Á þuklandi læknir að fá réttindi?

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að fundur nefndarinnar, þar sem reglur um uppreist æru voru ræddar, hafi verið upplýsandi. Fundurinn var haldinn eftir að Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, óskaði eftir því.

„Fundurinn var upplýsandi. Ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins kom og fór yfir það hvernig ferlin eru, hvernig málsmeðferð hafi verið í ráðuneytinu og fékk spurningar,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Þarf að breyta þessu vélræna ferli

Að und­an­förnu hef­ur tals­vert verið fjallað um upp­reist æru eft­ir að lögmaður­inn Robert Dow­ney, áður Ró­bert Árni Hreiðars­son, fékk upp­reist æru og gat því end­ur­heimt lög­manns­rétt­indi sín en hann var árið 2008 dæmd­ur í þriggja ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um.

Ekki alveg út í bláinn

Áður hafði Brynjar lýst því yfir að hann væri ekki viss um að málið heyri und­ir nefnd­ina og að vaf­ist hafi fyr­ir hon­um að fund­ur­inn færi fram á þess­um árs­tíma. „Ég held að ef það komi frumvarp frá ráðherra þá heyri það undir allsherjar- og menntamálanefnd. Auðvitað getur framkvæmdin í ráðuneytinu eins og hún hefur verið í eintökum málum heyrt undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta er ekki alveg út í bláinn,“ segir Brynjar.

Hann segir að það þurfi að hafa skýra verkferla og koma í veg fyrir að ferlið sé matskennt. Sumum þyki skrýtið að eftir ákveðinn langan tíma og tvo meðmælendur sé hægt að óska eftir uppreist æru. „Mönnum þykir rétt að skoða hvort eðlilegt sé að gera greinarmun á tíma og skilyrðum eftir alvarleika brota.“

Allir eigi möguleika

Sjálfum þykir Brynjari alla jafna að menn eigi alltaf rétt að fá sín borgaralegu réttindi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Allir eigi möguleika á því en það er ekki þar með sagt að allir eigi möguleika á að fá sín starfsréttindi því þá fer það svolítið eftir eðli brots. Til að mynda ef læknir hefur þuklað á sjúklingum, er þá rétt að hann fái réttindi? Eða lögmaður sem hefur brotið af sér og er að sýsla í slíkum brotum,“ segir Brynjar og bætir við að þetta þurfi að fara yfir. 

„Ég er ekki með svar við þessu núna því ég held að það sé rétt að farið verði nákvæmlega yfir þetta og það náist sátt um hvenær menn eigi að fá borgaraleg réttindi aftur og hvenær menn eigi að fá starfréttindi sem hafa brotið af sér sem hafa slík réttindi.“

Fólk setji sig í spor annarra

Brynjar segir umræðuna á þá leið að tíminn sé of stuttur, sérstaklega er varða lengri brot. „Vandamálið er að umræðan er á þann veg að sumir eiga aldrei að fá uppreist æru. Ef fólk hugsar það betur og setur sig í spor annarra þá held ég að það átti sig á því að það er rétt að menn eigi að minnsta kosti möguleika á því að fá þetta aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert