Vilja bregðast við útafkeyrslu kjararáðs

Í tillögu ASÍ kemur fram að frysting launa æðstu stjórnenda …
Í tillögu ASÍ kemur fram að frysting launa æðstu stjórnenda ríkisins gæti varað út árið 2018 fyrir suma en nokkur ár fyrir þá sem fengu mesta hækkun. mbl.is/Hjörtur

ASÍ telur að kjararáð hafi farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá 2015 í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins. „Ákvarðanir þess voru óskýrar, ógagnsæjar og samræmast ekki fyrirmælum í lögum um störf þess,“ segir í tilkynningu sem sambandið sendi frá sér vegna skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs sem kom út í dag.

Í skýrslu starfshópsins kemur meðal annars fram að gjör­breyta þarf nú­gild­andi fyr­ir­komu­lagi í kring­um kjararáð en ekki eru efn­is­leg­ar for­send­ur fyr­ir því að lækka al­mennt laun þeirra sem eiga und­ir kjararáði til framtíðar.

ASÍ telur að einnig sé mikilvægt að bregðast við útafkeyrslu kjararáðs. „ASÍ vill að það sé gert strax og laun forseta, ráðherra, þingmanna, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra verði með lögum tekin niður sem nemur útafkeyrslunni en fylgi eftir það almennri launaþróun. Meirihluti starfshópsins vill einnig bregðast við en fara aðra leið, þ.e. að laun æðstu embættismanna verði „fryst“ (taki engum hækkunum) þar til þau ná viðmiðum rammasamkomulagsins,“ segir í tilkynningu ASÍ.

Hægt að spara ríkissjóði 473 milljónir króna

Í tillögu ASÍ kemur fram að frysting launa æðstu stjórnenda ríkisins gæti varað út árið 2018 fyrir suma en nokkur ár fyrir þá sem fengu mesta hækkun. Með því að fara þessa leið telur ASÍ að þessi hópur haldi ekki einasta launum upp á 671 milljónir króna vegna hækkana kjararáðs, sem þegar hefur verið greidd, heldur fái til 378 miljónir til viðbótar vegna þessarar sömu útafkeyrslu þar til frystingunni líkur.

Í heild munu hækkanir kjararáðs kosta ríkissjóð 1,3 milljarða. „Ef tillaga ASÍ næði hins vegar fram um lækkun á launum æðstu embættismanna ríkisins mætti spara ríkissjóði 473 milljónir króna,“ segir í tilkynningu ASÍ.  

mbl.is

Bloggað um fréttina