Ekki vilji fyrir skattalækkunum

Ungt fólk kýs síður í sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum.
Ungt fólk kýs síður í sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldrei hafa jafnfáir stutt skattalækkanir á kostnað almannaþjónustu og nú samkvæmt kosningarannsókn sem var gerð á vegum Háskóla Íslands í fyrra. Dregið hefur úr kjörsókn ungs fólks og í síðustu sveitarstjórnarkosningum fór hún undir 50%. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Huldu Þórisdóttur, dósents við stjórnmálafræði- og sálfræðideild Háskóla Íslands, á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar. Erindi Huldu nefndist „Íslenska lýðræðisundrið“.

Hulda Þórisdóttir.
Hulda Þórisdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þar fjallaði hún meðal annars um niðurstöður kosningarannsóknarinnar frá síðustu alþingiskosningum en um er að ræða rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi frá árinu 1983.

Kjörsókn á Íslandi er mjög góð einkum og sér í lagi í kosningum til Alþingis en ekki jafnmikil í sveitarstjórnarkosningum. Að sögn Huldu var kjörsókn 47,5% í aldurshópnum 18-29 ára í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014. Hún segist ekki skynja það að ungt fólk hafi endilega minni áhuga á stjórnmálum en áhuginn hafi breyst og sé meiri áhugi á alþjóðlegum stjórnmálum og óhefðbundnum stjórnmálum en hefðbundnum.

Meðal þess sem þátttakendur í rannsókninni gera er að staðsetja sig á litrófi stjórnmálanna – hægri eða vinstri, og segir Hulda að ekkert hafi dregið úr því að fólk sé reiðubúið að staðsetja sig á ás stjórnmálaskoðana. 

Reynslan sýni að Íslendingar hafi dansað rétt til hægri en langflestir séu á miðjunni og svo dreifist þýðið nánast samkvæmt normalkúrfu til hægri og vinstri. Svipuð þróun árið 2016 og í fyrri rannsóknum. 

Alþjóðasamvinna á krossgögum – ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Norræna …
Alþjóðasamvinna á krossgögum – ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Norræna húsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að margt sé líkt með Íslendingum og öðrum Norðurlandabúum er minni fjarlægð milli stjórnmálaflokka hér en annars staðar á Norðurlöndum. Meðal annars varðandi innflytjendamál. Eins vilja Íslendingar almennt ekki lækka skatta á kostnað þjónustu hins opinbera og hafa í raun aldrei jafnfáir stutt lækkun skatta út frá þessum forsendum og nú. 

Hulda segir rannsóknir sýna aukið vantraust til stofnana á Íslandi eftir hrun en það eigi hins vegar ekki við um félagstraust. Það er hversu mikið traust berðu til náungans? Þar eru Norðurlandaþjóðirnar ofarlega á blaði og þrátt fyrir að Íslendingar hafi misst trú á stofnunum er trúin á náungann enn til staðar, segir Hulda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert