Geimfaraþjálfun á Húsavík

Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag. Ljósmynd/Aðsend

Samstarfssamningur var í morgun undirritaður milli fulltrúa Könnunarsafnsins á Húsavík, ICEXtech á Húsavík og hins finnska fyrirtækis Space Nation um undirbúning geimfaraþjálfunar á Íslandi fyrir nema á vegum Space Nation.

Er þetta annar samningur safnsins og ICEXtech við erlend fyrirtæki í geimiðnaði, en í fyrra var sett af stað samstarf við hið bandaríska fyrirtæki 4th Planet Logistics og verður búnaður á vegum þeirra prófaður á Íslandi síðari hluta sumars.

Vilja koma upp geimiðnaði

"Við erum að vinna að því að koma upp smá geimiðnaði hér á Húsavík og erum mjög spennt að fylgjast með framvindu mála vegna mögulegrar umsóknar Íslands í Evrópsku geimvísindastofnuninni, ESA, en störf sem til verða í tengslum við inngöngu Íslands í stofnunina teljum við vel eiga heima á Húsavík," segir Örlygur Hnefill Örlygsson, forseti sveitarstjórnar Norðurþings og framkvæmdastjóri ICEXtech.

"Sögulega hafa Þingeyjarsýslur lengi tengst könnun himintungla og geimvísindum. Stjörnu-Oddi, sem var árhundruðum á undan sinni samtíð, vann að athugunum sínum í Flatey á Skjálfanda. Í áratugi voru rannsóknir á norðurljósum stundaðar á Tjörnesi og nú rís mikil norðurljósarannsóknarstöð í Reykjadal. Geimfarar hafa hér í nokkur skipti komið til þjálfunar, m.a. flestir þeirra sem gengu á tunglinu og höfum við haldið þeirri sögu vel á lofti, og loks má nefna að búnaður vegna marsbílsins Curiosity var prófaður við Námaskarð," segir Örlygur.

Frá sýningu safnsins um könnun eldfjalla og Öskjusvæðið.
Frá sýningu safnsins um könnun eldfjalla og Öskjusvæðið. Ljósmynd/Aðsend

Örlygur er á leið til Canaveral-höfða í næstu viku og mun flytja erindi um æfingar Apollo geimfaranna hér á landi, en síðar á þessu ári eru 50 ár frá fyrsta fluginu til tunglsins og næsta sumar verða 50 ár frá því að Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið.

"Af því tilefni opnaði Könnunarsafnið á dögunum tvær nýjar sýningar, annars vegar um könnun eldfjalla og Öskjusvæðið, og hins vegar um könnun hella, en talið er líklegt að hellar á tunglinu og Mars muni hýsa fyrstu löngu leiðangra manna þangað, en hellar veita náttúrulega vörn gegn geislun á þessum hnöttum," segir Örlygur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert