Marga þyrstir í heiðarvötnin blá

Fimm stíflur yrðu reistar við stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði til að …
Fimm stíflur yrðu reistar við stöðuvötn á Ófeigsfjarðarheiði til að mynda uppistöðulón Hvalárvirkunar. Sú hæsta yrði 33 metrar. mbl.is/Golli

Vötnin á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á Ströndum eru mörg hver kristaltær og líkjast helst djúpbláum augum í landslaginu. Hreinleikinn og yfir 300 metra fallhæð vatnsins um jökulsorfnar klappir niður að sjó gera svæðið eftirsóknarvert til virkjunar en að sama skapi og af sömu ástæðu er umhverfið ákjósanlegt til útivistar. Þá er það sérstætt á margan hátt og verndargildið því mikið. Fossarnir í ánum ofan af heiðinni eru sumir hverjir stórfenglegir. Dynurinn í hinum 70 metra háa Drynjanda bergmálar í Hvalárgljúfri og á góðviðrisdögum myndar vatnsúðinn nokkurs konar reykjarbólstra við Rjúkandafoss. Fyrir utan niðinn í ánum og fossunum er kyrrðin nánast algjör í miðju þessara mestu víðerna Vestfjarða.

VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, áformar nú að reisa Hvalárvirkjun í eyðifirðinum Ófeigsfirði í Árneshreppi. Virkjað yrði rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði: Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Gert er ráð fyrir að afl virkjunarinnar verði 55 MW og orkuframleiðslan um 320 gígavattstundir (GWh) á ári. Til samanburðar er orkunotkun Vestfjarða í dag um 260 GWh.

Byggðar yrðu fimm stíflur við heiðarvötn til að mynda þrjú miðlunarlón. Sú hæsta yrði 33 metrar. Lónin yrðu tóm að vori og myndu í fyrsta lagi fyllast í byrjun júlí. Rennsli allra ánna myndi minnka verulega á köflum. Farvegur Hvalár yrði þurr á löngum kafla þegar lónið væri ekki fullt og rennsli um Drynjanda á sama tíma um 1/50 af því sem það er nú. Fossinn yrði því sem næst vatnslaus þegar liði á sumar nema á rigningardögum, að mati Skipulagsstofnunar.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Vatni úr Rjúkanda yrði veitt í lón og áin því mjög vatnslítil á kafla. Um 40% af náttúrulegu rennsli yrði náð þegar komið væri niður að hinum 40 metra háa Rjúkandafossi. Með yfirfallsvatni yrði rennslið um 80% af því sem það er í dag.

Farvegur Eyvindarfjarðarár yrði þurr á tæplega tveggja kílómetra kafla frá stíflu nema þegar lónin væru full sem að meðaltali yrði frá júlí til desember.

Framkvæmt yrði á óbyggðu víðerni en samkvæmt lögum um náttúruvernd skal standa vörð um slík svæði. Þá njóta fossarnir og sum vatnanna á heiðinni sérstakrar verndar í lögunum og skal þeim ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til og almannahagsmunir séu í húfi. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin myndi skerða víðáttumesta samfellda óbyggða víðerni á Vestfjörðum um að minnsta kosti 200 ferkílómetra eða um 13%.

Vinnuvegir er snjóa leysir

Rætt hefur verið um Hvalárvirkjun í áratugi en aldrei sem nú. Virkjunarkosturinn var settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013 og gert ráð fyrir honum í aðalskipulagi Árneshrepps ári síðar. Þegar hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum, og skipulagsbreytingar, m.a. vegna vinnuvega um Ófeigsfjarðarheiði, verið auglýstar. Vinnuvegina á að nota til frekari rannsókna á svæðinu og verði framkvæmdaleyfi vegna þeirra gefið út á næstu vikum eða mánuðum hefst veglagning um heiðina er snjóa leysir í vor. Vegirnir yrðu þar með lagðir án þess að aðrir þættir framkvæmdarinnar væru að fullu frágengnir.

Frekari breytinga á skipulagi Árneshrepps er þörf og eru þær nú í undirbúningi. Í kjölfarið verður sótt um framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni. Gangi áætlanir framkvæmdaaðila eftir mun Hvalárvirkjun fara að framleiða rafmagn á árunum 2023-2024.

Margt er þó enn ófrágengið.

Virkjunin yrði langt frá meginflutningskerfi raforku og enn er ekki búið að ákveða hvernig hún verður tengd því. VesturVerk vill að línan verði lögð í jörð um 30 kílómetra leið yfir Ófeigsfjarðarheiði og að tengipunkti, sem enn er ekki til staðar, í Ísafjarðardjúpi. Ekki er víst að það sé tæknilega framkvæmanlegt þó að líklega séu strengir hagkvæmari en loftlína á þessu veðurfarslega erfiða svæði, svo ekki sé talað um umhverfisvænni. Að sögn forstjóra Landsnets má líta á þetta sem kvóta. Dreifikerfi Vestfjarða er veikt og af rafmagnsfræðilegum ástæðum hefur lagning jarðstrengs á einum stað áhrif á hvað hægt er að leggja af strengjum annars staðar. Þetta þurfi því að rannsaka sérstaklega.

Nokkuð er því í að vinna við mat á umhverfisáhrifum línulagnarinnar hefjist. Verði jarðstrengur lagður mun það hafa óveruleg áhrif til frekari skerðingar víðernanna. Verði niðurstaðan hins vegar sú að leggja þurfi loftlínu að hluta eða í heild mun skerðingin nema allt að 100 km² til viðbótar. Þá myndu samanlagt um 20% af óbyggðum víðernum svæðisins skerðast með framkvæmdinni allri.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Skipulagsstofnun telur æskilegt að leyfisveitingar vegna línulagnar og virkjunar, sem háðar eru hvor annarri, fari fram samhliða. Dæmin sanni að það sé farsælast. „Við þurfum að vanda okkur sérstaklega vel og stíga varlega til jarðar í þessu máli,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, um þessi tilmæli Skipulagsstofnunar. „Ekki láta neina duttlunga stjórna okkur og gæta okkur á því að gera ekki neina vitleysu.“

Þrjár fjölskyldur fluttu í fyrra

Fólksfækkun hefur verið viðvarandi í Árneshreppi árum og áratugum saman. 46 manns eru þar nú með lögheimili og um 30 hafa þar vetursetu. Í fyrra fluttu tíu úr hreppnum, þar af tvær barnafjölskyldur og þar með yngstu bændur sveitarinnar. Slíkt er mikið áfall í litlu samfélagi og tíma tekur fyrir þá sem eftir eru að ná vopnum sínum. Aðeins tvö börn eru nú í Finnbogastaðaskóla, eina grunnskóla hreppsins, og útlit fyrir að hvorugt þeirra verði þar eftir áramót. Þá yrði skólanum lokað og 80 ára samfelld skólasaga rofin.

Barnsraddirnar í sveitinni myndu þar með þagna um hríð.

Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir er annar af tveimur nemendum Finnbogastaðaskóla í …
Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir er annar af tveimur nemendum Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi. Skólanum verður að óbreyttu lokað um áramót. Þá munu barnsraddirnar í sveitinni þagna um hríð. mbl.is/Golli

Á þessum viðkvæma tímapunkti í samfélagi sem hefur í áratugi barist fyrir samgöngubótum og annarri innviðauppbyggingu hófst svo umræða um Hvalárvirkjun af miklum krafti. Ólík sjónarmið kallast á en þegar íbúarnir eru farnir að óttast að heilsársbúseta leggist jafnvel af taka því sumir fagnandi að einkafyrirtækin VesturVerk og HS Orka ætli sér í virkjanaframkvæmdir og bjóði samhliða stuðning við ýmsar umbætur svo sem ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn, betri veg til Ófeigsfjarðar, sumarveg yfir Ófeigsfjarðarheiði og hitaveitu í hluta hreppsins.

Eins og „óargadýr“

„Mér finnst erfitt að framkvæmdaaðilar skuli nota þetta mál til að spila á tilfinningar fólks,“ segir Elín Agla Briem, kennari í Finnbogastaðaskóla.

„Þeir segjast vera að koma hingað til að styrkja innviði. Það er gagnrýnivert að gera slíkt hér núna, þegar tilfinningar eru svona hráar og staðan erfið. Við hefðum einmitt þurft að hafa hér næði til að vinna úr þessu áfalli saman, finna okkar leiðir til að takast á við það og byggja upp á ný. Virkjanaáformin koma eins og óargadýr inn í samfélagið á meðan þetta er allt að gerast.“

Guðlaugur Ágústsson, bóndi í Steinstúni og hreppsnefndarmaður, er í hópi þeirra sem vonast til þess að virkjun hafi jákvæð áhrif á samfélagið. „Ef maður sér fram á að á þriggja til fimm ára framkvæmdatíma virkjunarinnar gæti byggð haldist hér áfram verður maður bara að gjöra svo vel að vera jákvæður fyrir því. Það er ekkert betra í boði. Ég hef mikla trú á því að þessi framkvæmd geti skipt heilmiklu máli.“

Ákvörðunin um Hvalárvirkjun hvílir á herðum Guðlaugs og fjögurra annarra sveitarstjórnarmanna í Árneshreppi. Þrír þeirra eru nú fylgjandi framkvæmdinni en tveir á móti.

Annar þeirra er Ingólfur Benediktsson, varaoddviti og bóndi í Árnesi II. Hann var fylgjandi virkjunaráformunum á þeim tíma er til stóð að þeim myndu fylgja raunverulegar samgöngubætur og heilsárstörf. „Ég var kannski alltof lengi fylgjandi þessu, ég viðurkenni það. En svo fór ég að kynna mér þetta allt saman miklu betur og skipti um skoðun.“

Nú er svo komið að ekkert heilsársstarf mun skapast og einu beinu tekjur sveitarfélagsins verða fasteignagjöld upp á 20-30 milljónir króna á ári. Slíkt er þó búbót í fámenninu á Ströndum. Á móti þeirri tekjuaukningu munu hins vegar framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga skerðast að einhverju leyti.

Eva oddviti er hins vegar sannfærð um að íbúarnir muni njóta góðs af framkvæmdunum þegar upp er staðið. „Ef það verða ráðnir útlendingar til verksins verða þeir að öllum líkindum með lögheimili hér í sveitinni þannig að þá fáum við útsvarið þeirra,“ tekur hún sem dæmi. Vinnubúðir eru ráðgerðar á framkvæmdasvæðinu fyrir um tvö hundruð manns.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að þótt engin heilsársstörf yrðu til eftir að byggingu virkjunarinnar lyki myndi hún hafa margvísleg afleidd áhrif: „Stórbætt fjarskipti. Stórbætt rafmagn. Stórbættar samgöngur. Stórbætt tækifæri til atvinnusköpunar. Sama hvað hver segir.“

Lofa aðstoð við innviðauppbyggingu

Í bréfi sem VesturVerk sendi sveitarstjórn Árneshrepps í byrjun sumars voru tíunduð samfélagsverkefni sem fyrirtækið gæti tekið þátt í „komi til virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði“, eins og það var orðað. Eva segir að tilboðið hafi verið rætt í hreppsnefnd en engar ákvarðanir verið teknar. „Við munum fara afskaplega varlega í öll svona mál.“

Ekki er að finna sérstök ákvæði um slíka samninga í skipulagslögum. Hægt er að halda því fram að það geti verið sanngjarnt að þeir sem fá heimild til að nýta landsvæði og auðlindir til verðmætasköpunar leggi í staðinn eitthvað af mörkum til viðkomandi nærsamfélags. Hins vegar er það mat margra að samningar sem þessir þurfi að vera uppi á borðum og fyrir þurfi að liggja að slík framlög ráði ekki úrslitum um það hvort viðkomandi framkvæmd telst ásættanleg eða ekki.

„Ef einhver loforðalisti er til, af hverju er hann ekki bara opinber og til umræðu?“ spyr Valgeir Benediktsson sem býr á bænum Árnesi II. „Ég myndi fyrir mitt leyti ekki vilja fórna þessari heiði fyrir eina málningarfötu utan á skólann,“ segir hann og vísar þar til vilyrðis VesturVerks um endurnýjun klæðningar á Finnbogastaðaskóla.

Í tengslum við virkjunarframkvæmdina yrði vegurinn frá Trékyllisvík og um eyðifirðina Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð bættur. Þá yrði lagður línuvegur yfir Ófeigsfjarðarheiði og vestur í Djúp sem aðeins væri fær að sumarlagi. Það er þó vegurinn í hina áttina, suður til Hólmavíkur, sem sveitungar hafa kallað eftir úrbótum á áratugum saman. Einn illfærasti hluti hans, Veiðileysuháls, er nú þegar á samgönguáætlun. Til stóð að hefja framkvæmdir á næsta ári en vegna niðurskurðar síðasta vetur ýttust mörg verkefni aftar í tímaröð. Nú er útlit fyrir að framkvæmdir hefjist 2020. „Það fyrsta sem er gert þegar það vantar klink í ríkiskassann er að hætta við samgöngubætur hér,“ segir Guðlaugur í Steinstúni.

Ingólfur varaoddviti bendir á að þessar vegabætur og virkjun séu algjörlega óháðar framkvæmdir. „Sá sem heldur öðru fram er að búa það til til að réttlæta þetta.“

Eva segir að þó að framkvæmdirnar tengist ekki beint sé hún sannfærð um að því meira sem væri umleikis í hreppnum því meiri þrýstingur væri á aukið fjármagn og framkvæmdir af hálfu Vegagerðarinnar. Ingvi Árnason, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, segir að almennt kalli meiri umsvif í sveitarfélagi á bætta þjónustu og betri vegi. „Um það eru þó engin loforð,“ ítrekar hann.

Vegabætur á Strandavegi óháðar virkjun

Á síðustu árum hefur farsíma- og netsamband batnað til muna í Árneshreppi og Orkubú Vestfjarða vinnur nú að því að leggja þriggja fasa rafstreng í jörðu. Þeirri lagningu á samkvæmt áætlun að ljúka fyrir árið 2030, alveg óháð því hvort Hvalárvirkjun verður að veruleika. Elías Jónatansson, forstjóri Orkubúsins, segir að miðað við það sem fram hafi komið í fréttum megi þó ætla að fjármögnun virkjunaraðilans í verkefninu myndi flýta því.

Þó að hitaveita frá Krossnesi til Norðurfjarðar sé nefnd til sögunnar í bréfi VesturVerks eru engar viðræður, hvorki formlegar né óformlegar, hafnar við landeigendur um lagningu hennar. Landeigandinn Úlfar Eyjólfsson segist þó mögulega opinn fyrir slíku.

En eru bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn, bætur á hafnarsvæðinu og fleira ekki hlutir sem sveitarfélög og ríki eigi að sjá til að séu fyrir hendi, alveg óháð virkjun? „Ja, ríkið getur nú ekki einu sinni séð um að hér séu vegir mokaðir tvisvar í viku yfir vetrarmánuðina,“ svarar Eva. „Þannig að þú sérð hvernig þetta er.“

Frá höfninni á Gjögri í Árneshreppi. VesturVerk hefur boðist til …
Frá höfninni á Gjögri í Árneshreppi. VesturVerk hefur boðist til að aðstoða við bætur á höfninni í Norðurfirði. mbl.is/Golli

Einstakt samfélag og náttúra dregur fólk að

Í Árneshreppi hefur ferðamennska tekið við sér síðustu ár, þó ekkert í líkingu við það sem orðið hefur víðast annars staðar á landinu. Íbúarnir eru ýmist á þeirri skoðun að virkjun myndi hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Benda sumir á að vegur inn í Ófeigsfjörð og þaðan yfir í Djúp gæti „opnað nýjar víddir“ fyrir ferðamenn eins og oddvitinn orðar það. Aðrir telja að með því að manngera umhverfið og minnka rennsli ánna myndi svæðið tapa aðdráttarafli sínu.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ljóst að Hvalárvirkjun myndi hafa áhrif á ferðamennsku á þessu lítt raskaða svæði. „Virkjunin yrði í útjaðri gönguleiðar sem talsvert er notuð. Óhjákvæmilega myndi hún því hafa áhrif á upplifun þeirra ferðamanna sem þessa leið fara.“

Hún segir að vegna framkvæmdanna myndu vegir inn á svæðið vissulega batna. „Hins vegar má velta fyrir sér, hvort heldur sem er á þessu svæði eða öðrum, hvort vegabætur geti ekki orðið á öðrum forsendum en vegna virkjunarframkvæmda?“

Páll Eysteinn Guðmundson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að virkjun á svæðinu myndi skerða tækifæri til uppbyggingar út frá forsendum náttúrunnar. Hann heimsækir Árneshrepp á hverju ári og þekkir þar ágætlega til. „Mér finnst alltaf eins og ég sé að keyra inn í nýjan heim,“ segir hann. Hin óspillta og mikilfenglega náttúra spili þar stórt hlutverk en hið einstaka samfélag þeirra sem þar búa ekki síður. „Og það er þetta sem dregur mann þangað aftur og aftur. Þetta er stóra auðlindin á svæðinu.“

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Eyðifjörðurinn Ófeigsfjörður er að mestu í eigu Péturs Guðmundssonar og fjölskyldu hans.

Árið 2008 gerðu landeigendurnir samning við VesturVerk um vatnsréttindin. Pétur ólst upp í firðinum en hefur undanfarna áratugi dvalið þar á sumrin. Hann hefur ekki áhyggjur af áhrifum virkjunar á ferðamennskuna. Kyrrðin, sem fólk sækist eftir, yrði áfram fyrir hendi. „Það hefur enginn hingað til verið að vafra þarna um heiðina,“ segir Pétur. Aðeins örfáir menn, nokkrir tugir, hafi gengið yfir hana frá því hann man eftir sér. „Það er ekki fyrr en í sumar sem menn hafa verið að ganga þarna upp eftir.“

Meðal þeirra sem hafa gengið um Ófeigsfjarðarheiðina í sumar eru Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir og Ólafur Már Björnsson augnlæknir. Þeir hafa birt tugi mynda af svæðinu á samfélagsmiðlum, skrifað fjölda greina og Tómas oftsinnis rætt hina fyrirhuguðu virkjun í viðtölum. „Það er eðlilegt í þessari umræðu allri að sýna svæðið eins og læknarnir tveir hafa gert,“ bendir Ingólfur varaoddviti á. „Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Minnir um margt á Kárahnjúka

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að umræðan um Hvalárvirkjun minni um margt á þá sem var í kringum Kárahnjúka. „Eitt hefur ekki breyst og það er að enn eru þau rök sett fram hvað varðar Hvalárvirkjun að fáir komi á svæðið og því sé betra að virkja það,“ segir hann. „Ferðamennska hefur enn sem komið er ekki verið mikil á þessum hluta landsins en það gerir svæðið ekkert minna verðmætt. Það eru þarna stór víðerni. Með Kárahnjúkavirkjun voru stór víðerni klofin í herðar niður. Það er nokkuð sem við ættum að varast að gera aftur.“

Vatnsrennslið í Drynjanda, 70 metra háum fossi í Hvalá, myndi …
Vatnsrennslið í Drynjanda, 70 metra háum fossi í Hvalá, myndi skerðast verulega hluta úr ári og verða aðeins 1/50 af því sem það er í dag. mbl.is/Golli

Landvernd hefur lagt til að í stað virkjunar verði svæðið friðlýst og þar stofnaður þjóðgarður. Slíkt þyrfti ekki að taka langan tíma og gæti skapað nokkur heilsársstörf og sumarstörf að auki.

Fyrir nokkrum áratugum klofnaði samfélagið í Árneshreppi í deilu um kirkjubyggingar. Virkjanamál geta einnig verið eldfim og skipt fólki í tvær fylkingar. Hreppsbúar leggja hins vegar áherslu á það nú að láta málið ekki hafa áhrif á daglega lífið og samskipti sín á milli. „Þetta á að vera voðalega erfitt að mati margra og fólk á ekki að geta talað saman ef það hefur ekki sömu skoðun,“ segir Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur og skólastjóri Finnbogastaðaskóla. „En það er ekki þannig hér og nú. Fólk er ekki sammála, vinir manns vilja virkja. En þeir eru sömu vinir mínir fyrir það.“

Guðlaugur í Steinstúni er sama sinnis. „Mér finnst [umræðan] ekki hafa haft nein áhrif á nærsamfélagið okkar. Við erum samhent samfélag og leysum í sameiningu öll mál sem upp koma.“

Neisti eða náðarhögg

Öllum íbúum Árneshrepps á Ströndum er umhugað um að fræjum verði sáð til að byggja upp sterkt og blómlegt mannlíf. Þá greinir hins vegar á um hver sé besta leiðin að því markmiði. Þeir sem styðja virkjunina binda vonir við að hún sé hluti af lausninni. „Mín skoðun er sú að ungt fólk sem flutt hefur í burtu í gegnum tíðina gæti mögulega komið aftur heim á æskustöðvarnar ef það fengi hér starf [á framkvæmdatímanum]. Það myndi svo kannski verða sá stökkpallur sem fólk gæti nýtt sér til að setjast hér að,“ segir oddvitinn.

Hrefna Þorvaldsdóttir, matráður í Finnbogastaðaskóla, er á öndverðum meiði og telur að fólk myndi síður setjast að í hreppnum með tilkomu virkjunar.

„Ef fólk á þessu svæði hefur raunverulegan vilja til að byggja upp samfélagið og laða að sér ungt fólk, eins og ég veit svo sannarlega að það hefur, þá er þessi virkjun ekki svarið,“ segir Guðmundur Ingi hjá Landvernd. „Hreppsbúar vilja tvennt; fleira fólk og bættar samgöngur árið um kring. En það fær hvorugt með Hvalárvirkjun.“

Um 30 manns hafa vetursetu í Árneshreppi á Ströndum. Hrefna …
Um 30 manns hafa vetursetu í Árneshreppi á Ströndum. Hrefna Þorvaldsdóttir matráður Finnbogastaðaskóla gengur til vinnu ásamt barnabarni sínu sem býr ekki lengur í hreppnum. Að baki þeim má sjá kirkju sem mikill styr stóð um fyrir áratugum. mbl.is/Golli

Að lokum verður það hreppsnefnd Árneshrepps sem tekur ákvörðun um hvort af virkjun verður. Það er í hennar höndum að meta hvort hin brýna nauðsyn í þágu almannahagsmuna sé til staðar svo raska megi fossum og vötnum heiðarinnar. „Já, það er víst enginn sem mun taka þann kaleik frá okkur,“ segir Eva oddviti um ábyrgðina. Hún segist ekki munu skorast undan henni.

Ingólfur varaoddviti segir hins vegar að enn sé margt ófrágengið. „Þetta er alltof stórt og viðamikið mál fyrir svona lítið sveitarfélag að glíma við,“ segir hann. „Þetta er mjög flókið og þess vegna er best að flýta sér hægt í öllum ákvarðanatökum. Enda liggur ekkert á.“

Hver er hin brýna nauðsyn?

Á verndun óbyggðra víðerna, stöðuvatna og fossa var ítrekað bent í áliti Skipulagsstofnunar á matsskýrslu Hvalárvirkjunar. Í náttúruverndarlögum segir að standa beri vörð um víðerni og ekki raska fossum og stöðuvötnum nema brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi.

Var það niðurstaða stofnunarinnar að áhrif Hvalárvirkjunar yrðu neikvæð eða verulega neikvæð á flesta þá þætti sem voru til skoðunar.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

En eru almannahagsmunir nú í húfi?

„Já, alveg klárlega,“ svarar Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. „Það eru klárir almannahagsmunir að innviðir landsins séu áreiðanlegir, traustir og tryggir og að fólk fái rafmagn.“

Guðmundur Ingi, framkvæmdastjóri Landverndar, er í hópi þeirra sem eru á annarri skoðun. „Eins og málin líta út núna þá mun Hvalárvirkjun og tengingar hennar við flutningsnetið engu máli skipta hvað varðar raforkuöryggi á Vestfjörðum nema ráðist verði í hringtengingu rafmagns sem kæmist sennilega aldrei á fyrr en að 15-20 árum liðnum ef vel gengi.“

Þar kemur Guðmundur Ingi inn á ein helstu rökin í umræðunni um Hvalárvirkjun: Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og hringtengingu hennar. Slíkri tengingu er ekki að fagna í fjórðungnum í dag og raforkuöryggi er víða ábótavant. Hið ótrygga rafmagn skýrist af tvennu: Aðeins ein meginflutningslína er inn á svæðið og bilanir eru tíðar víðsvegar í dreifikerfinu.

Með því að tengja Hvalárvirkjun við Vesturlínu í Reykhólasveit væri …
Með því að tengja Hvalárvirkjun við Vesturlínu í Reykhólasveit væri hægt að tryggja raforkuflutning til Mjólkár ef bilanir verða frá Gilsfirði og í Kollafjörð. Þessi tenging hefði engin áhrif á bilanir annars staðar í kerfinu. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Stóra spurningin er hins vegar sú hvort Hvalárvirkjun sé nauðsynleg á þessum forsendum.

1% orkunnar framleitt með dísilolíu

Hvalárvirkjun mun engin áhrif hafa á hringtengingu rafmagns fyrr en í fyrsta lagi að mörgum árum liðnum. Tengja þyrfti rafmagnið inn á Ísafjörð, mögulega með sæstreng eða loftlínu og jarðstrengjum. Slíkt er kostnaðarsamt og auk þess aðrar leiðir en hringtenging með þessum hætti til skoðunar til að bæta öryggið.

Á Vestfjörðum er framleitt minna en helmingur raforkunnar sem þar er notuð. Það sem uppá vantar er flutt frá meginflutningskerfinu inn á svæðið um Vesturlínu. Sú loftlína er bilanagjörn. Til að auka afhendingaröryggið hefur Landsnet síðustu ár lagt áherslu á að bæta innviði svæðisins og koma upp varaaflsstöðvum og var hlutfall þeirrar orku sem framleidd var með dísilolíu í fyrra 1% af heildarorkuöflun Orkubús Vestfjarða.

Ætla að samtengja byggðakjarna

Nú er stefnt að því að samtengja byggðakjarna, m.a. á suðurfjörðunum, með hringtengdu kerfi. „Þar höfum við séð fyrir okkur að vera með bæði loftlínu- og jarðstrengjakerfi og að leggja jarðstrengina í gegnum jarðgöng þegar færi gefst,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Ótryggt rafmagn á Vestfjörðum hefur í gegnum árin valdið skemmdum á tölvum og öðrum rafbúnaði auk almennra óþæginda sem rafmagnsleysi fylgir. En með aðgerðum síðustu ára er kerfið nú orðið öruggara í rekstri.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Jóhannesson orkumálastjóri og forstjóri Landsnets eru sammála um að Hvalárvirkjun myndi bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Hún myndi hins vegar ekki tryggja það. Til þess þarf hina umtöluðu hringtengingu. „Svæðið mun enn búa við skert öryggi miðað við flest önnur landsvæði,“ segir Guðmundur Ingi. „Hvalárvirkjun kemur okkur ekki á leiðarenda í því öryggismáli. En vel á veg.“

En með hvaða hætti gæti virkjunin bætt ástandið?

Verði sú leið farin að tengja hana við Vesturlínu í Kollafirði í Reykhólasveit, eins og oftast er nú rætt um, væri hægt að nota raforku hennar tímabundið þegar útleysing verður á um 120 kílómetra kafla af hinni 160 kílómetra löngu línu. Í þessum tilvikum yrði hins vegar ekki samtímis hægt að flytja umframorku út af svæðinu til viðskiptavina.

Kæmi „sterk inn“ á Vesturlínu

En þó að Hvalárvirkjun myndi koma „sterk inn“, eins og forstjóri Landsnets orðar það, hvað 3/4 hluta Vesturlínu varðar, verða bilanir víðar í dreifikerfi Vestfjarða og í dag eru þær hvað mestar á línum frá Mjólkárvirkjun inn á suðurfirðina. Á það myndi Hvalárvirkjun engin áhrif hafa.

Á þetta leggur framkvæmdastjóri Landverndar áherslu. Hann segir að ef vilji sé til að bæta afhendingaröryggið þá verði bilanagjarnar línur settar í jörð. „Það ætti að taka mun skemmri tíma en að bíða eftir öllum þessum virkjunum.“

„Allar þessar virkjanir“ sem Guðmundur Ingi nefnir eru enn einn angi málsins. Í augnablikinu eru engar tengingar við meginflutningskerfi raforku í nágrenni fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Flytja þyrfti rafmagnið um langan veg; fyrst yfir Ófeigsfjarðarheiði og að Ísafjarðardjúpi og þaðan yfir Kollafjarðarheiði að Vesturlínu í Reykhólasveit. Engin lína er á Ófeigsfjarðarheiði. Engin tengipunktur er í Ísafjarðardjúpi. Og engin lína liggur yfir Kollafjarðarheiðina.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Þegar Hvalárvirkjun var sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013, einn virkjunarkosta á Vestfjörðum, mætti hún lítilli andstöðu. Skýringin er meðal annars fólgin í því að lengi hafði verið rætt um að kostnaður við að tengja hana við flutningskerfið væri of hár og var það m.a. niðurstaða skýrslu Landsnets árið 2009. Hún var því lengi vel ekki raunhæfur kostur til orkuöflunar.

Þrennt kom til sem breytti þessu. Í fyrsta lagi hefur raforkuverð til stórnotenda hækkað undanfarin ár og tekjur af framleiðslu og flutningi raforku þar með. Fyrir um tveimur árum vöknuðu svo af alvöru hugmyndir um nýtt tengivirki við Ísafjarðardjúp. Um svipað leyti var farið að ræða um að fleiri fyrirhugaðar virkjanir á svæðinu gætu nýtt tengipunktinn, m.a. Austurgilsvirkjun. Í þingsályktunartillögu 3. áfanga rammaáætlunar, sem enn bíður afgreiðslu Alþingis, er lagt til að hún fari í orkunýtingarflokk. Skúfnavatnavirkjun, lítil virkjun sem VesturVerk áformar einnig að reisa, gæti svo verið sú þriðja sem nýtti tenginguna. „Þessi tengipunktur við Djúp gæti þannig orðið safnþró fyrir töluvert mikla uppbyggingu,“ segir Guðni. „Þannig að þetta er ekki lengur spurning fyrir okkur að tengja eina virkjun heldur nokkrar inn á kerfið,“ segir Guðmundur Ingi hjá Landsneti. „Það gerbreytir myndinni.“

Vísir að hagrænum forsendum

Þar með var kominn vísir að hagrænum forsendum fyrir því að reisa og tengja Hvalárvirkjun. Hins vegar er hún eina virkjunin af þessum þremur sem er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Forstjóri Landsnets segir ekki koma til greina að bíða með ákvörðun um tengipunktinn þar til örlög Austurgilsvirkjunar í rammaáætlun ráðast.

Landsnet mun ákveða hvernig tengingum virkjunarinnar yrði háttað og meta svo kostnaðinn. Ákveðnir þættir gjaldskrár fyrirtækisins fara í að fjármagna tenginguna við meginflutningskerfið og fari kostnaðurinn umfram þá greiðir framkvæmdaaðilinn það sem útaf stendur. Viðræður við VesturVerk munu hefjast innan skamms.

Aðrir valkostir til staðar

Orkumálastjóri segir fyrirséð að Landsnet þurfi að fara í framkvæmdir á Vestfjörðum til að auka raforkuöryggið. „Við ætlum ekki að hafa þetta svona um alla framtíð,“ segir hann. „Hluta af slíkri innviðauppbyggingu er ekki hægt að ætlast til þess að einstakir framkvæmdaaðilar greiði fyrir, við þurfum einnig að meta öryggið.“

Hann segir að á endanum gæti þetta orðið pólitísk spurning. „Það er ekki nóg að svara því að þetta sé ekki hagkvæmt, að tölvan segi einfaldlega nei.“

Vesturlína er eina tenging Vestfjarða við meginflutningskerfi raforku. Meirihluti orkunnar …
Vesturlína er eina tenging Vestfjarða við meginflutningskerfi raforku. Meirihluti orkunnar sem notuð er í fjórðungnum er flutt á svæðið um þá línu. mbl.is/Golli

Og pólitíkin tók við sér fyrir nokkru. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, opnaði á möguleikann um nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi í umræðum á Alþingi snemma árs í fyrra. Í framhaldinu var gerð reglugerðarbreyting um framkvæmd orkulaga. Í henni segir m.a.: Flutningsfyrirtækinu [Landsneti] er heimilt að miða við áætlun um hærra hlutfall tekna við útreikning kerfisframlags ef [...] tenging vinnsluaðila er sú fyrsta á nýju svæði sem skilgreint er sem virkjanaklasi fyrir einn eða fleiri virkjunarkosti samkvæmt nýtingarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Þar með var opnað á þann möguleika að fyrsti framkvæmdaaðilinn, sem í þessu tilviki er VesturVerk, þurfi ekki einn að standa undir öllum umframkostnaði sem yrði vegna tengiframkvæmdanna. „Það er ekki inni í myndinni að ríkið leggi til neina peninga til verkefnisins,“ segir Guðmundur Ingi. „Þetta verður leyst á viðskiptalegum forsendum og í samræmi við raforkulög.“

Framkvæmdastjóri Landverndar segir líklegt að kostnaðurinn verði hár og að Landsnet hafi þá ekki aðrar bjargir en þær að velta honum yfir á gjaldskrá sína. „Þá erum við farin að tala um að almenningur og fyrirtæki í eigu almennings yrðu farin að niðurgreiða einkaframkvæmd. Og hvernig hljómar það?“

Spurður hvort raforkuverð til almennra neytenda gæti hækkað af þessum sökum segir forstjóri Landsnets það fara eftir því hvort auknar tekjur af orkuflutningi standi undir fjárfestingunni eður ei. Orkumálastjóri telur að áhrif á gjaldskrá flutnings fyrir landið í heild yrðu lítt merkjanleg.

Hvalárvirkjun myndi skapa auknar tekjur bæði fyrir Landsnet og framleiðandann og yrði því að sögn forstjóra Landsnets ekki dýr aðgerð til að bæta raforkuöryggið. „Miðað við aðra valkosti til að bæta rekstraröryggið á Vestfjörðum er þetta í raun ódýr lausn.“

Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn yrði stíflað og þar gert uppistöðulón. Drangajökull sést í …
Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn yrði stíflað og þar gert uppistöðulón. Drangajökull sést í baksýn. mbl.is/Golli

Fyrir utan þá almennu uppbyggingu sem þegar er hafin eru hinir valkostirnir fyrst og fremst tveir. Annar er sá að virkja annars staðar á Vestfjörðum og þá jafnvel með byggingu smærri virkjana. Nokkrar slíkar eru fyrirhugaðar. Þær eru þó flestar í nokkuð fjarlægri framtíð. „Hvalárvirkjun virðist vera sá virkjunarkostur sem er næst í tíma af þeim sem eru yfir 10 megavött á svæðinu,“ segir Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða. „En allir virkjanakostir sem tengja má með öruggri tengingu inn á flutnings- og dreifikerfið kæmu til með að hjálpa til við að bæta öryggið.“

Hinn valmöguleikinn er að tryggja öruggari raforkuflutning inn á Vestfirði í stað þess að virkja þar. Þá þyrfti að tvöfalda Vesturlínu. Sú aðgerð myndi kosta 6-10 milljarða króna og við hana myndu engar tekjur skapast í kerfinu. „Það er gerlegt en mjög kostnaðarsamt,“ segir forstjóri Landsnets.

Ekki búið að selja orkuna

Enn er ekki búið að selja orkuna sem aflað yrði í Hvalárvirkjun. „Við byggjum ekki virkjunina öðruvísi en að raforkan sé seld,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, forstjóri VesturVerks. Að hans sögn hafa kaupendur þegar sýnt henni áhuga. Persónulega hugnast honum ekki að orkan yrði nýtt til stóriðju. Hins vegar fari hann ekki með meirihluta í fyrirtækinu.

Engin stóriðja er á Vestfjörðum í dag og áhugi á slíku virðist ekki fyrir hendi. Hvalárvirkjun myndi framleiða rafmagn sem er meira en það sem notað er í fjórðungnum í dag. Því er ljóst að stór hluti þess, að minnsta kosti fyrstu árin og jafnvel áratugina, yrði fluttur út af svæðinu. Þegar fram líða stundir er Gunnar Gaukur þó sannfærður um að hún yrði alfarið notuð innan svæðisins samhliða aukinni atvinnuuppbyggingu.

Verður orkan úr Hvalárvirkjun einhvern tíma notuð til að knýja kísilver eða aðra stóriðju?

„Nei, það er ekki að fara að gerast,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku. „Ég sé það ekki fyrir. Þessi raforka verður öll notuð á Vestfjörðum innan fárra áratuga.“

Hann segist auk þess ekki sjá hvað geti verið slæmt við það að flytja orku frá Vestfjörðum. „Við búum í einu landi, svo þessi neikvæða umræða um flutning orkunnar frá Vestfjörðum er óskiljanleg. En ég skil andstöðu við stóriðju. Hvalárvirkjun er hins vegar ekki einu sinni af þeirri stærðargráðu að hún sé að fara að nýtast fyrir stóriðju.“

Myndin sem kveikti umræðuna

„Viljum við fórna svona perlu fyrir megavött til stóriðju? Slíkt væri brjálæði. [...] Við þurfum að skila svona perlum til næstu kynslóða, ekki til HS Orku eða Vesturverks.“

Tómas Guðbjartsson við Rjúkandafoss í ánni Rjúkanda í Ófeigsfirði.
Tómas Guðbjartsson við Rjúkandafoss í ánni Rjúkanda í Ófeigsfirði.

Þetta skrifaði hjartaskurðlæknirinn, fjallamaðurinn og náttúruunnandinn Tómas Guðbjartsson í facebookfærslu fyrripart sumars. Í færslunni birti hann mynd af sér við Rjúkandafoss í ánni Rjúkanda sem fellur af Ófeigsfjarðarheiði. Færslunni var deilt tæplega 1.800 sinnum. Það er kannski einföldun að segja að þessi myndbirting hafi hrundið andmælum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun af stað, ýmislegt annað kom til, en ljóst er að hún vakti fólk alls staðar á landinu til umhugsunar og hafði mikil áhrif á umræðuna sem á eftir fylgdi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert