Vildi ekki gefa upp afstöðu sína

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra vildi ekki gefa upp afstöðu sína gagnvart áfengisfrumvarpinu svokallaða í fyrirspurnum á Alþingi í dag en sagðist ekki styðja aðgerðir sem yrðu til þess að auka stórlega aðgengi að áfengi og auka neyslu og samfélagslegan kostnað.

Það var Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem beindi fyrirspurn til ráðherrans og vildi m.a. að hann upplýsti um afstöðu sína. Benti hún á að skoðanakannanir sýndu að meirihluti almennings væri á móti frumvarpinu og að í umsögnum skiptust aðilar í tvær fylkingar; heilbrigðisyfirvöld annars vegnar og verslunin hins vegar.

Óttarr tók undir með þingmanninum hvað það varðaði að menn virtust skiptast í tvo hópa þegar kæmi að frumvarpinu, hvort sem væri í samfélaginu, á þingi eða í umsögnum. Hann sagði hins vegar mikilvægt að málið fengi þinglega meðferð áður en hann tæki endanlega afstöðu til þess en benti jafnframt á að í stjórnarsmáttmála ríkisstjórnarflokkanna væri lögð áhersla á að draga úr kostnaði fyrir samfélagið með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Þá sagði hann mikilvægt að beina því inn í umræðuna að Ísland hefði náð góðum árangri í að draga úr neyslu ungmenna á sama tíma og aðgengi að áfengi hefði aukist. Lagði ráðherra áherslu á að umræðan tæki mið af lýðheilsusjónarmiðum.

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Nokkrir þingmenn stigu í pontu og vildu flestir fá afdráttarlausari svör frá ráðherra. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, sagðist t.d. hafa gert ráð fyrir því að ráðherra tæki afstöðu með landlækni í stað þess að „umma og aa“ málið fram af sér. Þá spurði samflokksmaður hans Ari Trausti Guðmundsson hvort vísindalegar rannsóknir dygðu ekki til að sannfæra ráðherrann.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og einn flutningsmanna frumvarpsins, steig einnig í pontu. Vildi hann minna þingmenn á að ráðherra væri sjálfur þingmaður og bundinn eigin sannfæringu og ekki nauðbeygður til að taka afstöðu  með undristofnunum ráðuneytisins.

Þegar heilbrigðisráðherra svaraði öðru sinni ítrekaði hann að þegar hann talaði um að hann vildi taka afstöðu að lokinni þinglegri meðferð þá ætti hann við hvort og hvernig þá þingnefnd hygðist fara með málið eða gera breytingar á málinu.

Hann sagðist ekki styðja aðgerðir sem myndu auka stórlega aðgengi að áfengi og leiða til aukinnar neyslu eða kostnaðar. Þá sagðist hann ekki fullviss um að það breytti öllu hvort sérverslanir með áfengi væru á vegum hins opinbera eða ekki. Ítrekaði hann enn og aftur að hann legði áherslu á að aðgengi yrði ekki aukið og lýðheilsusjónarmiðum þanngi fylgt.

Spurningu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um hvort ríkisstjórnarflokkarnir legðu drög að einhvers konar millilendingu í málinu, svaraði Óttarr á þann veg að benda á að frumvarpið væri ekki ríkisstjórnarfrumvarp heldur þingmannafrumvarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert