Óttast áhrifin annarsstaðar

Samkvæmt áfengisfrumvarpinu á að heimila sölu á sterku áfengi í …
Samkvæmt áfengisfrumvarpinu á að heimila sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum. AFP

Heilbrigðisráðherra Noregs, Bent Høie, óttast hvaða áhrif það getur haft á áfengissölu í Noregi ef Alþingi samþykkir að heimila sölu á áfengi í matvöruverslunum. Á sama tíma og Íslendingar og Finnar ætli að veita meira frelsi í sölu á áfengi þá reyni önnur ríki í Evrópu að draga úr slíku aðgengi vegna þess hversu alvarleg áfengisvandamál hafa komið þar upp.

Fjallað er um málið í Aftenposten en samkvæmt frétt blaðsins vekur það ugg í huga ráðherrans fyrirhugaðar breytingar á áfengislöggjöf Íslendinga og Finna.

Í Finnlandi er til athugunar að heimila sölu á drykkjarvörum sem innihalda allt að 5,5% áfengismagn. Það geti þýtt að sala á léttu áfengi fari inn í verslanir frá börum og veitingahúsum. Á Íslandi hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi sem heimilar sölu á öllu áfengi í matvöruverslunum, bjór, léttvíni og sterku áfengi. 

Bent Høie segir að það sé að sjálfsögðu ríkjanna sjálfra að taka ákvörðun þar um en hingað til hafi Norðurlöndin, fyrir utan Danmörku, staðið saman um sölu á áfengi í sérstökum ríkisreknum verslunum. Það sem stefnt sé að í Finnlandi muni án efa grafa undan slíkri ríkissölu og ef þetta verður að veruleika séu það aðeins Noregur og Svíþjóð sem standi fast á því að selja áfengi í ríkisverslunum.

Noregur fékk undanþágu frá ákvæðum EES árið 1994 um að selja aðeins áfengi í ríkisreknum verslunum og eins Svíþjóð frá ákvæðum ESB. 

Høie segir það skjóta skökku við að á sama tíma og mörg ríki Evrípu eru að íhuga að færa sig yfir í norræna módelið varðandi áfengissölu þá séu norrænu ríkin að færa sig frá þeirri stefnu. Høie ætlar að ræða þessi mál við starfsbræður sína annars staðar á Norðurlöndum á ráðherrafundi Norðurlanda í maí, segir í frétt Aftenposten.

Frétt Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert