Skjálftahrina í Kötlu í morgun

Stærsti skjálftinn í morgun var af stærðinni 2,3.
Stærsti skjálftinn í morgun var af stærðinni 2,3. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nokkrir jarðskjálftar urðu í Kötlu í morgun og mældist sá stærsti 2,3. Skjálftarnir urðu örlítið vestar í öskjunni en hrinan sem varð fyrr í mánuðinum.

Að sögn Sigurdísar Bjargar Jónasdóttur, sérfræðings hjá náttúruvá Veðurstofu Íslands, byrjaði skjálftahrinan um sjöleytið í morgun og voru flestir skjálftarnir af stærðinni 1 til 2.

Á laugardaginn var einnig töluverð skjálftavirkni í Kötlu. Þá voru skjálftarnir aðeins fleiri en í morgun en minni. Þeir urðu austar í öskjunni. Sömuleiðis var eitthvað um virkni á sunnudaginn.

Að sögn Sigurdísar Bjargar hefur Veðurstofa Íslands ekki miklar áhyggjur af stöðu mála í Kötlu eins og staðan er núna.

mbl.is