„Gríðarlega uggandi“ vegna Baldurs

Baldur, sem er fjörutíu ára gamalt skip, á siglingu.
Baldur, sem er fjörutíu ára gamalt skip, á siglingu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum gríðarlega uggandi varðandi það sem framundan er,” segir Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri Odda hf., en Breiðafjarðarferjan Baldur mun hugsanlega ekkert sigla það sem eftir lifir ársins vegna vélarbilunar.

Baldur hefur siglt daglega tvær ferðir yfir Breiðafjörðinn frá Stykkishólmi til Brjánslækjar með viðkomu í Flatey.

Oddi hf., framleiðir frystar, ferskar og saltaðar sjávarafurðir. Vörurnar hefur fyrirtækið flutt um borð í Baldur á Brjánslæk eftir að hafa ekið með þær yfir fjallaveg, Kleifaheiði, frá Patreksfirði. Frá Stykkishólmi eru vörurnar svo fluttar á Keflavíkurflugvöll.

Erfiðasti tíminn framundan

„Það er ólíklegt annað en að þetta hafi mikil áhrif á okkur,” segir Skjöldur og bendir á að framundan sé erfiðasti tíminn fyrir samgöngur hér á landi en jafnframt sá mikilvægasti fyrir sölu á sjávarafurðum, sérstaklega ferskum.

„Þar þurfum við að geta tryggt viðskiptavininum afhendingu á hverjum einasta degi vikunnar og Baldur hefur verið algjört lykilatriði í því.”

Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði.
Skjöldur Pálmason framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði.

Hann nefnir að með því að taka Baldur yfir Breiðafjörð hafi fyrirtækið getað byggt upp mikilvæg viðskiptasambönd með ferskar afurðir í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem afhendingaröryggið sé framar öllu.

„Tíminn sem framundan er, næstu 6 til 8 vikur, er sá allra mikilvægasti á árinu varðandi magn, verð og afhendingaröryggi.”

Spurður hvort fleiri fyrirtæki séu í sömu sporum og Oddi nefnir hann Arnarlax sem er með starfsemi á Bíldudal og Tungusilung á Tálknafirði.

Vegakerfið slæmt 

Skjöldur segir vegakerfið á Vestfjörðum alls ekki nógu gott og vill að Vegagerðin geri allt sem í hennar valdi stendur til að halda leiðinni opinni því ekki sé nóg að treysta á gott veður.

Hann vonast jafnframt til þess að önnur ferja komi í staðinn fyrir Baldur á meðan viðgerð á skipinu stendur yfir.

Baldur við bryggjuna í Stykkishólmi.
Baldur við bryggjuna í Stykkishólmi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert