Vill „alls ekki“ mikinn snjó í Ófærð 2

Baltasar Kormákur er nú á leið til Fiji-eyja að taka …
Baltasar Kormákur er nú á leið til Fiji-eyja að taka upp kvikmyndina Adrift sem hann mun leikstýra. Að því loknu mun hann snúa sér að Ófærð 2. mbl.is/Golli

Undirbúningur að gerð sjónvarpsþáttanna Ófærð 2 er hafinn. Verið er að velja í hlutverk en margar persónur úr fyrri þáttaröðinni munu mæta til leiks, t.d. lögregluteymið Andri, Hinrika og Ásgeir sem leikin eru af Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni. „Það munu svo margar nýjar og spennandi persónur koma við sögu,“ segir Baltasar Kormákur, leikstjóri og framkvæmdastjóri RVK Studios sem framleiðir þættina. Hann lofar því að þættirnir verði mjög „current“ eins og hann orðar það, þ.e. tengist samfélagsmálum nútímans.

Lögregluteymið Andri, Hinrika og Ásgeir sem leikin eru af Ólafi …
Lögregluteymið Andri, Hinrika og Ásgeir sem leikin eru af Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni, mætir aftur til leiks í Ófærð 2.

Baltasar er nú á leið til Fiji-eyja til að hefja handa við tökur á kvikmyndinni Adrift sem hann leikstýrir. Myndin byggir á sannri sögu af konu sem verður viðskila við kærasta sinn eftir að stormur sökkvir skipi þeirra á leið til Tahítí. Hún kemst lífs af og segir myndin frá tilraunum hennar til að bjarga sjálfri sér og kærasta sínum í 1.500 mílna sjóferð til Hawaii.

Tökur á Adrift munu standa yfir allt í sumar og að þeim loknum mun Baltasar snúa heim og vinda sér að gerð Ófærðar 2.

- Ertu þá að vonast eftir miklum snjó?

„Nei, alls ekki,“ svarar hann.

- Verður þá ekkert ófært?

„Það verður öðruvísi ófært,“ segir Baltasar leyndardómsfullur. Lítið meira er hægt að draga upp úr honum hvað þetta varðar. „Ég vil segja sem minnst um það núna. En þessir þættir verða öðruvísi. Mig langar ekkert að hafa alla fasta í snjó aftur.“

Þættirnir verða teknir upp á Siglufirði og í Reykjavík. Tökur munu taka um 5-6 mánuði.

Kona í leikstjórahópnum

Baltasar segir að fyrirkomulagið hvað varðar þáttafjölda og leikstjórn verði svipað og í fyrri þáttaröðinni. Þá voru þættirnir tíu og leikstjórarnir fjórir. Nú verður hins breytt til í leikstjórahópnum. Einn fjórmenninganna verður við önnur störf og nýr leikstjóri kemur í hans stað. „Við munum bæta við einum leikstjóra, konu,“ segir Baltasar en hann var gagnrýndur við gerð Ófærðar fyrir að hafa aðeins valið karlkynsleikstjóra til samstarfs. Hann tók undir þá gagnrýni á sínum tíma og sagði hana eiga rétt á sér. Nú verður gerð bót á.

Baltasar segir að enn sé ekki búið að ganga frá samningum við viðkomandi og því geti hann ekki upplýst hver þessi kona sé. „Þetta er ekki aðeins gert til að mæta kröfum um kynjakvóta heldur einfaldlega af því að þessi kona er mjög hæfileikarík.“

Baltasar Kormákur (t.h.) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra við tökur …
Baltasar Kormákur (t.h.) ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra við tökur á Ófærð.

Verða sýndir víða um heim

Baltasar vonar að hægt verði að sýna þættina í sjónvarpi þarnæsta vetur, 2018/2019.

Vinsældir Ófærðar voru miklar og barst hróður þeirra langt út fyrir landsteinana. Tugir milljóna manna hafa nú séð þættina sem hlutu lof gagnrýnenda víða. Þetta varð til þess að liðka fyrir allri fjármögnun hvað framhaldsþættina snertir. Þegar er búið að tryggja að Ófærð 2 verði sýnd „um allan heim“ eins og Baltasar orðar það.

mbl.is