Glíma við afleiðingar ofbeldisins

Maðurinn beitti eiginkonu og stjúpdætur ofbeldi árum saman og lét …
Maðurinn beitti eiginkonu og stjúpdætur ofbeldi árum saman og lét hvorki nálgunarbann eða brottvísun af heimili stöðva sig. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Manni sem er sakaður um hrottalegt ofbeldi gegn eiginkonu sinni og tveimur stjúpdætrum árum saman er gert að víkja úr réttarsal á meðan þolendur ofbeldisins bera vitni fyrir dómi. Maðurinn sætir gæsluvarðhaldi þangað til dómur fellur í máli hans, eigi síðar en 22. september. 

Ítrekað hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum frá því í júní en maðurinn er ákærður fyrir að hafa í ár­araðir brotið gegn mæðgun­um með ít­rekuðum kyn­ferðis­brot­um, lík­am­legu of­beldi og hót­un­um. Hvorki nálgunarbann og gæsluvarðhald hefur stöðvað brot mannsins gagnvart eiginkonu og stjúpdætrum, brot sem hófust í mars 2016 og linnti ekki fyrr en í sumar.

Hann var ákærður 18. júlí fyrir fjölmörg brot gagnvart eiginkonu sinni og stjúpdætrum. Meðal annars að hafa ítrekað nauðgað, eða allt að nokkrum sinnum í viku, eiginkonu sinni í sex ár, frá mars 2010 til mars 2016. Hann hótaði konu sinni með því að hann myndi stunda kynlíf með dætrum hennar eða henda þeim út af heimilinu, ef hún sinnti honum ekki kynferðislega.

Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. september 2014, þvingað konu sína til að setjast klofvega ofan á sig og hafa samræði við sig um leggöng með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung og ekki látið af háttseminni þótt hún bæði hann ítrekað að hætta. Hótaði hann því meðal annars að stunda kynlíf með dóttur hennar ef hún ekki stundaði kynlíf með honum.

Hótun og kynferðisleg áreitni, með því að hafa sunnudaginn 6. mars 2016, hótað að taka konuna með valdi og hafa mök við hana í endaþarm í kjölfar þess að hún neitað honum um kynlíf.

Brot á nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 22. mars 2016 sent konu sinni 18 smáskilaboð og hringt í allt að 566 skipti í heimasíma hennar þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá 7. mars 2016 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var af Hæstarétti.

Jafnframt er hann ákærður fyrir stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa ítrekað og smánað eiginkonu sína.

Fleiri hundruð smáskilaboð þrátt fyrir nálgunarbann og gæsluvarðhald

Maðurinn er ákærður fyrir brot gegn annarri stjúpdóttur sinni (sem nefnd er C í ákvörðun Hæstaréttar). Hann er ákærður fyrir kynferðisleg áreitni, með því að hafa ítrekað á árunum 2012-2014 sent C smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð.

Kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 6. mars til 21. maí 2016 sent C 59 smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 28 af smáskilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá C ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

Maðurinn er ákærður fyrir hótanir, með því að hafa á tímabilinu 28. mars til 29. maí 2016 sent C 94 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru skilaboðin til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent C 425 smáskilaboð og hringt allt að 330 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við C með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestir voru af Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir honum að kvöldi sama dags.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum í húsinu sem stúlkan býr ásamt móður og systur þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.

Hann er einnig ákærður fyrir stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er hér að framan og að auki með því að senda C 48 smáskilaboð á tímabilinu 30. mars til 18. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað C.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir brot gagnvart hinni stjúpdóttur sinni (sem nefnd er A í dómi Hæstaréttar).

Maðurinn er ákærður fyrir kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 29. mars til 21. maí 2016 sent A 17 smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 14 af skilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

Hótanir, með því að hafa á tímabilinu 11. apríl til 1. júní 2016 sent A 74 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru hótanirnar til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent A 184 smáskilaboð og hringt allt að 107 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við A með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestir voru í Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir ákærða að kvöldi sama dags.

Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum að [...] þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.

Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er að framan og að auki með því að senda A 34 smáskilaboð á tímabilinu 10. apríl til 8. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað A.

Gæti haft áhrif á framburð konunnar

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að maðurinn borinn alvarlegum sökum af brotaþolum í 16 ákæruliðum.Maðurinn sætir nú gæsluvarðhaldi en hann hélt áfram brotum sínum eftir að hann hóf að sæta gæsluvarðhaldi.

Jafnfram sætir hann nálgunarbanni og brottvísun á heimili næstu sex mánuði frá 31. ágúst. Þann sama dag lagði eiginkona hans fram kæru vegna hótana af hálfu mannsins  í gegnum síma en hótanirnar lúti að því að hann muni drepa hana vinni hún gegn honum.

Meðal þeirra brota sem manninum er gefið að sök gegn eiginkonu sinni er nauðgun í tveimur liðum og brot gegn nálgunarbanni. Að framangreindu virtu og tengslum konunnar við manninn þykir sýnt að nærvera hansvið skýrslugjöf getur orðið henni sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð hennar.

Skilur ekki hvers vegna hann lætur þær ekki í friði

Samkvæmt læknisvottorði fyrir aðra stúlkuna, A, er hún töluvert þroskaheft og persónuleikaröskuð. Samkvæmt vottorði er aðalvandi hennar vitsmunaleg skerðing og viðvarandi andleg vanlíðan með kvíða, þunglyndi og persónuleikaröskun. Hún hefur af þessum sökum ekki verið fær um að stunda neina vinnu á vinnumarkaði án verulegs stuðnings. Stuðningsfulltrúi hennar segir hana komast í mikið uppnám þegar hún ræðir mál stjúpföður síns og skilur ekki hvers vegna hann láti þær mæðgurnar ekki í friði. Það er mat stuðningsfulltrúans að hún muni eiga mjög erfitt með að koma aftur fyrir dóm.

Glímir við þunglyndi og kvíða

Fyrir liggur fyrir í málinu vottorð heimilislæknis um andlega hagi hinnar stúlkunnar, sem nefnd er C í gögnum málsins. Kemur þar fram að hún hafi átt við þunglyndi og kvíða að stríða.

Í samtali heimilislæknis við hana 18. apríl. hafi komið fram að hún væri undir miklu álagi vegna hótana og áreitni frá stjúpföður sínum. Þá hafi hún aftur leitað til læknisins 22. ágúst. en þá hafi hún verið búin að leita á bráðamóttöku og aðra heilsugæslu nokkrum dögum áður. Hún hafi enn verið undir miklu álagi og ráða megi að hún fái ekki þann stuðning og skilning frá nærumhverfi sínu sem hún þurfi á að halda. Þetta auki enn frekar á vanlíðan hennar.

A sé stressuð vegna tilhugsunarinnar um að mæta fyrir dóm og rifja upp samskipti við stjúpföður sinn. Hún sé líka mjög hrædd um að hún missi alla einbeitingu og geti ekki sagt rétt frá ef hann verði viðstaddur. Þá hræðist hún að hún muni ekki hafa stjórn á tilfinningum sínum. Læknirinn óski þess því að maðurinn yfirgefi dómsalinn meðan hún gefi skýrslu. 

 Að öllu framangreindu virtu telur dómari að hagsmunir þolenda ofbeldis mannsins vegi þyngra en hagsmunir ákærða af því að vera viðstaddur skýrslugjöf þeirra. Verður því fallist á kröfu konunnar og dætra hennar og manninum gert að víkja úr þinghaldi á meðan þær gefa skýrslu við aðalmeðferð í málinu. 

Frétt mbl.is:Áfram í haldi vegna ítrekaðra brota gegn mæðgum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert