Stefnir ríkinu vegna mismununar

Áslaug Ýr Hjartardóttir.
Áslaug Ýr Hjartardóttir. Mynd úr einka­safni

„Ég hef ekki þorað að ræða þetta opinskátt en nú tel ég að rétti tíminn sé runninn upp.“ 

Svona hefst pistill sem Áslaug Ýr Hjartardóttir skrifaði á Facebook-síðu sína í gær, þar sem hún tilkynnir að hún hafi stefnt stjórnvöldum vegna mismununar. Áslaug Ýr er með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu og hyggst fara í sumarbúðir fyrir daufblind ungmenni frá Norðurlöndunum í júlí, en fær ekki þá aðstoð sem önnur ungmenni í sumarbúðunum munu fá.

Sumarbúðirnar verða haldnar í Svíþjóð í júlí og mun Áslaug þurfa túlka með til fararinnar til að geta tekið þátt, eins og flestir aðrir þátttakendur. Hún fær hins vegar aðeins túlka ef hún greiðir sjálf laun þeirra, ólíkt öðrum þátttakendum frá Norðurlöndunum.

Gróflega brotið á félagslegum og almennum rétti mínum

„Þetta er flókið mál sem hefur valdið mér miklu hugarangri og eftir miklar vangaveltur og ráðfæringar við gott fólk tók ég þá erfiðu ákvörðun að fara í mál við stjórnvöld. Ég tel að gróflega hafi verið brotið á félagslegum og almennum rétti mínum og fer fram á ógildingu þessarar ákvörðunar stjórnvalda að synja mér, 20 ára daufblindum háskólanema og örorkuþega, um endurgjaldslausa túlkaþjónustu, sem er mér afar nauðsynleg til að geta tekið þátt í samfélaginu,“ skrifar Áslaug.

Fallist hefur verið á flýtimeðferð í málinu, sem var þingfest í gær. Aðalmeðferð málsins mun svo fara fram þann 10. júlí næstkomandi. Er stefnunni beint að Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnaskertra, Kristjáni Þóri Júlíussyni menntamálaráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra.

Harðákveðin í að fara í sumarbúðirnar

„En hvernig sem þetta fer, þá er ég harðákveðin í að fara í þessar sumarbúðir. Það er nefnilega mjög einmanalegt að vera ein af fáum daufblindum ungmennum hérlendis og ég tel að þessar sumarbúðir geti fært mér afar dýrmæta lífsreynslu og þekkingu, en þar verður fullt af ungu fólki á svipuðu reiki og ég frá hinum Norðurlöndunum. Það er illa gert af kerfinu að láta mig finna svona fyrir fötlun minni, sem í raun er bara eiginleiki en ekki einhver galli. Ég þarf bara smá aðstoð til að geta verið memm og auðvitað kostar það, eins og allt annað,“ skrifar hún.

Systir Áslaugar, Snædís Rán Hjartardóttir, vann sambærilegt mál sem hún höfðaði árið 2015 gegn Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrna­skertra vegna þess að miðstöðin synjaði Snæ­dísi um end­ur­gjalds­lausa túlkaþjón­ustu.

mbl.is