Kennarar komnir í Hagaskóla

Kennarar á borgarstjórnarfundi í Hagaskóla.
Kennarar á borgarstjórnarfundi í Hagaskóla. mbl.is/Ófeigur

Grunnskólakennarar hafa fjölmennt í Hagaskóla þar sem fram fer fundur borgarstjórnar. Kennarar gengu þaðan af samstöðufundi í Háskólabíó. Borgarstjórn samþykkti fyrir stundu tillögu um óbreytt laun kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.

Kennarar voru boðnir velkomnir á fundinn af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, sem sagðist skilja óþreyju eftir nýjum kjarasamningi og kauphækkunum. Hann sagðist sjálfur hafa átt samtöl við fjölmarga kennara og skólafólk. Þrátt fyrir mismunandi sjónarmið hefði sú breyting orðið á umræðunni síðustu mánuði að núna væri skýrt, a.m.k. í hans huga, að kröfuna um hærra kaup bæri hæst, og hærra en ýmislegt annað sem engu að síður þyrfti að ræða.

Sagðist Dagur finna fyrir mikilli samstöðu meðal kennara en benti á að deilan væri nú komin á borð ríkissáttasemjara.

Í tillögu borgarstjórnar um óbreytt laun, sem samþykkt var í dag, segir:

„Borgarstjórn beinir því til forsætisnefndar að ákveða að tímabundið nemi laun borgarfulltrúa 77,82% af þingfararkaupi eins og það var 28. október sl. eða fyrir uppkvaðningu úrskurðar kjararáðs nr. 2016.3.001. Hið sama gildi um launagreiðslur annara kjörinna fulltrúa sem taka mið af þingfararkaupi. Þessi tímabundna ráðstöfun skal standa yfir þar til Alþingi hefur haft tækifæri til að bregðast við úrskurði kjararáðs eða eigi síðar en til 31. desember nk. Bregðist Alþingi ekki við úrskurðinum er því beint til forsætisnefndar að gera breytingu á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. “

Frá samstöðufundi kennara í Háskólabíó.
Frá samstöðufundi kennara í Háskólabíó. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert