Enn unnið úr fjarskiptagögnum

Síðast er vitað um ferðir Arturs Jarmoszkos 1. mars.
Síðast er vitað um ferðir Arturs Jarmoszkos 1. mars.

Björgunarsveitarmenn munu ekki koma að leit að Arturi Jarmosz­ko í dag en hans hefur verið saknað í tvær vikur. Lögreglan mun þó halda sinni leit áfram og rannsókn á mannshvarfinu er enn í fullum gangi.

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að að svo stöddu verði björgunarsveitirnar ekki kallaðar til aðstoðar. Það kunni að breytast ef nýjar upplýsingar koma fram. „En leit hættir ekkert, það er alveg ljóst.“

„Við erum enn að vinna úr þeim fjölda ábendinga og gagna sem okkur hafa borist,“ segir Guðmundur. Enn er verið að fara í gegnum fjarskiptagögn og gögn úr tölvu Arturs sem lögreglan hefur haft til rannsóknar. Sú skoðun hefur enn ekki skilað vísbendingum um hvar Artur kunni að vera að finna. „Því miður,“ segir Guðmundur.

Ekki enn hægt að þrengja leitarsvæðið

Spurður hvort einhverjar frekari vísbendingar hafi fundist um ferðir Arturs nóttina sem hann hvarf, þ.e. aðfaranótt 1. mars, segir Guðmundur að verið sé að reyna að kortleggja það núna. 

Hann segir að enn hafi ekki reynst mögulegt að þrengja leitarsvæðið frá því í gær en þá var aðallega leitað við Fossvog en sta­f­ræn­ar upp­lýs­ing­ar úr síma Art­urs leiddu leit­ina á þær slóðir. 

Lögreglan hefur sagt að hún telji ólíklegt að Artur hafi farið úr landi. Spurður hvort ástæða sé til þess að lýsa eftir Artur erlendis, t.d. í Póllandi, segir Guðmundur Páll að lýst hafi verið eftir honum á erlendri grundu í gegnum alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. 

Art­ur, sem er 25 ára og grann­vax­inn, dökk­hærður með stutt hár, 186 sentí­metr­ar á hæð og með græn augu, er pólsk­ur en hef­ur búið á Íslandi um all­nokk­urt skeið. Talið er að hann sé klædd­ur í svarta úlpu eða mittisjakka, blá­ar galla­bux­ur og hvíta striga­skó. Þeir sem geta gefið upp­lýs­ing­ar um ferðir Art­urs, eða vita hvar hann er að finna, eru vin­sam­leg­ast beðnir um að hafa sam­band við lög­regl­una í síma 444-1000.

Upp­lýs­ing­um má einnig koma á fram­færi í tölvu­pósti á net­fangið gudmund­ur.pall@lrh.is eða í einka­skila­boðum á Face­book-síðu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert