„Þetta er glórulaus vitleysa“

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður á fundinum í dag.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður á fundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum öll sammála um það að það ber að velja þann hæfasta. Það er ekkert álitamál. Það hefur komið fram í dómum og við erum öll sammála um það og auðvitað á að gera það. Vandinn er bara sá hver er hæfastur af umsækjendum og hver á að ráða því hvernig hann er fundinn?“ spurði Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður á hádegisfundi lagadeildar Háskólans í Reykjavík um skipan dómara sem fram fór í dag.

Frétt mbl.is: „Þá haldast ekki í hendur vald og ábyrgð“

„Samkvæmt íslensku stjórnarskránni er það ráðherra sem ber ábyrgð á því hver er skipaður dómari. Er einhver sem mótmælir því? Ég held ekki. Ég held að þetta sé alveg ljóst. Þannig er það samkvæmt íslensku stjórnarskránni,“ sagði hann ennfremur og hreyfði enginn mótmælum. Fyrir vikið stæðist það tæpast 14. grein stjórnarskrárinnar að fá valdið til að velja umsækjendur um dómaraembætti í hendur umboðslausri nefnd.

„Ég held það standist varla en við skulum halda því opnu því ráðherrann hefur svo heimild til þess að fara með breytingatillögu frá því fyrir Alþingi. Vandinn liggur í því hver á að finna þann hæfasta og hvaða sönnungargögn hafa verið lögð fram í því?“ Þau lægju í álitsgerðum hæfisnefnda. Vísaði hann í Excel-skjal hæfisnefndar um umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt þar sem smávægilegar breytingar gátu skorið úr um það hver teldist hæfur.

Frétt mbl.is: Vald ráðherra fyrst og fremst formlegt

„Þetta er glórulaus vitleysa. Halda menn það að þar hafi verið fundnir þeir sem eru hæfastir? Ekki aldeilis,“ sagði Jón Steinar og bætti við að síðan væri sett saman nefnd þar sem ákveðin dómaraelíta réði ferðinni sem setti síðan saman slíkt Excel-skjal. Spurði hann hvort slík nefnd ætti virkilega að ráða því hverjir yrðu dómarar ef hún setti saman slíkt Excel-skjal og teldi sig þar með hafa komist að því hverjir væru hæfastir til að vera dómarar.

„Vá, sannleikurinn fundinn sko. Svona á þetta að vera. Þetta er ekki svona. Við erum ekki að finna þá hæfustu eða þann hæfasta með þessari aðferð. Og hvað gerum við ef við erum með svona reglu, ráðherrann beri ábyrgð og það þarf að velja þann hæfasta, við samþykkjum það, þá höfum við bara eina aðferð: Ráðherrann verður að velja þann sem er hæfastur og skipa hann. Auðvitað, og bera ábyrgð á því pólitískt og á annan hátt.“

Þrátt fyrir mikla annmarka á niðurstöðu hæfisnefndarinnar væri talað um hana sem stórasannleik. „Þetta er allt saman tóm vitleysa. Og taki menn eftir því, og það er hið stóra alvarlega í þessu máli, að dómarahópurinn sem situr í Hæstarétti og í kringum hann hefur slag í slag sýnt sig í því að taka rangar ákvarðanir. Velja ekki þann hæfasta. Það eru valdir skólabræður og kunningjar. Þetta veit öll þjóðin.“

Þannig væri fólk ýmist hafið upp, af því að það þætti æskilegt í hópinn eða voru með viðkomandi í skóla eða eitthvað slíkt, eða settir niður af einhverjum ástæðum sem enginn vissi í raun hverjar væru. „Þetta eru ekki þær aðferðir sem við getum notað um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert