„Gríðarlegt inngrip í opinbera umræðu“

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritjstórar Stundarinnar.
Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritjstórar Stundarinnar. mbl.is/Golli

„Ákvörðun sýslumanns um lögbann á umfjöllun um viðskipti þingmanns, sem nú er forsætisráðherra, er gríðarlegt inngrip í opinbera umræðu í lýðræðisríki. Hún er einnig óréttlætanleg valdbeiting gegn stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í andmælum fjölmiðilsins Stundarinnar við fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík, sem samþykkti fyrr í dag lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr fallna bankanum. Greint er frá þessu á vef Stundarinnar.

Þar kemur fram að fulltrúar sýslumannsins í Reykjavík hafi birst fyrirvaralaust á skrifstofu fjölmiðilsins klukkan fjögur í dag ásamt lögmanni Glitnis.

Tilgangurinn hafi verið að krefjast þess að Stundin afhenti gögn sem miðillinn hefur byggt umfjöllun sína um viðskipti Bjarna Benediktssonar á, léti þegar í stað af umfjöllun sinni og eyddi öllum fréttum sem birtar hafa verið á vefsvæði Stundarinnar um viðskiptin. Sýslumaður samþykkti hins vegar hvorki að gögnin yrðu afhent, né að fréttir yrðu afmáðar. Líkt og áður sagði var þó lögbann samþykkt á frekari umfjöllun byggða á gögnunum.

Í andmælum Stundarinnar er bent á að fordæmi sé fyrir því að umfjöllun byggð á gögnum úr bankakerfinu hafi haft afgerandi áhrif á stjórnmálaumræðu í landinu. Er þar vísað til Panama-skjalanna.

„Mikið ójafnræði er á milli málsaðila í málinu. Annars vegar er fjármálafyrirtæki með gríðarlega fjármuni að baki sér. Hins vegar er lítið fjölmiðlafyrirtæki sem býr við erfitt rekstrarumhverfi. Fjölmiðillinn hefur ekki fengið tækifæri til að undirbúa málsvörn sína, líkt og fjármálafyrirtækið. Þá hefur Glitnir þegar sent út fréttatilkynningu um málið, án þess að ritstjórnin eða fjölmiðlafyrirtækið hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri sínu sjónarmiði í opinberri umræðu,“ segir jafnframt í frétt Stundarinnar.

Stundin kom eftirfarandi andmælum á framfæri við fulltrúa sýslumanns:

Ákvörðun sýslumanns um lögbann á umfjöllun um viðskipti þingmanns, sem nú er forsætisráðherra, er gríðarlegt inngrip í opinbera umræðu í lýðræðisríki. Hún er einnig óréttlætanleg valdbeiting gegn stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi. 

Fordæmi eru fyrir því að umfjöllun byggð á gögnum úr bankakerfinu, svokölluðum Panama-skjölum, hafi haft afgerandi áhrif á stjórnmálaumræðu í landinu. Upplýsingar um viðskipti kjörinna fulltrúa samhliða trúnaðarstörfum þeirra fyrir almenning eiga erindi til almennings.

Hagsmunir almennings og opinberrar umræðu eru ríkari en hagsmunir fjármálafyrirtækja af því að halda leynd yfir viðskiptum í aðdraganda hruns bankakerfisins á Íslandi. 

Fulltrúar sýslumanns og lögmaður Glitnis mættu fyrirvaralaust á skrifstofu ritstjórnar Stundarinnar til þess að takmarka tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi.

Mikið ójafnræði er á milli málsaðila í málinu. Annars vegar er fjármálafyrirtæki með gríðarlega fjármuni að baki sér. Hins vegar er lítið fjölmiðlafyrirtæki sem býr við erfitt rekstrarumhverfi. Fjölmiðillinn hefur ekki fengið tækifæri til að undirbúa málsvörn sína, líkt og fjármálafyrirtækið. Þá hefur Glitnir þegar sent út fréttatilkynningu um málið, án þess að ritstjórnin eða fjölmiðlafyrirtækið hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri sínu sjónarmiði í opinberri umræðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert