Lítið starfsöryggi dagforeldra

Barn á leikskóla í Reykjavík.
Barn á leikskóla í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

„Starfsöryggi dagforeldra er ekki gott,“ segir Halldóra Björk Þórarinsdóttir, dagmamma og formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík.

„Þegar það er talað um lengingu fæðingarorlofs, ungbarnadeildir á leikskóla og byggingu fleiri leikskóla þá veldur það óöryggi dagforeldra,“ segir hún og nefnir að lungann úr árinu séu dagforeldrar ekki með fullar tekjur.

Sjálf er hún með 12 börn á biðlista sem vilja komast að í febrúar.

Dagforeldrum í Reykjavík hefur fækkað úr 170 í 135 á tveimur árum. Þetta kemur fram í upplýsingum frá skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Meðal annars verður brugðist við skorti á dagforeldrum með því að auglýsa eftir þeim og bjóða upp á námskeið.

Jafnframt stofnaði Reykjavíkurborg í síðustu viku starfshóp um dagforeldrakerfið sem á að fara yfir stöðu mála. Hann mun skila tillögum um nýjar ungbarnadeildir á næstum vikum, að því er Fréttablaðið greindi frá. Stýrihópurinn Brúum bilið á einnig að kortleggja til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að ná því markmiði borgarinnar að öllum 18 mánaða börnum standi til boða pláss á leikskóla.

Að sögn Halldóru Bjarkar eiga dagforeldrar erfitt með að fylla plássin fyrir sumarleyfi þegar leikskólar taka börnin inn í maí. Þar fyrir utan er sumarleyfið tekið launalaust. „Þá erum við kannski að koma úr sumarfríi með tvö börn af fimm, eins og var í haust. Margir voru ekki að fylla plássin fyrr en í nóvember, desember. Svo allt í einu kemur þessi holskefla og allir vilja pláss í janúar, febrúar og mars.“ Hún nefnir að mannekla innan leikskólanna stjórni þróuninni töluvert.

Nýlega var stofnuð Facebook-síðan Foreldrar sem fá ekki daggæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi og eru þátttakendur hennar orðnir á níunda hundrað talsins. Í skoðanakönnun sem hefur verið sett upp á síðunni hafa yfir 220 foreldrar greint frá því að þá vanti pláss fyrir börn sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert