Þýðingarmikil afsökunarbeiðni forsetans

Anna Katrín, Guðni Th. Jóhannesson, Glódís Tara og Halla Ólöf …
Anna Katrín, Guðni Th. Jóhannesson, Glódís Tara og Halla Ólöf ræddu málin á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Baráttukonurnar Glódís Tara Fannarsdóttir, Anna Katrín Snorradóttir og Halla Ólöf Jónsdóttir mættu til fundar við Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Tilefni fundarins var afsökunarbeiðni forsetans á aðkomu sinni í því að veita Roberti Downey, áður Róberti Árna Hreiðarssyni, uppreist æru, fyrr á árinu.

Allar hafa þær orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi Roberts og hafa þær verið áberandi í samfélagsmiðlabyltingunni #höf­um­hátt þar sem krafist er breyt­inga í íslensku sam­fé­lagi þar sem enn sé langt í land í bar­átt­unni gegn kyn­ferðisof­beldi.

Forsetinn setti sig í samband við Önnu Katrínu í gegnum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, þegar hún kom til fundar við forsetann eftir kosningar. „Hann vildi fá að hitta okkur og biðja okkur afsökunar,“ segir Anna Katrín í samtali við mbl.is.

Þær játa allar að hafa fundið fyrir smá stressi áður en þær mættu á Bessastaði í dag en það hvarf fljótt þegar þær sáu móttökurnar sem þær fengu.

„Þetta var mjög súrrealískt en samt vorum við spenntar að hitta hann og finnst það mjög virðingarvert að hann muni eftir okkur í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum og að hann sé með hugann við okkur og nýti þær boðleiðir sem hann hefur til að hafa samband við okkur,“ segir Anna Katrín.

Spurðar nánar út í fundinn og formlegheit hans segir Glódís Tara: „Formlegur og ekki formlegur, við fengum okkur bara pönnukökur og kaffi og ræddum málin,“ segir hún létt í bragði. Umræðuefni fundarins var þó alvarlegt. „Það er formlegt að fara á Bessastaði og móttakan var formleg en fundurinn sjálfur var mannlegur,“ segir Halla Ólöf.

Staðfesting á baráttumálunum

Afsökunarbeiðni frá forsetanum er afar þýðingarmikil að þeirra mati. „Hún er ótrúlega mikilvæg fyrir okkur og staðfesting á öllu sem að við höfum verið að berjast fyrir,“ segir Anna Katrín.

„Ég var ánægð með að hann steig fram, tók ábyrgð á sínum hlut í málinu og baðst innilegrar afsökunar. Hann sagði að það að skrifa undir svona og eiga þátt í því að þessir menn hafi fengið uppreista æru og að hafa valdið okkur þessum sársauka liggja þungt á honum. Hann vildi sjálfur, persónulega, biðjast afsökunar á sínum hluta í málinu,“ segir Glódís Tara.

„Og ekki bara endilega sem forseti. Hann er faðir og hann er mannlegur,“ bætir Anna Katrín.  

Annasamur dagur fyrir byltingarkonur

Eftir að fundinum lauk þurftu stelpurnar að hafa hraðar hendur til að koma sér á næsta stað, en þær tóku á móti viðurkenningu frá Siðmennt síðdegis í dag.

Þar tóku þær á móti húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir hönd #höfumhátt, fyrir mikilvæg störf í þágu mannréttinda og mannúðar á Íslandi.

Halla Ólöf, Glódís Tara, Þórhildur Sunna þingmaður Pírata og Anna …
Halla Ólöf, Glódís Tara, Þórhildur Sunna þingmaður Pírata og Anna Katrín á viðburði Siðmenntar í dag þar sem þær tóku á móti viðurkenningu fyrir störf sín fyrir #höfumhátt. Ljósmynd/Aðsend

Eftir þennan annasama dag eru stelpurnar fullar af eldmóði til að halda sínum baráttumálum áfram.

„Við viljum að umræðan haldi áfram og að fleiri taki Guðna sér til fyrirmyndar,“ segir Halla Ólöf. Skilaboðunum beina þær einna helst til stjórnmálamanna, en frá þeim hafa lítil svör borist. „Þeir tala oft um okkur en aldrei við okkur,“ segir Glódís Tara.

„Fyrst að forsetinn gat gefið sér tíma til þess að muna eftir okkur og baráttunni okkar og af hverju ríkisstjórnin sprakk, þá ættu aðrir að geta tekið hann til fyrirmyndar og gert það líka. Þetta er virkilega mikilvægt málefni sem snertir langflesta Íslendinga. Við munum ekki hætta að berjast, við höldum áfram að hafa hátt,“ segir Anna Katrín.

„Við erum rétt að byrja,“ segir Glódís Tara.

 mbl.is
Loka