Íslendingar gera sér ekki grein fyrir möguleikunum

Oliver Luckett hefur heillast af landi og þjóð og ákvað …
Oliver Luckett hefur heillast af landi og þjóð og ákvað að flytja hingað fyrir nokkrum mánuðum ásamt kærasta sínum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Frumkvöðullinn, samfélagsmiðlafræðingurinn, listasafnarinn og fjárfestirinn Oliver Luckett ákvað fyrir um níu mánuðum síðan að taka sér gott tveggja mánaða frí á Íslandi með kærastanum sínum, Scott Guinn, eftir að hann og viðskiptafélagar hans seldu  fyrirtækið sitt til fjárfesta frá Dubai. Þeir ílengdust hér á landi og keyptu í sumar Kjarvalshúsið úti á Seltjarnarnesi.

Þar hyggjast þeir setja upp um 700 listaverk sem þeir eiga, þar af 500 íslensk. Á sama tíma hafa þeir verið stórtækir í að styrkja allskonar íslenska list, fjárfest í sprotafyrirtæki og þá stofnaði Luckett ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur nýtt fyrirtæki með það að markmiði að taka sprotafyrirtæki á næsta stig með sérfræðiþekkingu í alþjóðlegri markaðssetningu, dreifingu og vali á markhópum.

Uppalinn í suðurríkjum Bandaríkjanna

mbl.is settist niður með Luckett í vikunni og ræddi við hann um Ísland og möguleika sem hann sér hér á landi, fyrirtækjarekstur og stjórnunarstöðu hjá Disney og ást hans á listum og menningu.

Luckett kemur upphaflega frá Clarkstown í Missisippi í Bandaríkjunum. Hann segir að það hafi verið einn ríkasti staður landsins fyrir borgarastríðið. „Höfuðborg bómullar og þrælahalds.“ Í sýslunni þar sem hann ólst upp voru áður fyrr um 100 þúsund þrælar en aðeins 20 þúsund hvítir frjálsir menn. Segir Luckett að áfram hafi mikið kynþáttahatur verið áberandi á svæðinu og mannréttindi hafi í raun ekki komið þangað fyrir svart fólk fyrr en um miðja síðustu öld.

Afi hans og amma settust bæði á þing

Rifjar hann upp að afi sinn hafi komið frá Boston á námstyrk og lært við háskólann í Missisippi. Þar hafi hann kynnst og orðið ástfanginn af ömmu Luckett. Eins og flestir í fjölskyldunni urðu þau bæði lögfræðingar og segir Luckett allavega sex ættliði hafa lagt stund á þau fræði. Bæði voru þau einnig pólitísk og endaði það með því að amma hans fluttist í aðra sýslu í Missisippi til að þau gætu bæði boðið sig fram til þingsetu á Bandaríkjaþingi. Þeim tókst ætlunarverk sitt og urðu bæði þingmenn.

Stofnaði blússtað með Morgan Freeman

Pabbi Luckett ákvað að búa einnig í Missisippi og segir Luckett að hann hafi viljað skipta máli í þeirri þróun sem var að verða í mannréttindamálum. Aftur á móti hafi samfélagið verið bullandi af kynþáttahyggju og margar hindranir í veginum. Faðir hans hafi aftur á móti komist í kynni við aðra staði í Bandaríkjunum þar sem samfélög voru byggð upp í kringum fjölmenningu og þar sem ýtt var undir menningu staðarins til að draga til sín ferðamenn.

Út frá þessu stofnaði faðir hans tónleikastaðinn Ground Zero Blues í borginni ásamt leikaranum Morgan Freeman sem er góðvinur hans. Segir Luckett að í gegnum þessa sögu alla hafi hann kynnst mikilvægi menningarlegrar ferðamennsku sem hann segir risastórt tækifæri fyrir Íslendinga sem sé aðeins að hluta til nýtt í dag.

Pabbi Luckett og leikarinn Morgan Freeman stofnuðu saman blús tónleikastað …
Pabbi Luckett og leikarinn Morgan Freeman stofnuðu saman blús tónleikastað í heimaborg Luckett. Segist hann hafa lært talsvert um menningarlega ferðamennsku í kringum það verkefni. MAX NASH

Fjöldi fyrirtækja og kynni við fræga fólkið

Luckett hefur talsverða reynslu af því að vinna með samfélagsmiðla og markaðssetningu. Hann hefur stofnað þó nokkur fyrirtæki á undanförnum árum sem hefur mörgum hverjum vegnað vel. Þannig stofnaði hann myndbandssíðuna Revver, sem reyndar varð undir í samkeppni við fleiri slíkar síður. Því næst digisynd, sem horfði til þess að dreifa myndböndum á öðrum samfélagsmiðlum. Það fyrirtæki var síðar selt til Disney þar sem Luckett tók yfir stöðu yfirmanns á sviði samfélagsmiðla hjá fyrirtækinu.

Þá stofnaði hann fyrirtækið theAudience ásamt Sean Parker, stofnanda Napster og einum fyrsta fjárfesti Facebook, og Ari Emanuel, forstjóra William Morris Endeavor, fyrirtækis sem er umboðsstofa fyrir fræga fólkið, eigandi UFC, hæfileikaskrifstofa og með aðkomu að ýmsu sem við kemur skemmtigeiranum. Hugmyndin með theAudience var að sjá um aðganga fræga fólksins að samfélagsmiðlum og hjálpa því að byggja upp sterka ímynd. Fljótlega voru þeir komnir með hundruð viðskiptavina, en án þess að það hafi formlega verið gefið upp hafa sérfræðingar í markaðsmálum sagt að meðal viðskiptavina séu Mark Wahlberg, Charlize Theron, Jack Black, Eddie Murphy, Hugh Jackman, Usher, Pitbull og LMFAO.

Það var síðastnefnda fyrirtækið sem Luckett og félagar hans seldu í lok síðasta árs og leiddi til dvalar Luckett og Guinn hér á landi. Þetta var þó ekki fyrsta skiptið sem þeir komu hingað, því þeir hafa verið reglulegir gestir á Íslandi undanfarin fimm ár, en Luckett kom að ákveðnum verkefnum í tengslum við Biophilia-verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur. Út frá því hefur hann eignast mikið af vinum hér á landi.

Meðal fræga fólksins sem notaðist við þjónustu theAudience er leikarinn …
Meðal fræga fólksins sem notaðist við þjónustu theAudience er leikarinn Mark Wahlberg. AFP

Þarf að samtvinna menningu við vörur og þjónustu

Eins og fyrr segir hefur Luckett mikla reynslu af bæði samfélagsmiðlum og markaðssetningu og hefur hann ákveðnar skoðanir um markaðssetningu Íslands og íslenskra fyrirtækja. Segir hann flesta erlenda ferðamenn í dag þekkja Ísland vegna Instagrammynda. Áður fyrr hafi það verið Björk og Sigurrós, en í dag séu það flottar myndir á samfélagsmiðlum sem kveiki áhugann hjá flestum. Segir hann að áhersla Íslendinga í ferðamannamálum eigi að vera að tengja öll þessi atriði saman. Það sé ekki vænlegt að horfa bara til eins atriðis eða einnar greinar sem undirstöðu í ferðamannamálum.

Nefnir Luckett að flestir sem hingað komi í dag fari í Bláa lónið, komi til Reykjavíkur og skoði svo gullna hringinn. Það sem þurfi aftur á móti að gera sé að sameina þetta við aðrar vörur og þjónustu. Það þurfi að samtvinna menningu landsins, sögur, tónlist, íslenskar vörur og fleira saman þannig að það sé ekki bara um að ræða rútuferðir og lundabrúður og víkingahjálma. „Þetta virkar núna, en það þýðir ekki að það muni gera það til lengri tíma litið,“ segir Luckett.

„Meira að segja í Disneyworld pössuðum við upp á þetta“

„Því miður er orðið allt of mikið af túristabúðum, jafnvel þó þær þurfi að vera í einhverju magni. Meira að segja í Disneyworld pössuðum við upp á þetta,“ segir Luckett, en hann þekkir markaðsstarf fyrirtækisins vel eftir starf sitt þar. Hann tekur fram að hann tali ekki fyrir því að gera Ísland að svipuðum skemmtigarði og Disneyworld, en það þurfi samt að huga mikið að flæðistýringu hér á landi sem stórir skemmtigarðar leggja megináherslu á.

Bendir hann á að á Íslandi sé gríðarlega mikið að gerast í hönnun, allskonar nýsköpun tengdri sjávarútvegi, snyrtivöruframleiðslu, matarframleiðslu og allskonar listum. Þetta þurfi að samtvinna betur við komu ferðamanna hingað.

Luckett segir miðborgina orðna of fulla af lundabúðum. Meira að …
Luckett segir miðborgina orðna of fulla af lundabúðum. Meira að segja í Disney, þar sem hann var í yfirmannsstöðu, hefðu menn ekki látið þróunina vera álíka í Disneyworld. Photo: Styrmir Kári

Töfrarnir þurfa að skila sér

„Vandamálið er að Ísland er töfrandi útópískt vörumerki í augum útlendinga,“ segir hann og bætir við að fólk komi hingað að miklu leyti eftir að hafa séð töfrana á samfélagsmiðlum. Það þurfi svo að passa vel upp á að upplifun ferðamannanna verði eitthvað í samræmi við væntingar. „Eins og samfélagsmiðlar eru fljótir að taka upp nýja hluti eru þeir einnig fljótir að taka þá í burtu,“ segir hann.

Luckett segir ótrúlegt að hafa fylgst með sól Íslands rísa úti í hinum stóra heimi. Þar hafi auðvitað eldgos og bankahrun spilað stóra rullu og þá hafi Panamaskjölin á þessu ári verið stór fréttapunktur. Nefnir hann að þegar mótmælin hafi staðið yfir hafi hann farið upp  á svalir húss við Austurvöll og sent beint frá mótmælunum á samfélagsmiðlum. Á sama tíma hafi allt að 215 þúsund manns horft á streymið og segir hann það sýna ágætlega áhuga fólks á landi og þjóð.

Heillast af lýðræði, listum, náttúru og frið

Segir hann Íslendinga vera lítinn hóp jarðabúa í hinu stóra samhengi. Hér sé aftur á móti lýðræði virt, listir, tónlist og náttúra séu stórbrotin og að þetta séu fullkomin atriði til að kynna fyrir heiminum. Segir hann alla því fylgjast með Íslandi, hvort sem það sé í gegnum Öskubuskusöguna um fótboltalandsliðið eða með myndum á Instagram. Þá hafi friður einnig reynst eftirsóknaverður á undanförnum misserum og fáir staðir séu þá betur til þess fallnir að fara til en Ísland.

Þegar blaðamaður spyr Luckett hvort hann telji Íslendinga vinna vel úr þessari athygli er hann afdráttarlaus í svari. „Nei, ég held að þið gerið ykkur ekki einu sinni grein fyrir möguleikunum. Held að fólk sé að uppgötva núna að það sé vörumerki.“

Breska pressan elskar ykkur

„Þið eruð í fréttunum alla daga víða um heim. Breska pressan elskar ykkur. Þeir henda fréttum í lesendur sína um Ísland og segja: „Svona eru hlutirnir á Íslandi og svona eiga Bretar að gera þetta.““ Bendir hann á að á síðustu 90 dögum hafi 28 milljónir einstaklinga víða um heim fjallað um eða tengst umræðum um Ísland á Facebook. Við bætist áhuginn á Instagram, Twitter og fleiri miðlum.

„Landamærin eru of lokuð fyrir nútímaviðskipti“

Út frá þessari upplifun sinni um markaðsmál hér á landi og tengslum við ýmiss sprotafyrirtæki segist hann hafa orðið áhugasamur um næstu skref slíkra fyrirtækja. Luckett segir að vel sé hugað að fyrstu skrefunum. Sjóðir veiti aðstoð til að byrja með, en svo þegar komi að því að stækka og taka skrefið út í heim komist menn að því að fjölmargar hindranir séu í veginum. Nefnir hann í því samhengi tollamál á Íslandi og innflutning á vinnuafli sem helstu atriðin sem hafi truflað sig. Sjálfur hafi hann fjárfest í fataframleiðslufyrirtækinu Inklaw hér á landi og fer hann í löngu máli yfir með blaðamanni hvernig tollaumhverfið sé innlendum framleiðslufyrirtækjum sem hugi að alþjóðamarkaði einstaklega erfitt. „Landamærin eru of lokuð fyrir nútímaviðskipti,“ er niðurstaðan að sögn Luckett.

Þá segir hann útlendingalög hér á landi ógagnsæ og búi til gífurlegar hindranir við að fá erlent starfsfólk hingað til lands sem ekki búi á EES-svæðinu. Þetta hafi hann upplifað á eigin skinni og heyri reglulega frá öðru fólki sem sé að reyna að flytja hingað.

Skortir sérhæft fólk í alþjóðlegri markaðssetningu

Hitt stóra málið sé skortur á sérhæfðu fólki í alþjóðlegri markaðssetningu. Slíkir einstaklingar séu til hér á landi, en ef byggja eigi upp fjölmörg fyrirtæki sem sæki út fyrir landsteinana verði þetta stórt vandamál. Vegna þessa stofnuðu hann, Heiða Kristín og Eva Dögg Guðmundsdóttir fyrirtækið Efni sem er að hefja starfsemi sína. Segir Luckett að markmiðið sé að ná saman í hóp fjölda minni framleiðslufyrirtækja sem vilji selja vörur sínar og notast við sterka ímynd Íslands og nýta þekkingu hans af samskiptamiðlum og markhópum í bland við sérþekkingu á alþjóðlegri markaðssetningu til að koma vörunum sem víðast.

Heiða Kristín Helgadóttir og Oliver Luckett standa á bak við …
Heiða Kristín Helgadóttir og Oliver Luckett standa á bak við fyrirtækið Efni.

Vilja setja fjármuni í sprotafyrirtæki á leið á næsta stig

Segir hann núna vinnu í gangi við að fjármagna verkefnið, en hugmynd hans og Heiðu er ekki bara að vera einskonar ráðgjafi, heldur segist hann vilja að Efni komi að fyrirtækjunum með að leggja þeim til fé og gerast lítill hluthafi. Þau séu þegar búin að ræða við fjölmörg fyrirtæki og segir Luckett að sú vinna muni halda áfram á næstunni.

Miklir listunnendur og styrkt fjölda verkefna hér á landi

Luckett er þó ekki bara virkur í fyrirtækjarekstri. Hann og Guinn eru miklir listaáhugamenn og hafa þegar komið mikið við sögu í listum og menningu hér á landi, jafnvel þótt margir hafi ekki haft hugmynd um það. Þannig segir hann að þeir hafi boðið hingað til lands reglulega vinum sínum og kunningjum og í eitt skipti hafi Charles Annenberg komið hingað og verið heillaður af landi og þjóð. Hann er hluti af Annanberg fjölskyldunni sem er meðal annars þekkt fyrir að úthluta stórum styrkjum í allskonar listir og menningu reglulega. Segir Luckett að hann hafi því óskað eftir því að fá styrk frá Annenberg til að styðja við ýmiskonar menningu og listir hér á landi og það hafi verið samþykkt. Segir hann upphæðina ekki gefna upp, en að hún hafi verið mjög há.

Heitir sjóðurinn Best Peace Solutions og meðal þeirra þeirra verkefna sem Luckett hefur styrkt í gegnum framlagið frá Annenberg Foundation var állistaverkið sem Reykjavík fékk að gjöf og var staðsett við Lækjargötu, styrki til Nýlistasafnsins, Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar sem og að setja fjármuni í verkefnið um uppbyggingu þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Að seinast nefnda verkefninu hefur hann meðal annars unnið ásamt Björk Guðmundsdóttur og fleirum.

Eiga 500 íslensk listaverk og keyptu Kjarvalshúsið

Til viðbótar við það hafa þeir Luckett og Guinn verið duglegir kaupendur að íslenskri list undanfarin fimm ár. Segir Luckett að í dag eigi þeir um 500 verk eftir íslenska listamenn.

Þá tengdust þeir íslenskri listsögu á óvæntan hátt fyrr í sumar þegar þeir festu kaup á Kjarvalshúsinu á Seltjarnarnesi. „Húsið bara togaði í okkur. Við ætluðum fyrst bara að vera hér í tvo mánuði og ætluðum aldrei að flytja frá Los Angeles,“ segir Luckett. „En eftir rúmlegan mánuð var okkur bent á þetta hús,“ bætir hann við og segir að þá hafi ekki verið aftur snúið.

Stofan var ætluð sem vinnustofa fyrir Jóhannes Kjarval. Oliver og …
Stofan var ætluð sem vinnustofa fyrir Jóhannes Kjarval. Oliver og Scott keyptu húsið í sumar.

Nú vinna þeir að því að flytja öll listaverk sín frá Bandaríkjunum og segir Luckett að þeir hafi viljað halda listasögu hússins áfram meðal annars með því að hluti þess verður notaður undir aðstöðu fyrir listamenn. Þannig ætla þeir að reyna að tengja erlenda listamenn og íslenska saman. Núna býr meðal annars erlendur listamaður í húsinu sem Luckett fékk til að teikna upp myndir út frá verkum Birgis Andréssonar, en í sumum verkum sínum lýsti Birgir viðfangsefninu í stað þess að teikna það.

„Ýmsir hlutir sem við hin getum lært hér“

Ljóst er að Luckett sér Ísland með nokkuð öðrum augum en Íslendingar almennt og hann leynir ekki þeirri skoðun sinni hve Ísland sé spennandi land í breiðu samhengi. Þar spili sterkt inn í lýðræðisást sem hann upplifi hér, hvernig einstaklingurinn getur haft áhrif beint upp í stjórnkerfið, húmanísk gildi og mannréttindi séu virt. Þá búi Íslendingar við nokkuð góða og ódýra heilbrigðisþjónustu miðað við hvað hann eigi að venjast og vatnið sé ókeypis. „Það sé ekki þannig alls staðar í heiminum. Það eru ýmsir hlutir sem við hin getum lært hér,“ segir hann. Það séu þó nokkur atriði sem hann skilji hreinlega ekki og muni ekki gera. „Af hverju er áfengi svona dýrt og hvar kaupir maður það? Og af hverju er ekki vörusendingaþjónusta í boði eða leigubílaþjónusta eins og Uber?“

mbl.is