Tveir í haldi eftir umfangsmiklar aðgerðir

mbl.is/Þórður

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur grunaðir um að hafa staðið að innflutningi á töluverðu magni af fíkniefnum til landsins. Það var fréttastofa Stöðvar 2 sem greindi fyrst frá málinu. Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, staðfesti í samtali við mbl.is að tveir menn hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa ráðist í umfangsmiklar aðgerðir, ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, vegna málsins á tveimur stöðum í fyrradag. Annars vegar á veitingastaðnum Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ og hins vegar í húsnæði Skáksambands Íslands í Faxafeni, að því er Stöð 2 hefur eftir heimildum. Grímur sagði að ekki væri talið að starfsmenn Skáksambandsins tengdust málinu.

mbl.is