG enda flokkurinn andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt stefnuskrá sinni.

Telja ekkert mæla með inngöngu í ESB

Katrín segir stefnu VG gagnvart Evrópusambandinu skýra. Flokkurinn sé sem fyrr andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Atburðir síðustu ára hafi síður en svo gert sambandið áhugaverðara. Vísar hún þar ekki síst til framgöngu Evrópusambandsins gagnvart Grikklandi þar sem hagsmunir fjármagnsins og evrusvæðisins hafi verið teknir fram yfir hagsmuni almennings. Ljóst sé að fjármálavaldið og stórfyrirtæki hafi fengið að ráða allt of miklu innan sambandsins.

„Þó það sé mín persónulega skoðun að það sé ekkert sem þrýsti á um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu þá myndum við auðvitað ekki leggjast gegn slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. En við teljum þetta ekki forgangsmál,“ segir Katrín. VG hefði enda ítrekað kallað eftir því að þjóðaratkvæði færi fram yrði málið sett á dagskrá á nýjan leik. „En okkar afstaða er alveg skýr og við teljum í raun ekkert mæla með því að Íslandi gangi í Evrópusambandið.“

VG mun beita sér gegn nýrri umsókn

Spurð hvort VG myndi þá beita sér gegn því að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið á nýjan leik í aðdraganda hugsanlegs þjóðaratkvæðis segir Katrín að flokkurinn myndi vitanlega tala fyrir sinni stefnu. Ef niðurstaðan yrði hins vegar önnur yrði að hlíta því. „Við teljum jákvætt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um svona stórmál sem varða alla þjóðina. En það setur stjórnmálamenn þá í þá stöðu að þurfa að hlíta vilja þjóðarinnar. Jafnvel gegn eigin sannfæringu.“

Spurð áfram hvort það kunni ekki að fara gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu aðeins bundnir af sannfæringu sinni í ljósi þess að slíkt þjóðaratkvæði yrði ekki bindandi heldur ráðgefandi segir Katrín að þetta sé vissulega ekki einfalt: „En við höfum sagt að ef við viljum auka aðkomu almennings að svona stórum ákvörðunum um leið og við viljum efla fulltrúalýðræðið þá verðum við að geta látið þetta tvennt spila saman.“

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert