Ólafur mætir fyrir nefndina í næstu viku

Ólafur Ólafsson mun mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í næstu …
Ólafur Ólafsson mun mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í næstu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, mun mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á miðvikudaginn í næstu viku. Þetta staðfestir Jón Steindór Valdimarsson, nefndarmaður Viðreisnar í nefndinni og framsögumaður, í umfjöllun nefndarinnar um sölu Búnaðarbankans, í samtali við mbl.is. Rúv greindi fyrst frá.

Jón segir að búið sé að ákveða að fundurinn verði opinn fjölmiðlum og að fjölmiðlamenn geti skrifað frá fundinum og tekið myndir. Ekki sé þó horft til þess að sýnt verði beint frá honum.

Tímasetning fundarins hefur ekki enn verið ákveðin, en líklegast verður hann haldinn seinni part dagsins.

Jón segir að ákvörðun um að fá Ólaf á fundinn sé byggð á því að hann hafi gefið út að hann byggi yfir nýjum upplýsingum um málið og nefndin hafi talið rétt að gefa honum kost á að leggja þær upplýsingar fram. Þá segir Jón að unnið sé að því að boða fleiri einstaklinga fyrir nefndina, en enn liggi ekki fyrir hverjir það verði.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser …
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003 var kynnt í mars. Hér taka þeir Jón Steindór Valdimarsson, fyrsti formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, við skýrslunni. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert