Mjög alvarlegt að póstunum var ekki svarað

Sævar segir að lögreglan þurfi að taka sig á.
Sævar segir að lögreglan þurfi að taka sig á. mbl.is/Kristinn

Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður segir það forkastanlegt að ítrekuðum tölvupóstum hans til lögreglu hafi ekki verið svarað vegna veikinda lögreglufulltrúa. Sævar er réttargæslumaður drengs sem lagði fram kæru á hendur karlmanni í ágúst í fyrra fyrir kynferðis­brot sem hann á að hafa framið gegn hon­um á ár­un­um 2004 til 2010.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglu að mistök hafi verið gerð í upphafi málsins. Einnig kom þar fram að enginn yrði rekinn, heldur yrði kynferðisbrotadeild lögreglunnar efld með sex nýjum stöðugildum frá og með 1. apríl.

Frétt mbl.is: Mistök voru gerð í upphafi

Viðurkenna tölvupóst Sævars

„Upphaflega könnuðust þeir ekki við að ég ítrekaði þetta mál en í skýrslunni viðurkenna þeir núna að ég hafi sent tölvupóst í desember,“ segir Sævar við mbl.is. Fram kom á blaðamannafundinum að Sævar sendi tölvupóst 1. og 5. desember. Þeim var ekki svarað vegna þess að lög­reglu­full­trú­inn var veik­ur. Póst­arn­ir voru send­ir áfram á staðgengil en það leiddi ekki til viðbragða lög­reglu. 

„Það er forkastanlegt. Þetta er það svið hjá lögreglu sem er mjög mikilvægt að það sé virkur samskiptamáti á milli. Ég ítrekaði þennan póst og þessu var aldrei svarað og það er mjög alvarlegt,“ segir Sævar sem hafði áður samband við lögreglu og reyndi að láta reka á eftir málinu eftir að lögreglu barst kæra 24. ágúst.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á blaðamannafundi síðdegis.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á blaðamannafundi síðdegis. mbl.is/Eggert

„Við höfum samband við þá á haustmánuðum 2017 símleiðis og vorum að reka á eftir málinu,“ segir Sævar en þá fengust þau svör að ekki væri búið að úthluta því. „Þeir verða að taka sig á varðandi samskipti sem fara fram í síma og tryggja það að skilaboðum sé komið áleiðis.“

Frétt mbl.is: Lögmaðurinn margítrekaði kæruna

Móðir brotaþola leitaði ráða árið 2015

Sævar bendir á að móðir brotaþola hafi sett sig í samband við lögreglu í desember 2015 en engin skráning sé til um það atvik hjá lögreglu. „Þetta hefur áður komið fram en samkvæmt þessari skýrslu þá virðast þeir ekki vera með skráningu um það að móðir brotaþola kemur til lögreglu og leitar ráða varðandi þetta mál.“

Fram kom í máli lögreglustjóra að í framhaldi af þessu máli yrði kynferðisbrotadeild lögreglunnar efld. Sævar segir að það sé jákvætt að deildin sé efld. „Skýringar lögreglunnar að þeir séu vanari því að barnaverndarnefnd láti þá vita en ekki öfugt eins og í þessu tilviki segir okkur ýmislegt að menn hafi ekki hugsað út fyrir rammann þegar hugað hefur verið að skipulagsmálum í deildinni,“ segir Sævar og bætir við að það þurfi að efla deildina á þann hátt að starfsmenn svari tölvupóstum og um það gildi ákveðnar reglur.

Afleiðingarnar koma í ljós síðar

Enginn lögreglumaður var látinn axla ábyrgð vegna málsins en Sævar segir að það komi í ljós síðar hvaða afleiðingar það hefur í för með sér að málinu hafi ekki verið sinnt um leið og kæra barst.

Ég veit ekki hver staða rannsóknar málsins er og það getur vel verið að viðkomandi hafi hugsanlega misnotað börn eftir að kæran barst lögreglu. Ef það er reyndin, og það má því um kenna að málinu hafi ekki verið sinnt með nægjanlegum hætti, þá finnst mér auðvitað að einhver þurfi að bera ábyrgð hvað mína umbjóðendur varðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert