Gjaldtakan hafði ekki skýra lagalega heimild

Landeigendur að Hraunfossum í Borgarfirði höfðu ekki skýra lagalega heimild …
Landeigendur að Hraunfossum í Borgarfirði höfðu ekki skýra lagalega heimild að sögn forstjóra Umhverfisstofnunnar. Það hefur stofnunin aftur á móti. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Munurinn á gjaldtökunni við Seljalandsfoss og við Hraunfossa er skýr lagaleg heimild að sögn Kristínu Lindar Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar.

Rangárþing eystra, sveitarfélagið við Seljalandsfoss, hafi heimild til gjaldtöku samkvæmt nýbreyttum umferðarlögum. Landeigendurnir við Hraunfossa geti ekki nýtt sér sömu heimild enda sú heimild einungis fyrir sveitarfélög. Jafnframt er bílastæðið við Hraunfossa hluti af hinu friðlýsta svæði en bílastæðið við Seljalandsfoss sé ekki hluti af því svæði sem er á náttúruminjaskrá.

Nýlega var gjaldtaka hafin við Seljalandsfoss en fyrr í mánuðinum var gjaldtöku frestað við Hraunfossa vegna laga­legr­ar óvissu um rétt til inn­heimt­unn­ar. Rangárþing eystra tók ákvörðun sína um gjaldtöku við Seljalandsfoss samkvæmt nýbreyttum umferðarlögum, sem heimila sveitarfélögum að hafa gjaldtöku á bílastæðum á svæðum í umráði sveitarfélagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Kristínu Lindu er engin lagaheimild fyrir landeigendur við Hraunfossa til að hefja gjaldtöku. Þeir geta ekki byggt á sömu heimild og Rangárþing eystra. Umhverfisstofnun hafi aftur á móti skýra lagalega heimild til að hefja gjaldheimtu á svæðinu.

Þetta sé vegna þess að Hraunfossar eru friðlýstir í heild sinni og bílastæðið líka. Því séu þeir í umráði Umhverfisstofnunar. Seljalandsfoss sé vissulega á náttúruminjaskrá en bílastæðið sé það ekki. Því hafi sveitarfélagið fullt umráð yfir því og þar liggi grundvallarmunurinn. 

Kristín segir að lokum að Umhverfisstofnun hyggist ekki hefja gjaldtöku við Hraunfossa eins og er.

mbl.is