Jafnvægi eftir blóðtökuna í gær

Blóðbankinn er til húsa við Snorrabraut.
Blóðbankinn er til húsa við Snorrabraut. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgðastaða Blóðbankans er nú komin í eðlilegt horf á ný. Þetta segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans. Blóðbankinn sendi í gær út neyðarkall til blóðgjafa í O-blóðflokki í kjölfar rútuslyssins við Kirkjubæjarklaustur.

„Notkun á blóði var heldur minni en hefði getað stefnt í út frá þeim fjölda slasaðra sem var fluttur á Landspítalann,“ segir Sveinn. Um 180 einingar af blóði voru gefnar í gær og er gærdagurinn einn sá stærsti í sögu bankans. Þar af voru 50 einingar, um 25 lítrar, gefnir slösuðum farþegum rútunnar.

Opið verður í Blóðbankanum í dag til klukkan 19, eins og aðra fimmtudaga. „Það er ekkert ástand sem ríkir hjá okkur. Við erum ágætlega birg þannig að við leggjum það bara í hendur hvers og eins blóðgjafa hvort hann vill mæta núna rétt fyrir áramótin eða rétt eftir.“

Sveinn er þakklátur þeim sem lögðu leið sína í Blóðbankann í gær. Um 7.000 virkir blóðgjafar eru á Íslandi, en án þeirra væri ekki hægt að bregðast við ástandi eins og upp kom í gær, segir Sveinn.

Hann hvetur landsmenn til að stengja þess heit um áramótin að gerast blóðgjafar.

„Það sem mætir blóðgjöfum þegar þeir koma fyrst er að kynnast húsakynnunum, starfsfólkinu og bakkelsinu okkar og kaffi. Síðan eru tekin sýni, farið í blóðflokkun og veiruskimun og fólk svo kallað eftir nokkrar vikur til blóðgjafar. Það hentar okkur best að það sé gert á nýja árinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert