Vilja vita hverjir dónakallarnir eru

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, segir umræður í …
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, segir umræður í Facebook-hópinum ekki hafa snúist um ákveðna einstaklinga. mbl.is/Golli

„Við vonumst til að opið samtal fari fram innan stjórnmálaflokkanna í kjölfarið, um það hvernig við getum bætt menninguna innan flokkanna,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, sem stofnaði Facebook-hópinn Í skugga valdsins. Þar hafa konur í stjórnmálum undanfarna daga deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi og áreitni í stjórnmálum.

Greint var frá því í vikubyrjun að rúmlega 600 konur hefðu skráð sig í lokaðan Facebook hóp þar sem þær deildu reynslusögum sínum og voru 136 slíkar sögur gerðar opinberar í dag. Hátt á níunda hundruð konur eruí Facebook-hópnum í dag, og sögurnar halda áfram að berast inn. „En við munum ekki birta meira,“ segir Heiða Björg.

Það standi heldur ekki til að upplýsa hvaða einstaklinga reynslusögurnar fjalla um, eða um hvaða stjórnmálaflokka sé að ræða. „Það var ákvörðun sem við tókum strax í byrjun. Þessi áskorun fjallar ekki um hvaða ákveðni stjórnmálamaður eða flokkur sé vandamálið, eða verri en einhver annar, eða heldur að einhver ákveðin stjórnmálakona hafi lent verr í þessu en einhver önnur. Við erum í raun bara að ávarpa menninguna,“ segir Heiða Björg.

Ekki bannað að segja frá

„Okkur sem hópi fannst hins vegar mikilvægt að þetta kæmi svona frá okkur öllum og að við værum ekki að setja fókusinn á ákveðna einstaklinga. Við erum þó ekki að banna neinni stjórnmálakonu að segja frá ef hún vill. Það eiga allir að eiga sína sögu sjálfir og það á bara eftir að koma í ljós hvort að fólk vill gera það eða ekki.“

Spurð hvort ekki sé þrýst á þær að gefa upp hverjir þetta séu segir hún: „Það er mikill áhugi á að vita hverjir eru dónakallarnir, en við höfum ekkert endilega verið að ræða það opinskátt í hópnum.“

Facebook-hópurinn sé ekki vettvangur til að ræða um einstaka karla. „Margar konur í stjórnmálum eiga samt kannski sameiginlega reynslu, en almennt er þetta samt meira valdamenningin en einstaka atburðir sem við erum að ávarpa.“

Þær hafa líka fengið viðbrögð frá félögum stjórnmálaflokka, sem og frá körlum í stjórnmálum, „sem eru slegnir og virðast ekki hafa áttað sig á þessu“. Sömuleiðis hafa borist viðbrögð frá fólki utan stjórnmálaheimsins. „Þessi menning er ekki bara bundin við stjórnmálin, þannig að það eru ekki allir hissa, en fólki finnst sögurnar samt sýna að þetta er stærra vandamál en það hélt“, segir hún.

Heiða Björg segir ekki hafa verið ákveðið hvort málinu verði fylgt eftir frekar. „Það má vel vera að einhverjir geri það,“ segir hún. Konurnar í hópnum ætli þó að hittast víða um land klukkan fimm í dag og fagna.

mbl.is