Telur tvær vikur of stuttan tíma

Jakob R. Möller í ræðustól og Haukur Örn Birgisson sitjandi …
Jakob R. Möller í ræðustól og Haukur Örn Birgisson sitjandi á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ráðherra hefur einungis tvær vikur til þess að fara með afstöðu sína fyrir Alþingi. Þetta hygg ég að dæmin hafi sýnt að sé of skammur frestur,“ sagði Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður og formaður hæfisnefndar um skipan dómara, á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík sem fram fór í dag þar sem fjallað var um dómaraskipan.

Frétt mbl.is: „Þetta er glórulaus vitleysa“

„Það tekur auðvitað tíma að kryfja svona nokkuð til þess að það dugi. Þannig að ég held að það væri skynsamlegt að breyta þessari reglu,“ sagði Jakob, en samkvæmt lögum um dómstóla verður ráðherra að leggja fram eigin tillögu að skipan dómara innan tveggja vikna frá því að umsögn hæfisnefndar er afhent honum kjósi hann að fara ekki eftir þeim. Jakob hafði áður sagt á fundinum að hann teldi ekki rétt að breyta lögunum.

Bæði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem var settur dómsmálaráðherra við skipan fjögurra héraðsdómara fyrr á þessu ári, og aðrir hafa bent á að tvær vikur væru ekki nægur tími fyrir ráðherra til þess að leggja mat á umsögn hæfisnefndar, ákveða hvort fallast eigi á hana og ef ekki framkvæma sjálfstæða rannsókn á hæfi umsækjenda í samræmi við dóma Hæstaréttar sem féllu fyrir jól.

Frétt mbl.is: Mat nefndarinnar ekki óskeikult

Sigríður hefur lýst því yfir að af þeim sökum hafi hún stuðst að við umsögn hæfisnefndarinnar þegar hún féllst á ellefu tillögur nefndarinnar um dómara við Landsrétt en lagði til við Alþingi breytingar í fjórum tilfellum. Fyrir þeim breytingum hafi hún fært fullnægjandi rök. Guðlaugur Þór kaus að samþykkja tillögur hæfisnefndarinnar eftir að hafa reynt árangurslaust að fá afhent gögn um framkvæmd mats hennar til þess að geta metið það lögum samkvæmt.

Gagnrýndi boxamerkingar eins og nefndin notaði

Jakob sagðist einnig vilja benda á hættuna af boxamerkingum eins og hann orðaði það. „Það er að segja, einhver sem hefur verið lögmaður allt sitt líf, hann merkir bara í boxið, og síðan hvernig er lesið út úr boxunum.“ Sagði hann gagnlegt að kynna sér inngang álits umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2016 þar sem varað væri við því að vera með slíka tölulega meðferð. Þetta væri hætta sem víða bæri á þar sem til dæmis mannauðsfræðingar hefðu ráðið ríkjum.

„Þetta til dæmis gengur eins og rauður þráður í gegnum gagnrýni sem hefur komið upp í sambandi við ákvarðanir jafnréttisráðs um það þegar hallað er á annað kynið eða hitt í umsögnum,“ sagði Jakob. Til að mynda þar sem talið væri einfaldlega hversu margar háskólagraður viðkomandi hefði eða hversu lengi hann hefði gegnt ákveðinni stöðu. „Þetta er atriði sem huga þarf að í þessum ráðningarmálum yfirleitt.“

Frétt mbl.is: Vald ráðherra fyrst og fremst formlegt

Fyrr á fundinum höfðu hæstaréttarlögmennirnir Haukur Örn Birgisson og Jón Steinar Gunnlaugson gagnrýnt umsögn hæfisnefndarinnar í Landsréttarmálinu meðal annars fyrir slíkar boxamerkingar þar sem einhver sem til dæmis hefði sinnt lögmennsku alla ævi fengi miklu lakara mat en sá sem hefði sinnt fjölbreyttari störfum en stoppað stutt við í hverju þeirra. Sagðist Jakob taka undir þá gagnrýni þeirra Hauks og Jóns Steinars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert