Borgin synjar íbúum Brynju enn um bætur

Reykjavíkurborg virðist nú synja íbúum Brynju um sérstakar húsaleigubætur á …
Reykjavíkurborg virðist nú synja íbúum Brynju um sérstakar húsaleigubætur á grundvelli þess að þeir séu þegar komnir í leiguhúsnæði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Leigjendur hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, fá ekki greiddar sérstakar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi í sumar úrskurðað að borginni væri óheimilt að synja leigjendum Brynju um bæturnar.

„Það virðist vera sem svo að það sé verið að búa til girðingar endalaust gagnvart þessum hópi,“ segir Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri hússjóðs Brynju. Leigjendur Brynju hafa undanfarnar vikur verið að fá synjun um sérstakar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg og segir hann þetta óneitanlega valda fólki miklum vonbrigðum. „Fólk hafði ákveðnar væntingar eftir að dómurinn féll í hæstarétti og menn töldu að þarna væri loks sigur í höfn.“  

Frétt mbl.is: Óheimilt að synja íbúa um bætur

Öryrkjabandalagið og Reykjavíkurborg hafa um árabil deilt um rétt íbúa Brynju til sérstakra húsaleigubóta, líkt og leigjenda félagsbústaða og leigjenda á almennum markaði.  Í júní sl. staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms Reykjavíkur um að borginni væri óheimilt á grundvelli 3. greinar reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur að útiloka leigjendur Brynju frá því að geta þegið bæturnar.

Fólk yfirleitt á götunni þegar það fær úthlutað

Þeim íbúum Brynju sem synjað eru um sérstakar húsaleigubætur nú, er flestum synjað á grundvelli d-liðar 4. greinar sömu reglugerðar og Hæstiréttur úrskurðaði um í sumar.

D-liður 4. greinar kveður á um að umsækjendur verði að skora að lágmarki fjögur stig þeim hluta matsviðmiðs reglugerðarinnar sem tekur til félagslegra aðstæðna. Tvö stiganna verði að vera tilkomin vegna húsnæðisaðstöðu umsækjanda, sem verða að teljast annaðhvort verulega erfiðar eða að umsækjanda sé vart mögulegt að bíða eftir húsnæði. Hin tvö stigin verða síðan að vera til komin vegna félagslegs vanda umsækjanda eða sérstakra aðstæðna barna.

„Þegar fólk kemur hingað og fær úthlutað húsnæði, þá er það yfirleitt á götunni,“ segir Björn Arnar og kveður aðstæður íbúa Brynju vera sambærilegar aðstæðum þeirra sem leigja hjá félagsbústöðum og á almennum leigumarkaði.

Reynt að finna nýjar leiðir til að útiloka fólk

„Þeir vísa hins vegar til þess að þar sem fólkið er komið í húsnæði hjá okkur, þá sé það ekki húsnæðislaust. Ég veit hins vegar ekki hvernig menn fara að þegar þeir sækja um húsnæðisbætur á almennum leigumarkaði, sækja þeir þá um bæturnar áður en þeir fá leigt? spyr Björn Arnar. „Þetta virðist vera nokkuð óljóst og það er ekki verið að gefa fólki leiðbeiningar um hvernig það á að nálgast þessar bætur, heldur virðist þvert á móti vera reynt að finna nýjar leiðir til að útiloka það.“

Lögfræðingar Öryrkjabandalagsins eru nú að skoða málið og hafa sent Reykjavíkurborg fyrirspurn. „Þar virðast menn hins vegar telja sig þurfa tíma til að útbúa svörin,“ segir Björn Arnar og minnir á að málið hafi velkst um í kerfinu frá 2009 og á þeim tíma hafi menn notað alla mögulega klæki til að vinna sér tíma svo ekki þyrfti að taka  á málinu.

Verði þetta hins vegar niðurstaða borgarinnar þá verði að reka annað dómsmál, enda telji  Öryrkjabandalagið synjunina nú ekki síður brjóta í gegn jafnræði íbúa Brynju.

mbl.is

Bloggað um fréttina